26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3872 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir annarra þm. til hæstv. samgrh. fyrir skilmerkilega ræðu til útlistunar á vegáætlun. Hann nefndi þar ýmsa hluti eins og fram hefur komið sem allir eru sjálfsagt tilbúnir að taka undir og benti á ýmis verkefni sem leysa þyrfti í nánustu framtíð.

Ég harma það nú að ekki skuli hafa verið fleiri þm. hér viðstaddir til að hlýða á ræðu hæstv. samgrh. og þær umræður sem hér eiga sér stað. Ég vil vekja athygli á því og það hefur reyndar áður verið gert þegar vantað hefur heila þingflokka í salinn. En nú er það sá þingflokkurinn sem oftast hefur nefnt það að hér hafi verið fáliðað. Nei, fyrirgefið, hér er kominn inn núna einn fulltrúi Kvennalistans en var hér ekki á meðan hæstv. samgrh. flutti sína gagnmerku ræðu. Ég held að það megi benda á það að áhugi þess ágæta flokks hafi kannske komið fram í því að láta það eiga sig að fylgjast með þeirri gagnmerku ræðu sem hér var flutt áðan. Ég hef ekki heldur séð neinn þm. frá Bandalagi jafnaðarmanna. Og ansi eru fáir fjvn.-menn hér staddir. Ég hef ekki séð neinn fjvn.-mann frá Framsfl. undir þessari umr.

Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist á valdastóla snemmsumars 1983 sló óhug á marga af landsbyggðinni. Ljóst var að með myndun þeirrar ríkisstj. var Framsfl. að ganga í lið með leiftursóknarliði Sjálfstfl. en leiftursóknarstefnan var í öllum greinum mjög neikvæð gagnvart uppbyggingu á landsbyggðinni. Samgöngumálin, tákn ríkisins, þ. e. vegagerð, flugvallabyggingar og hafnargerðir, eru málefni sem skipta sköpum fyrir þróun og viðhald byggðar úti um land. Það varð því mörgum mikill léttir þegar ráðherralistinn var gerður opinber og í ljós kom að samgrh. var ötull landsbyggðarþingmaður, ötull baráttumaður fyrir bættum samgöngum og berst þó sérstaklega fyrir stórátökum í vegagerð. Margir sögðu sem svo úti um land að þótt hinir ráðherrarnir yrðu slappir fyrir landsbyggðina þá mundi hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason bæta þá upp með því að standa fyrir mjög auknum framkvæmdum við vegagerð.

Það datt engum í hug við upphaf valdaferils núv. ríkisstj. að það yrði til umræðu að falla frá markaðri fjárveitingu til vegamála, fjármögnunarmarki langtímaáætlunar, 2.4 af þjóðarframleiðslu frá árinu 1985 og út gildistímann. Menn gerðu frekar ráð fyrir því að fjármagnið yrði aukið og með framkvæmd langtímaáætlunar kæmu í ljós ýmsir þættir sem leggja yrði aukna áherslu á. Umferðarþungi breyttist, uppbygging yrði mismunandi eftir landshlutum og héruðum, þar þyrfti aukið fjármagn að koma til til að jafna muninn.

Þrátt fyrir leiftursóknaryfirbragð ríkisstj. voru menn samt sæmilega bjartsýnir. Vegamálin og reyndar samgöngumálin öll voru í góðum höndum, þar mundi engin samdráttarstefna eiga sér stað. Á landsbyggðinni eru nú afleiðingar stjórnarstefnunnar komnar í ljós. Sjávarútvegur stendur mjög höllum fæti. Það er eins og eldur hafi farið um eignir sjávarútvegsfyrirtækja á stjórnartíma núv. ríkisstj. Nú heyrist ekki lengur frá forkólfum framsóknar og Sjálfstfl. að hvert fyrirtæki þurfi að hafa eigið fjármagn í sínum rekstri og það sé markmið ríkisstj. að stuðla að því. Heldur er lausnin æ ofan í æ nýjar skuldbreytingar til að forða því að fyrirtæki stöðvist vegna bruna eigin fjármagns. Skuldbreytingarnar eru aðeins olía á þann eld.

Sjávarútvegsstjórnunin hefur verið slöpp eins og búist var við og er þá lítið sagt. Staðreyndin er sú að síðan hæstv. núv. samgrh. fór úr sjútvrn. hefur íslenskum sjávarútvegi verið stjórnað niður á við úr því rn. En útskýring á þeirri hörmung tilheyrir víst ekki umræðu um vegáætlun og verður að bíða betri tíma.

En allt fellur þetta inn í sama munstrið. Þeir sem lofuðu 80% lánum til húsbyggjenda hafa ekki hátt í dag. Þeir sem lofuðu lækkun erlendra lána steinþegja eða þá að þeir hafa skipt um skoðun. Þeir hafa allir verið slappir ráðherrarnir og það hefur m. a. orðið til þess að umræða um að skipta um menn í ráðherrastólum hefur verið í gangi. Það væri gott að losna við þennan. Það væri gott að losna við hinn. En nú er farið að tala um að dagar ríkisstj. séu taldir, það verði farið út í kosningar í sumar eða í haust. Gleggsta merki þess að stefnt sé að kosningum, dagar ríkisstj. séu taldir, er sú vegáætlun sem hæstv. samgrh. hefur hér mælt fyrir. Ég fullyrði það að hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason er sá ráðh. sem landsbyggðarfólk hefur orðið fyrir minnstum vonbrigðum með af ráðherraliðinu. Það kemur til af því að honum tókst að hamla gegn niðurskurði á framlagi til samgöngumála, sérstaklega vegamála, á fjárlögum 1984. En nú syrtir í álinn. Ráðh. varð að láta undan síga gegn gróðapungunum hjá framsókn og Sjálfstfl. við fjárlagagerð fyrir árið 1985 í sambandi við hafnir og flugvelli. Og enn hefur hann orðið að láta undan síga í sambandi við fjárframlög til vegaframkvæmda nú í ár eins og vegáætlun ber með sér. Leiftursóknarstefnan hefur sótt í sig veðrið. Ekkert af þessum niðurskurði hefur þó sagt til sín enn. Allar samgönguframkvæmdir bíða sumarsins. Í sumar mun það segja til sín að öll umsvif í sambandi við þessa framkvæmdaþætti verða mun minni en áður. Margt af því sem menn gerðu sér vonir um að framkvæmt yrði í ár verður því að bíða og verður meira og minna frestað um óákveðinn tíma. Allar vonir um auknar framkvæmdir í vegagerð hafa verið falsvonir. Og þegar þessar afleiðingar fjárlaga fara að segja til sín, þegar 1.9 eða 1.8% markmið fer að koma fram í minnkandi vegaframkvæmdum er eins og þessi þáltill. um vegáætlun árin 1985–1988 eigi að vera svar við þeim vandræðum sem koma upp. Ekki svar til almennings í landinu, sem sér fram á aukinn mismun á búsetu, minni von um betri tíma, heldur svar hæstv. samgrh. til gróðapunganna sem hann hefur verið að berjast við og ekki fengið betri úrlausn en raun ber vitni um til samgöngumála. Fyrir árið 1985 er ráðh. skammtað til vegamála 1.8% markmið miðað við þjóðarframleiðslu. Ég undirstrika það að ég nota þessa tölu, 1.8%, út frá því sem hv. 2. þm. Austurl. benti hér á áðan, að nú hafa komið nýir útreikningar frá Þjóðhagsstofnun um þjóðarframleiðslu á s. l. ári og í ár og þeir benda til þess að viðmiðun miðað við þær tölur sem eru í vegáætlun muni vera 1.8%.

Vitaskuld er þetta ákvörðun ríkisstj. og augljóslega stefnumótun til framtíðar. Slíkri lækkun framlaga til vegagerðar eða annarra þátta verður ekki náð upp aftur með neinum pennastriksaðferðum. Svar ráðh. með vegáætluninni finnst mér vera þetta: Þótt nú hafi svo farið að tekist hafi að lækka framlög til vegamála fyrir árið 1985 um hátt í 500 millj. kr. miðað við markmið langtímaáætlunar geri ég það ekki að minni stefnu. Hann tók það einmitt fram hér í ræðu sinni áðan að stefna hans væri allt önnur en það markmið sem fram kæmi í vegáætluninni. Hann vildi meiri hluti og stærri átök í vegagerð. Og hann nefndi að eitt af grundvallaratriðum og eitt af þeim atriðum sem fyrst og fremst þyrfti að gera stórátak í á landsbyggðinni eru einmitt samgöngumálin. Ég legg því til að á árunum 1986, 1987 og 1988 verði staðið við markmið langtímaáætlunar, 2.4% framlag til vegamála miðað við þjóðarframleiðslu. Ég nefni þetta í tillögu ráðh. Þetta er hraustleg tillaga en hún er ekki í vissu þess að sú ríkisstj. sem nú situr er á fallanda fæti og að í samgrh.-stólnum verði annar en núv. hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason til þess að pína fjármagnið út úr leiftursóknarliðinu. Nema því verði forðað að þeir komist í ráðherrastólana.

Með loforðum um betri tíma á að réttlæta þann niðurskurð sem á sér stað fyrir árið 1985. Það er ekki efnilegt að fara í kosningar með raunverulega stefnumörkun ríkisstj. sem framtíðarplan í vegamálum. Mér sýnist að undan því verði ekki komist nema með því að við meðferð þessarar till. hér í þinginu verði ráðstöfunarfé aukið stórlega og helst að því marki sem langtímaáætlunin gerir ráð fyrir, þ. e. í 2.4% af þjóðarframleiðslu fyrir árið 1985. Þm. Alþb. leggja til að fallið verði frá þessum niðurskurði. Ég hefði viljað að sú till. hefði gert ráð fyrir 2.4% markinu en fellst þó á rök félaga minna, að meiri líkur væru fyrir því að hún fengist samþykkt með því að ekki væri gert ráð fyrir meira en 2% á yfirstandandi ári. Ef sú hækkun yrði samþykkt, sem ég vænti, aukast líkur fyrir því að 2.4% markinu verði náð 1986. Mismunur milli ára verður ekki eins mikill.

Það væri freistandi að fara nokkrum orðum um stöðu vegaframkvæmda, ástand vega og þá framtíðarsýn sem er í þeim málum. Ýmsu hefur verið komið í framkvæmd, sums staðar stórvirkjum, svo sem t. d. með vegagerð undir Enni. En því miður, framtíðin er ekki björt. Heilu héruðin sjá ekki fram á neinar afgerandi framkvæmdir næstu áætlunartímabil bæði í sambandi við stofnbrautir og þjóðbrautir. Slíkt ástand skapar vonleysi og kallar á búseturöskun. Ég mun láta þessa umfjöllun bíða síðari umr. vegáætlunar, enda munu þá mál liggja skýrar fyrir.

Ýmsir aðrir þættir, snjómokstursreglur, útboð vegaframkvæmda, skipulagning vegaframkvæmda, bundið slittag skulu og bíða betri tíma til umfjöllunar frá minni hálfu. Þar er ýmislegt umræðuvert.

Eins og ég sagði áðan virðist vegáætlunin vera að hluta kosningaplagg. Marktækari hlutinn, sem á að gilda fyrir árið 1985, er yfirlýsing um það að stefna núv. ríkisstj. er sú að hverfa frá markmiðum langtímaáætlunarinnar. Eftir öll stóru orð sjálfstæðismanna við umræður um og undirbúning þeirrar áætlunar og við umræður um vegáætlun 1983—1984 leggst nú lítið fyrir kappana. Það er því miður staðreynd að þrátt fyrir góðar vonir um að hæstv. samgrh. mundi standa sig í slagnum við gróðapungana, sem standa gegn fjárframlagi til samgöngumála, hefur hann orðið að láta þar í minni pokann og gerir sér það að góðu. Leggst þar lítið fyrir góðan dreng. Enn heldur hann þó einu vopni, atgeiri vel beittum, en einhvern veginn finnst mér að hann ættist til þess að aðrir bregði honum fyrir sig, enda nú allþrekaður eftir langa baráttu.

Till. hæstv. samgrh. um að 2.4% markmiði verði náð 1986–1987 og 1988 er ósk hans um að aðrir standi sig betur í ráðherrastóli samgöngumála í baráttunni gegn kreppuliði íhalds og framsóknar en honum hefur tekist árið 1985. Þar veit ég að hann vildi gera miklu betur.

Því miður er staðreyndin sú að á árinu 1985 eru allir ráðherrar ríkisstj. Steingríms Hermannssonar jafnslappir. Þeir standa ekki í stykkinu fyrir landsbyggðina, fyrir bættri afkomu og búsetutryggingu. Áætluð framlög til vegamála skv. þeirri vegáætlun sem hér er til umr. er staðfesting á því. Mál er að linni. Til þess að svo verði verður núverandi ríkisstj. að yfirgefa ráðherrastólana sem fyrst.

Ég vil svo í lokin þakka starfsfólki Vegagerðar ríkisins fyrir sérstaklega góða upplýsingaþjónustu sem við þm. höfum notið þar, og fyrir það hvað forustumenn Vegagerðar ríkisins eru jafnan tilbúnir til skrafs og til að gefa upplýsingar um hin breytilegustu málefni í starfsemi Vegagerðar ríkisins, jafnt í einkaviðtölum og á fundum með þm.