26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3845 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hafði fyrst fregnir af þessu máli þegar hv. 9. landsk. þm. Ólafur G. Einarsson hafði símasamband við mig og greindi mér frá því að fyrir dyrum stæði samningsgerð um afnot Íslandslax af jarðhita og köldu vatni í landi kirkjujarðarinnar Staðar. Hann hringdi á mig til þess að spyrjast fyrir um hvort ekkert samráð hefði verið haft við mig eða iðnrn., af því, sem hann taldi þá, að svo hlyti að vera um hnúta búið að óhjákvæmilegt væri að slíkan samning um jarðhita og vatnsréttindi með þessum hætti væri ekki hægt að gera nema kalla iðnrn. til samráðs. Þess vegna lét ég lögfræðing iðnrn. taka saman og gera athugun á hvert stjórnskipulegt forræði ætti við í þessu falli og þess vegna var það að ég rakti nákvæmlega allar lagaskýringar þar að lútandi og er ekkert ódýr málsmeðferð, heldur alveg nauðsynleg af minni hálfu í þessu falli. Það kemur í ljós, þótt ég telji það ekki eðlilegt, að hæstv. landbrh. gat farið þann veg fram í málinu eins og hann hefur sjálfur skýrt hér frá, sem dæmi sanna, án þess að þurfa í einu eða neinu að leita eftir samþykki eða samráði einu sinni, hvað þá meir, við iðnrh. Ég er ekki að segja að þetta sé það sem eðlilegt sé. Ef við eigum eftir að verða sammála um að setja lög um eignarrétt ríkisins á jarðhita og vatnsorku, sem ég er með í undirbúningi, þá hef ég vissulega áhuga á því að allir samningar um jarðhitaréttindi hljóti einnegin að heyra undir iðnrn. ásamt með því rn. sem fer með forræði jarðeigna sem eiga við í hvert skipti. Þetta vil ég að fram komi.

En að öðru leyti hafði ég kannske mestar áhyggjur af því sem snertir kalda vatnið á þessum slóðum. Mér þótti nokkuð taka í hnúkana þegar upplýst var að vatnstökuréttur fyrirtækisins væri 100 sekúndulítrum — eða er það ekki rétt? — meiri en kaldavatnstökuréttur sjálfrar Hitaveitu Suðurnesja. Ég varð af öðrum ástæðum undrandi á þessu og gerði þess vegna fsp. til forstjóra Orkustofnunar, Jakobs Björnssonar, um málið þegar í stað og hv. þm. Ólafur G. Einarsson hafði samráð við mig. Hann sendi mér þá um leið afrit af bréfum þessu að lútandi frá 21. des. s. l. þar sem þeir veita umsögn um ráðstöfun jarðhitaréttinda í landi Staðar o. s. frv., eins og þar segir.

Ég hef ekki fleiru við þetta að bæta, en ég vona að menn skilji og kunni að meta það að auðvitað hlaut ég að sitja fyrir svörum að þessu leyti, að ég nú ekki tali um þegar menn eru með ávirðingar í garð rn. fyrir það að hafa í einhverju ekki sinnt skyldum sínum sem því ella bæri að gera. Ég bið menn að athuga þetta sérstaklega þegar þeir segja að þetta sé lagaflækjuraus, eins og hv. 5. landsk. þm. leyfði sér að hafa uppi orð um.