26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3850 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

376. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er verið að spyrja um framkvæmd á þáltill. sem var samþykkt á hv. Alþingi fyrir fjórum árum síðan. Með samþykkt þessarar þáltill. kemur fram ótvíræður vilji Alþingis um að tryggja beri réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð, ekki síst með tilliti til eignar- og erfðaréttar.

Ég spurði hæstv. fyrrv. dómsmrh. um framkvæmd þessarar till. ári eftir að hún var samþykkt. Efnislega kom þá svipað fram, þegar hæstv. fyrrv. dómsmrh. svaraði þessari fsp., og fram kemur nú í svari hæstv. núv. dómsmrh. Lítið virðist því þokast í þessu máli og er greinilegt að framkvæmdavaldið er hér að hundsa vilja Alþingis.

Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að eins og sænska þingið getur fjallað um frv. af þessu tagi án þess að fyrir liggi sameiginleg niðurstaða Norðurlandanna í þessu máli, þá geti Alþingi Íslendinga eins fjallað um þetta mál. Ég vil nefna það að árið 1983 voru 90–100 mál lögfest fyrir bæjarþingi vegna slita á óvígðri sambúð og ágreiningi um eignarrétt. Hér er því um stórt mál að ræða.

Hæstv. dómsmrh. talaði um viðkvæmt og vandmeðfarið mál. Það er það vissulega. En það er líka viðkvæmt og vandmeðfarið mál þegar slitnar upp úr óvígðri sambúð og annar aðilinn stendur uppi kannske nánast eignalaus, jafnvel þó að mikil eignamyndun hafi orðið á sambúðartímanum. Ég vil því hvetja hæstv. dómsmrh. til þess — þó að sú niðurstaða liggi ekki fyrir sem hann vitnaði til — að framkvæmdavaldið manni sig nú upp í það að fara að vilja Alþingis í þessu efni. Við erum ekki óvanir því hv. alþm. að hér séu samþykktar þáltill. sem langan tíma tekur hjá framkvæmdavaldinu að framkvæma. (Forseti hringir.) En fyrr má nú vera þegar fjögur ár eru nú liðin síðan þessi þáltill. var samþykkt. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hér í lokin: Hver er hans skoðun á þessu máli? Telur hann ekki þetta mál svo brýnt að það þurfi þegar í stað að tryggja eignar- og erfðarétt fólks í óvígðri sambúð og að ófært sé að bíða lengur eftir þeirri niðurstöðu sem búið er nú að bíða eftir í mörg ár?