26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3850 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

376. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Reykv., fyrir að vekja máls á þessu brýna máli. Mig langar til að taka undir það með henni að þetta er mál sem þolir ekki langa bið enn, því að sífellt fjölgar þeim sem í óvígðri sambúð búa. Mér kemur töluvert á óvart það sem kom fram í svörum hæstv. ráðh. að nauðsynlegt sé að bíða eftir niðurstöðu annars vegar á norrænum vettvangi og hins vegar á vettvangi Evrópuráðsins til þess að Íslendingar geti mótað sínar tillögur í þessum málum. Það kom mér á óvart, því að eins og hv. fyrirspyrjandi benti á þá liggur nú fyrir sænska þinginu lagafrv. um skipan þessara mála þar í landi, og það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að við getum sett okkar löggjöf um þessi mál og lagfært hana síðan þegar niðurstaða fæst úr norrænu samstarfi eða Evrópuráðssamstarfi.

Í þessu máli er það fyrst og fremst spurning um vilja og ég vil hvetja til þess að hér verði tekið á því að hér er um brýnt mál að ræða.