26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3882 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umr. mikið, enda er langt á hana liðið og fáir viðstaddir eins og þm. hafa komið að í ræðum sínum. Það er áreiðanlega af sem áður var, en það voru gamlir og reyndir þm. sem tjáðu manni að vegamálin væru ein þau heitustu mál sem til umræðu kæmu í þingsölum, væri þá sama hvort það væri í umr. í þinginu eða í þingflokkum. En það gefst tækifæri til að ræða þessa áætlun síðar við 2. umr. hér í hinu háa Alþingi.

Það hefur verið komið að því hér að gildi vegagerðar væri mikið, þetta væri mikilvægur málaflokkur. Ég tek undir það. Gildi vegagerðar fyrir atvinnulífið í landinu er ótvírætt og vegagerð skiptir miklu máli fyrir mannleg samskipti og félagslíf í hinum dreifðu byggðum. En þó að þetta sé mikilvægur málaflokkur er þetta ekki sá eini sem mikilvægur er í landinu. Ýmis þörf og góð mál hafa orðið að þola niðurskurð í þeirri stöðu sem þjóðarbúið er. Þessi niðurskurður var óhjákvæmilegur, en að sjálfsögðu munum við reyna að vinna okkur út úr þessum vanda og auka framlög til vegagerðar á ný.

Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt í sambandi við jarðgangagerð og fagna því að samgrh. skuli hafa tekið þau mál sérstaklega til umr. í ræðu sinni. Ég vil taka undir það að nauðsynlegt er að gera áætlanir til langs tíma í þessum málaflokki, gera sér grein fyrir að hverju skuli stefnt þannig að hægt sé að hefja af fullum krafti undirbúning í þessum efnum. Þetta eru dýrar framkvæmdir, þetta eru framkvæmdir sem útheimta sérhæfingu í tækjum og vinnubrögðum. En ekkert mundi breyta aðstöðu einstakra byggðarlaga meira en að átak væri gert í þessum efnum, færa byggðarlög meira saman og skapa stærri heildir. Það mundi verða alger bylting og er hægt að nefna ótal dæmi því til sönnunar í hinum ýmsu landshlutum, en ég læt það liggja á milli hluta að sinni.

Ein ástæðan til þess að ég tók til máls við þessa umr. er að hér var komið aðeins inn á útboðsmálin og útboð Vegagerðarinnar. Ég er einn af meðflm. þáltill. um þetta efni. Ég tel að full þörf sé á slíkri könnun sem þáltill. kveður á um og slík úttekt væri gott innlegg inn í þá umr. sem nú er um málið. Það er heit umr. um þessi mál á landsbyggðinni. Ég er ekki með því að segja að útboðin séu af hinu vonda né að ástæða sé til að leggja þau niður, það er langt í frá. Hins vegar er þörf á því að móta ákveðnar reglur um þessa miklu breytingu sem hefur verið á framkvæmdum Vegagerðarinnar, ákveðnar reglur sem tryggja að ákveðinni þjónustu sé haldið uppi á landsbyggðinni og verði til þess að þessi gildi þáttur, sem verið hefur í atvinnulífinu og byggist á vörubílaútgerð og vinnuvélaútgerð, haldist. Þar með er ég ekki að segja að engin breyting þurfi að verða í þessum málum. Þessir aðilar þurfa kannske að skipa sér í stærri heildir, breyta hjá sér skipulaginu, en um útboðin þarf að móta ákveðnar reglur. En ég ætla ekki að ræða þetta meira að sinni, enda gefst tækifæri til þess þegar þáltill., sem hér um ræðir, kemur til umr.

Það mætti ræða lengi um skiptingu vegafjár milli kjördæma. Menn hafa sjálfsagt sínar athugasemdir við skiptinguna, en ákveðnar reglur þar um eru í gildi sem menn hafa sætt sig við þó allir vilji að sjálfsögðu meira og verkefnin séu næg alls staðar. Þessar reglur verða endurskoðaðar og munu þá menn koma sínum sjónarmiðum á framfæri í tengslum við endurskoðun þeirra. En um vegaféð, sem rennur til einstakra kjördæma, má segja að yfirleitt hefur verið góð samstaða meðal þm. um skiptingu þess þó að því miður hafi ekki allir þm. Austurl. staðið að skiptingunni eins og hefur komið hér fram. En ég get lýst því yfir að ég mun reyna að hafa góða samstöðu um þetta efni og fagna yfirlýsingum hv. 2. þm. Austurl. um það efni hér áðan og veit að samstaða þorra þm. Austurlands verður góð eins og hingað til. Ég vona að við megum allir fylgjast að nú þó að ég þori ekki að spá neinu um það á þessu stigi.

Ég vil ljúka máli mínu nú því að ég ætla ekki að vera langorður við þessa umr., eins og ég segi gefst tækifæri til að ræða þessi mál nánar síðar. Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka Vegagerðinni fyrir ágæta vinnu og taka undir þær þakkir til hennar sem fram hafa komið hér. Ég held að vinnubrögð í áætlanagerð og ýmsum framkvæmdum séu um margt til fyrirmyndar og vonast eftir að hafa við þá góð samskipti. Ég vil einnig þakka hæstv. samgrh. fyrir fróðlega og ágæta framsöguræðu um þetta mál áðan.