26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3852 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

377. mál, skortur á hjúkrunarfræðingum

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa á kvenlækningadeild Landspítalans vona ég að sé tímabundið vandamál því að við hjúkrun á þeirri deild starfa eingöngu hjúkrunarfræðingar. Æskilegt er að hjúkrunarfræðingar þar hafi einnig lokið ljósmæðranámi. Í vor munu 14 hjúkrunarfræðingar ljúka námi með þekkingu í báðum þessum greinum. Frá Nýja hjúkrunarskólanum munu að öllu forfallalausu 26 ljósmæður ljúka hjúkrunarnámi vorið 1986 og 9 hjúkrunarfræðingar frá Ljósmæðraskóla Íslands, eða alls 35 hjúkrunarfræðingar með ljósmæðramenntun það ár.

Það gefur auga leið að erfitt er að missa þetta fólk í nám þegar illa gengur að manna deildir. Hins vegar ber að fagna því að fá vel menntað fólk til starfa að námi loknu. Heilbrrn. tók þátt í því á sínum tíma að Nýi hjúkrunarskólinn var stofnaður og það hefur hvatt til þess að hann tæki inn ljósmæður er gætu lokið hjúkrunarnámi á styttri tíma en ella.

Ef ég vík aftur að kvenlækningadeild Landspítalans þá vantar þar hjúkrunarfræðinga eins og er í rúmlega fjórar stöður af fjórtán og því er deildin ekki fullnýtt. Hins vegar er mér tjáð að sjúklingar þurfi varla að bíða lengur eftir sjúkrahúsvist en 2–3 vikur. Biðlisti er því lítill. Sjúklingar með krabbamein þurfa aldrei að bíða. Þeir eru teknir strax inn á spítala. Landspítalinn rekur níu rúma dagdeild. Sú deild er opin alla virka daga frá kl. 8 á morgnana til 16 á daginn. Þar eru teknir til meðferðar sjúklingar er koma í minni háttar aðgerðir. Deildin léttir því mikið á kvenlækningadeildinni. Auk þess ætti þessi þjónusta að vera mun ódýrari í rekstri. Þá má nefna að Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar fékk heimild árið 1983 til þess að reka skurðdeild og hefur því tekið allverulegan hluta af þeirri þjónustu er kvenlækningadeild Landspítalans hafði áður. Með það í huga að allmargir hjúkrunarfræðingar sérmenntaðir í ljósmóðurfræðum eru væntanlegir til starfa í vor og næsta ár og að biðlisti er tiltölulega lítill er ég nokkuð vongóður um að úr rætist.