26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3888 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég tek undir með hæstv. ráðh. um fjölmiðlana alveg sérstaklega og þátt þeirra í fréttamati á störfum þingsins almennt. Það er mjög undarlegt, svo að ekki sé meira sagt, að þau mál sem skipta kannske mestu máli hér týnast yfirleitt hjá þeim fjölmiðlum sem helst ættu að halda þeim á lofti. Á ég þar við ríkisfjölmiðlana alveg sérstaklega þó að vissulega séu blöðin einnig sek um það. Og það er auðvitað alveg lýsandi um það að vafalaust hafa þessir ágætu menn hugsað sem svo: Ja, það verður bara vegáætlun hér á eftir og ekkert annað. Þar af leiðandi er okkur óhætt að fara heim.

Já, hæstv. ráðh. undirstrikaði það sem ég sagði hér í ræðu minni að það væru trúlega kosningar fram undan, því að hann fór út í mjög mikla samlíkingu við árið 1983 og skaut þar óspart á hæstv. forsrh., fyrrv. samgrh., um það hvernig hann hefði stokkið þar á milli ára, 1983 og 1984. Ég ætla ekki að fara að taka þann hæstv. ráðh. í forsvar. En ég hélt einfaldlega að hæstv. ráðh. og flokkur hans hefði ætlað að gera stórum betur í vegamálum í heild sinni. Þeir sögðu það a. m. k. þá að þeir ætluðu að gera betur. Og ekki hefði ég nú í sporum hæstv. ráðh. farið að tala um óafgreidda vegáætlun 1983 og tekjustofn sem ekki hefði verið samþykktur, því að ekki átti hans flokkur minnstan þátt í því að ekki tókst að afgreiða það mál þá. Þeir áttu raunar aðalsökina, eins og öllum er kunnugt, á því að frá þeim málum var ekki gengið.

Ég ætla aðeins að minna á það hins vegar að 1983, ef menn vilja fara út í samanburð þar, átti prósentan að vera 2.2%. Hún var þá rétt 2%. Það vantaði sem sagt á 0.2% varðandi hlutfall af þjóðarframleiðslu. Það var síðasta árið sem fyrrv. ríkisstj. sat að völdum. Árið 1984, fyrsta ár núv. ríkisstj., átti prósentan að vera 2.3% af þjóðarframleiðslu en varð rúmlega 2% og vantaði því 0.3% þar upp á. Nú, skv. áætlun 1985 og síðustu þjóðhagsspá þá vantar upp á 0.6%, ætti að vera 2.4 en er 1.8%, eða nær 1.8%. Þetta held ég að séu óyggjandi tölur og segja meira en mörg orð um það hvað 1985 er neðarlega í samanburði og réttilega hvað illa hefur nú verið farið með hæstv. samgrh. í núv. ríkisstj. í þessu máli, m. a. vegna þess að sumir ráðh. þar hafa hin undarlegustu trúaratriði, eins og hann vék réttilega að í máli sínu hér síðast.