26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3885 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Maríanna Friðjónsdóttir:

Herra forseti, virðulega rest af þingheimi. Ég ætlaði nú reyndar bara að sitja hér og hlusta á þessi fróðlegu erindi, sem fram hafa gengið af munnum þm., en ég gat ekki á mér setið þar sem hv. 5. þm. Vestf. Magnús Reynir benti réttilega á að það er orðið fátt um fulltrúa þéttbýlis hér. Mér finnst náttúrlega hörmulegt að það þurfi að benda á slíkt og leiðinlegt að haldið sé áfram að draga landsmenn í tvo flokka, annars vegar þéttbýli og hins vegar dreifbýli, þar sem sérstaklega er hér um að ræða sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar, hvar á landinu sem hún býr, því að þeir fjármunir sem lagðir eru í aukin framlög til vegagerðar hljóta alltaf að skila sér til baka. Má m. a. benda á minni varahlutakostnað sem fylgir því að aka á betri vegum.

Það er ágætt til þess að vita að hér skuli hafa verið lögð fram langtímaáætlun eða a. m. k. til næstu ára. Hins vegar er það leitt að ekki skuli vera hægt að eyða hærri prósentu af þjóðartekjum til þessara mála, því að bílaeign hefur aukist talsvert undanfarin ár og sér ekki fyrir endann á þeirri aukningu en hún hlýtur að hafa það í för með sér að þunginn á þjóðvegakerfinu vex.

Hér hefur verið minnst á nokkur atriði og ætla ég ekki að fara að tína þau hvert og eitt til, en vil gjarnan benda á varðandi hugmyndir um jarðgangagerð að það þarf ekki að leita langt, því að frændur vorir Færeyingar munu vera afskaplega natnir við slíkar framkvæmdir og mætti kannske læra ýmislegt af þeim. Ég vildi bara benda á þetta.