26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3847 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér finnast þetta nokkuð kúnstugar umr. og ætlaði ekki að blanda mér í þær, en hið sérkennilega hugmyndaflug hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar kom mér til þess að taka til máls. Hann er að gera okkur kollegum, hv. 9. landsk. þm. og mér, upp skoðanir sem eru algjörlega úr lausu lofti gripnar.

Það var hörmulegt, fannst mér, að hlusta á hv. þm. Guðmund H. Garðarsson sem er, herra forseti, 12. þm. Reykv. — Ég vil ekki láta fjarstadda menn liggja undir því ámæli að það gæti farið inn í þingtíðindin að þeir hefðu flutt þær ræður sem Guðmundur hefur verið að flytja hér. 12. þm. Reykv. mun vera hv. þm. Pétur Sigurðsson og hann er fjarstaddur. Það var hv. 2. þm. Reykv. Guðmundur Garðarsson sem flutti þessa sérkennilegu ræðu áðan.

Það er hörmulegt þegar rætt er um SÍS eða önnur fyrirtæki af vanþekkingu og óvild. Ef ég færi að tala um SH af vanþekkingu og óvild væri það líka hörmulegt. Fjárfestingarfélagið hefur auðvitað notið fyrirgreiðslu ríkisins. Ríkið á hlut í Fjárfestingarfélaginu. Framkvæmdasjóður leggur í Fjárfestingarfélagið fé til þess að braska með í fiskirækt og öðru.

Reyknesingar ættu auðvitað að bjóða fiskiræktarfyrirtæki velkomin, en ekki vera að reyna að bregða fæti fyrir þau. Dettur nokkrum í hug að þessi hvellur hefði verið gerður ef Olíumöl hf. hefði farið út í fiskirækt á Reykjanesi eða Íslenskir aðalverktakar eða ÍSAL? Nei, ég held ekki. Ég held að það hefði reynst ágætt ef þessir aðilar hefðu fjárfest í laxeldi, ekki síður en ef Samband ísl. samvinnufélaga gerir það.

Svo eru þessir herrar að koma hér upp og lekur af þeim sultardropinn og tala um hörmulegt atvinnuástand á Reykjanesi. Og svo eru þeir líka að tala um mikilvægi fiskiræktar og vilja veg hennar sem mestan. Landbrh. hefur, herra forseti, að mínu mati farið fullkomlega eðlilega að. Hæstv. iðnrh. talaði hins vegar glannalega hér um daginn um jarðhitaréttindi á Reykjanesi og fiskirækt í því sambandi þegar hann var að leggja niður saltverksmiðjuna. Ég vona að ekki verði með þeim hætti úr þeim fyrirheitum sem hæstv. iðnrh. gaf því að ég hygg að hann komi ekki þeim vilja sínum fram þó hann vildi.

Ég vil biðja menn að taka gleði sína vegna þess að Jón Jónsson jarðfræðingur er búinn að upplýsa þjóðina um að vatnið renni ekki upp í móti.