26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3886 í B-deild Alþingistíðinda. (3226)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka öllum þeim þm. sem til máls hafa tekið fyrir þeirra innlegg í þessar umræður. Mér er alveg ljós óánægja manna með framlag til vegamála á þessu ári. En það er í framhaldi af afgreiðslu fjárlaga sem sú uppstilling er með þeim hætti sem þessi vegaáætlun gerir ráð fyrir.

Varðandi það sem hv. 3. þm. Vestf. spurði um, honum fannst ég taka eitthvað hóflega til orða eða óskýrt, vil ég taka það fram að þetta er till. til Alþingis, till. sem ég legg fram með samþykki ríkisstj. Og þegar Alþingi hefur samþykkt till. þá er hún orðin samþykkt Alþingis þar með. Og þá skulum við vona að við getum öll skilið málið.

Ummæli hv. 2. þm. Austurl. harma ég nú í fyrsta lagi af því að ég er orðinn svo gamalreyndur þm. Og þó að þm. Vestf. hafi stundum dálítið hátt hér í þingsölum, aldrei mjög hátt, en dálítið, þá hafa þeir alltaf náð saman í sambandi við skiptingu á vegafé. Við þyrftum því e. t. v. að fara að lána þarna austur a. m. k. einn og einn til þess að koma þessu saman fyrir þá. En út af því sem sami hv. þm. sagði um þetta mikla stökk í vegáætlun til fjögurra ára, úr 1650 millj. í 2430 millj. á næsta ári, síðan 2480 árið 1987 og 2530 millj. árið 1988, þá gerði nú till. til þál., sem lögð var fram snemma árs 1983, ráð fyrir útgjöldum samtals upp á 972 millj. á árinu 1983 að viðbættri 51 millj. til Ó-vega, en stökkið var upp í 1507 millj. 1984 og síðan 1603 og svo 1634, svo að þeir kunnu nú að stökkva líka sem studdu ríkisstj. á undan.

En það er eitt enn verra við þá till. heldur en þessa. Í þeirri till. var gert ráð fyrir tekjustofni upp á 125 millj. 1983 sem átti að hækka í 175 millj. 1984 og framhald 1985 og 1986. En úr þessum tekjustofni varð ekki neitt, eins og menn muna, því að þessi þáltill. hlaut aldrei samþykki Alþingis. Hins vegar var mikið flautað hér úti fyrir þinghúsinu. Hér voru flestir langferðabílar landsins komnir og flautuðu allir í einu. Það féll því í minn hlut að taka við óformlegri vegáætlun, þar sem vantaði jafnviðamikinn tekjustofn eins og þennan, og koma henni áfram. Og það tókst á árinu 1983. Og ég get alveg sagt það hér, án þess að bera neinn kinnroða fyrir því, að það voru uppi miklu, miklu róttækari niðurskurðarhugmyndir en þessi áætlun ber vitni. Ég tek þess vegna ekki undir það sem einhver þm. sagði hér áðan að ég hafi orðið undir. Ég vann þó nokkurn varnarsigur.

Ég minni á í sambandi við tal manna hér um útboð að við eigum að fara eftir lögum um skipan opinberra framkvæmda sem gera ráð fyrir útboðum. Og það er nú þetta sem verið er að leitast við að gera eins og allir vita. Hér hefur Vegagerðin fengið mikið hrós frá þm. almennt og það á hún að mínu mati skilið. Vitaskuld eru Vegagerðinni oft mislagðar hendur eins og öllum öðrum stofnunum og okkur öllum einstaklingum, því að það er enginn okkar fullkominn. En Vegagerðin hefur það fram yfir margar aðrar stofnanir að hún hefur haft alveg sérstaklega góða samvinnu við þingið og góða samvinnu við rn. og mjög góða samvinnu, miðað við allar aðstæður, við almenning í landinu. Það sem ég tel afar mikils virði hjá Vegagerðinni er það að forráðamenn hennar eru allir inni á því að auka þessi útboð og það hefur verið gert. En svo eru aftur aðrar stofnanir sem eru mjög á móti útboðum og hafa hreinlega dregið fæturna í sambandi við útboð af því að þær hafa sjálfar viljað vera með allar framkvæmdir innan sinna marka. En þetta er að breytast sem betur fer.

Hér hefur verið talað mikið um fjarvistir og ég harma það að þegar rædd eru jafnmikilvæg mál eins og vegáætlun, sem er drög til fjögurra ára, þá skuli heilu flokkarnir vera fjarverandi. En mér finnst líka töluvert atriði að það sést ekki einn einasti fjölmiðlamaður. Hún hefur verið auð stúkan allan tímann þarna hjá þeim. (HS: Þeir hafa ekkert gaman af þessu.) En ef hér væri eitthvert sjónarspil þá væri kominn sjónvarpsbíllinn með allan útbúnað og ljósagangur hér inn í salinn. Bara að hringja, þá koma þeir. Ég vildi segja þetta til þess að fá þetta inn í þingtíðindi því að ég tel að fjölmiðlum veiti ekki af að fá einstaka sinnum smá-áminningu. Og hún hefði mátt vera töluvert harðari. En ég læt þetta nægja.

Varðandi fsp. hv. 5. þm. Vestf. um það hvort hugsanleg sé aðstoð annars staðar frá er auðvitað ekki hugsanleg nein aðstoð. Stærsta átakið sem gert var í samgöngumálum almennt var Vestfjarðaáætlun á sínum tíma. Það hefur ekki verið gert annað eins átak eins og þá var gert og náði til þriggja greina samgangna, eins og ræðumaður gat um. Hann nefndi vegamál og hafnamál. Hún náði einnig til flugvalla, tveggja flugvalla. Það eru auðvitað möguleikar á að fá erlend lán. En það eru ekki möguleikar á auknu fjármagni hér innanlands eins og fjármagnsmarkaðurinn er. Það eru m. ö. o. möguleikar á lánum, ekki á aðstoð. Hins vegar hef ég nú bara ekki tíma til að ræða norræna aðstoð. Þá færi ég að minnast á hið fræga síðasta Norðurlandaráðsþing, en þar hefur maður kannske ýmsar athugasemdir að gera. En ég býst nú við því að ef menn vildu hlusta á í alvöru sæju þeir að það er hagkvæmt fyrir þjóðarheildina að taka lán til vegagerðar. Ef menn vilja meta og vega það sem ég sagði í minni frumræðu hér í kvöld að væri hagnaður í fyrir þjóðfélagið, þá er ég ekkert hræddur við að taka erlend lán til nýbyggingar vega. Ég er auðvitað á móti því að taka erlend lán til viðhalds vega. Það eigum við að geta gert með innlendu fjármagni. Og ég er líka á móti því að taka erlend lán til þess að éta þau út. En þar sem við getum sparað gjaldeyri, þar sem við getum innleitt sparnað, þar eigum við ekkert að hika við að taka lán. Það eru aftur sumir menn sem telja að ef farið sé yfir eitthvert ákveðið mark í erlendum gjaldeyri þá muni eyjan sporðreisast. Ég er ekki einn af þeim mönnum sem hafa þetta að trúarafriði, alls ekki. g er fjarri því að vera það.

Ég endurtek svo þakkir mínar til allra þeirra sem hér hafa talað, síðast en ekki síst til vegamálastjóra og verkfræðinga Vegagerðarinnar fyrir ágæta samvinnu bæði við gerð þessarar áætlunar sem og allt annað samstarf sem ég hef átt við þá, bæði sem þm. um langan tíma og sem ráðh. samgöngumála.