26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3870 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. samgrh. fyrir framsögu hans hér áðan. Ég þakka honum fyrir það hvað hann hefur lagt sig fram um að halda utan um þá tekjustofna sem verja á til vegamála og tekist það a. m. k. að nokkru leyti. Það eitt þykir mér á skorta að mér finnst að helst til fáir hv. alþm. hafi verið hér í salnum meðan ræða þessi var flutt um svo merkilegt mál. Það er að vísu glatt sólskin úti og sjálfsagt fleiri freistingar á sveimi, en þó finnst mér það ekki réttlæta það að ekki skuli vera fleiri hér til að hlýða á svo mikilvægt málefni. Þetta mál er ekki eingöngu eitt helsta áhugamál okkar, hinna svokölluðu talsmanna landsbyggðarinnar, heldur miklu fremur mál allra landsmanna. Fátt er þjóðinni nauðsynlegra en að leggja kapp á að hafa sem greiðastar og bestar samgöngur um eigið land og geta þannig kynnst sjálfri sér og landi sínu á æskilegan máta.

Þessi till. fjallar um vegáætlun frá 1985 til 1988. Að vísu má segja að ekki sé mikilvægra breytinga að vænta í sambandi við fjárframlög á árinu 1985. Þau eru að mestu leyti ákveðin áður. En á árinu 1986 er strax breytinga að vænta. Og þessi tillaga er að sjálfsögðu samin með hliðsjón af þeirri langtímaáætlun sem við höfum oft rætt hér á undanförnum árum. Reyndar er hún ekki samþykkt af hv. Alþingi en er þó höfð til hliðsjónar í þessum málum. Sem kunnugt er höfum við notið þeirrar náðar, alþm., að við höfum yfirleitt verið nokkuð sammála í því að reyna að einbeita okkur að heildarátökum í vegagerð, eins og þegar við ræddum hér fyrir nokkrum árum till. til þál. um gerð langtímaáætlunar í vegagerð. Þar lögðum við áherslu á nokkur atriði sem ég held að ekki sé úr vegi að rifja upp. Við lögðum áherslu á þau markmið að allir vegir skyldu byggðir með 10 tonna burðarþoli allt árið, að byggja þá vegi upp úr snjó sem við hefðum tök á, að leggja bundið slitlag á fjölfarnari vegi og að hafa hliðsjón af umferðaröryggi við uppbyggingu vega og framkvæmdir í umferðarmálum.

Það er ekki ástæða til að hafa mjög mörg orð um einstaka liði þessarar þáltill., heldur minnast lítillega á nokkur atriði af því sem hefur komið fram í máli manna. Hæstv. ráðh. minntist á nokkur atriði sem varða vegagerð í nútíð og framtíð. M. a. taldi hann að ástæða væri til þess að leggja mjórri vegi a. m. k. á sumum stöðum en hingað til hefur tíðkast, þ. e. vegi með 4 metra slitlagi í stað 6. Það má vel vera að þetta eigi við sums staðar á hinum fáfarnari vegum. Þó verður held ég að fara að þessu með gát, því að þeir sem eru vanir að aka breiða vegi geta orðið fyrir miklum viðbrigðum ef þeir þurfa allt í einu að fara að aka veg sem mjórri er og erfiðara er að mætast á. Það væri svo að sjálfsögðu full ástæða til þess að víkja að tækni vegagerðar nú á tímum og því sem fram undan er í þeim efnum, jarðgangagerð o. fl. Ég vil aðeins minna á að framkvæmdir við hina svonefndu Ó-vegi hafa gengið vonum framar. Ég held að það sé yfirleitt ánægja ríkjandi með framkvæmd þá sem gerð var við Ólafsvíkurenni, og sá vegur hefur að mínum dómi gerbreytt samgönguháttum á Snæfellsnesi utanverðu til hins betra.

Þá vék hæstv. ráðh. nokkuð að því sem hann nefndi hagræðingarmál. Vitanlega höfum við heyrt mikið um það talað að undanförnu að fækka þurfi starfsmönnum á vegum ríkisins. Nú skyldi báknið burt, og annað þar fram eftir götunum. Það hefur einhver nefnd starfað sérstaklega að þessum málum af hálfu Vegagerðarinnar þó að mér sé ekki nákvæmlega kunnugt um hverjir skipa þá nefnd. En að sjálfsögðu hefur maður ekki komist hjá því að verða var við ákvarðanir hennar og verk á ýmsum svíðum.

Það er að sönnu góðra gjalda vert að fækka starfsmönnum ríkisins. Þó verður að gæta þess að fara mjög varlega í þeim efnum að mínum dómi. Það er alltaf vandgert við þá menn sem lengi eru búnir að þjóna og inna störf sín vel af hendi. Að sjálfsögðu er ekki hægt að vísa þeim á dyr fyrirvaralaust. Ég er ekki að segja að það hafi verið gert, en tel þó rétt að vekja athygli á því. Við höfum lagt mikla áherslu á útboð, alþm. og a. m. k. síðustu tveir hæstv. samgrh. En útboðin hafa a. m. k. tvær hliðar.

Ég skal fyllilega viðurkenna að það hefur verið afar vinsæli að halda því fram að við ættum að bjóða út næstum því sérhvert verk til þess að fá það unnið fyrir minna fé. En þar þarf að mínum dómi margs að gæta. Ég hygg að flestir telji sjálfsagt að bjóða út hin stærri verk í vegagerð, svo sem framkvæmdirnar við Ólafsvíkurenni og hina Ó-vegina og aðrar stærri framkvæmdir. En þegar farið er að þræða þessa leið svo langt að bjóða út venjuleg viðhaldsverkefni og ýmis smærri verk þá þarf að gá til lofts að mínum dómi. Ég tel nefnilega að Vegagerðin beri miklar siðferðisskyldur t. d. gagnvart þeim vörubifreiðastjórum út um allt land sem eru búnir að vinna að vegagerð vel og samviskusamlega áratugum saman, jafnvel 20, 30 ár. Það verður að gæta þess að þessir menn standi ekki allt í einu uppi verkefnalausir og geti lítið annað gert en að horfa upp í loftið og reyna að hugsa til framtíðarinnar fyrir sig og sínar fjölskyldur.

Ég varpa þessu nú aðeins fram sem atriði sem vert er að hafa í huga. Það er m. ö. o. ekkert athugavert við það og raunar sjálfsagt að Vegagerðin bjóði út hin stærri verk, en hún verður líka að taka tillit til þeirra manna sem hafa unnið henni lengi og vel með ágætum úti um allt land.

Hins vegar líst mér ekki svo illa á, svo að ég taki dæmi, að bjóða út snjómokstursverkefni að vetrarlagi. Ég get vel trúað því að þar kæmu útboð mjög til álita. Það er nú svo að það munu vera nýjar snjómokstursreglur í undirbúningi, sem gengið verður frá á hausti komanda, eftir því sem mér er tjáð. Þetta eru að sjálfsögðu mjög viðkvæm mál en eigi að síður ákaflega mikilvæg.

Ég ætla ekki að fara að ræða nánar hina einstöku liði eða skiptingu útgjalda í þeirri þáltill. sem hér er til 1. umr., þó að á marga liði mætti minnast. Og sjálfsagt er það svo að hér sem annars staðar ykir hv. þm. of smátt skammtað til sinna kjördæma. Ég ætla þó aðeins að leyfa mér að minnast á einn lið sem ekki er nú sérlega hár í loftinu. Það er hér á 2. blaðsíðu undir liðnum Til brúagerða, þar sem rætt er um rannsóknir á Gilsfirði, þ. e. að rannsaka Gilsfjörð með tilliti til þess að þar verði lagður vegur yfir ásamt brú. Við, sem höfum haft áhuga á þessu máli lengi, viljum óska þess að Vegagerðin og yfirmenn samgöngumála leggi kapp á að komast sem allra fyrst að niðurstöðu í þessum efnum. Það sem við biðjum um er fyrst og fremst að fá að vita sem allra fyrst hvort tiltækilegt sé að byggja brú og veg yfir Gilsfjörð og stytta þar með leiðina yfir 20 km ef ég man rétt. Ég sé að til þessara rannsókna eru ætlaðar 0.3 millj. á árinu 1985, en 1 millj. á árinu 1986. Ég verð að segja að það kom mér skemmtilega á óvart að þessi fjárhæð skyldi hækka á næsta ári, og ég legg þann skilning í það að á því ári eigi að ljúka þessum rannsóknum. Ég hef mikinn áhuga á þessu máli því að ég tel þessa leið um Gilsfjörð eðlilegustu og sjálfsögðustu samgönguleiðina milli Vesturlands og Vestfjarða.

Þó að ástæða væri til þess að nefna mörg fleiri atriði ætla ég að láta hér staðar numið. Þessi þáltill. fer að venju til fjvn. og þar gefst tækifæri til þess að skoða hana miklu nánar. Þá mun ég reyna að hafa í huga þá athugasemd sem hæstv. samgrh. varpaði fram hér áðan og snertir lán og greiðslur afborgana og vaxta af vegalánum svo og fleira sem fram kom í ræðu hans.