27.03.1985
Efri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3906 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

382. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Eins og vænta mátti voru það fyrst og fremst hv. þm. Vesturl. sem tóku þátt í þessari umr. Það er ekkert einkennilegt svo mikilvægt sem þetta fyrirtæki er í allri atvinnuþróun í því kjördæmi og ekki síst á Akranesi.

Ég ætti kannske að þakka fyrir þá sögulegu upprifjun sem hér hefur átt sér stað, ekki síst af hálfu 4. þm. Vesturl. og jafnframt af hálfu hæstv. iðnrh. Það var langur sögulegur lestur. Það hefði kannske verið eðlilegra að hæstv. iðnrh. og hv. 4. þm. Vesturl. fjölluðu í lengra máli um hugsanlegar afleiðingar þeirrar breytingar sem hér er lögð til, en ég ætla ekki frekar að fetta fingur út í það.

Ég á sæti í iðnn. og ætla því ekki að tala langt mál um þetta frv. Það er venja að frv., sem lögð eru fram af hálfu ráðh. eða ríkisstj., eru lögð fyrir þingflokka, stjórnarflokka. Það var gert í þessu tilviki eins og öðrum. Ég lýsti því yfir við þá umræðu að ég mundi ekki bregða fæti fyrir það að frv. yrði lagt fram, enda ekki myndugur í því efni, en tók það fram að ég áskildi mér allan rétt til skoðunar á því og eins og það væri fram sett og með tilliti til þess veika rökstuðnings sem lægi að baki því á þeirri stundu lýsti ég ekki fylgi við frv.

Í athugasemdum með frv. stendur, með leyfi forseta: „Ljóst er að með því að stofna hlutafélag um Sementsverksmiðjuna yrði aðilum, sem áhuga hafa á hagkvæmum rekstri þessa fyrirtækis, veittur kostur á því að leggja því lið, bæði með ráðum, víðtækri reynslu, fjármagni og markaðsstöðu. Mætti hugsa sér að meðal þeirra sem hug hefðu á þátttöku í slíkri félagsstofnun væru starfsmenn fyrirtækisins, sveitarfélög, byggingarfélög, steypuframleiðendur og aðrir framleiðendur, sem háðir eru sementsnotkun. En þá er ótalið að eðlilega gæti hinn almenni borgari óskað þess að leggja fé til starfseminnar og er það þýðingarmikið stefnumál að opna þannig atvinnurekstur landsmanna fyrir framlögum almennings og framtaki.“

Varðandi það sem hér er sagt er það mín skoðun að ekkert sé því til fyrirstöðu, fyrir utan bein fjárframlög, að koma við virku samstarfi og áhugatengslum með Sementsverksmiðju ríkisins og þeim sem þurfa þennan varning að nota.

Hér hefur verið á það minnst að Sementsverksmiðja ríkisins væri í seinni tíð að huga meira að ýmsum þróunarverkefnum en áður hefur verið. Í því skyni hefur verið stofnað fyrirtæki, eins konar þróunarfyrirtæki, samstarfsfyrirtæki Sementsverksmiðjunnar og Íslenska járnblendifélagsins. Fyrirhugað er að leggja þessu þróunarfyrirtæki til allverulegt fé af hálfu beggja aðila, samtals 10 millj. kr. hvort árið eða u. þ. b. 20 millj. kr. Ég veit ekki annað en að þetta þróunarfyrirtæki sé raunverulega komið á koppinn. Þetta var hægt án þess að gerðar yrðu breytingar á rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar. Það þarf e. t. v. ekki að spinna þennan þráð lengra. Auðvitað er verksvið umrædds þróunarfyrirtækis fyrst og fremst að þróa steypuframleiðslu steypueiningar, notkun úrgangsefna frá járnblendiverksmiðjunni til að bæta og auka steypugæði og þróa ýmislegt varðandi framleiðslu úr steypuefnum.

Það má vel vera, ég vil ekki vefengja það, að meira eigið fé þurfi til Sementsverksmiðju ríkisins, en auðvitað hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þær leiðir sem hér eru farnar muni uppfylla þær óskir manna. Nú er gert ráð fyrir því að fyrst um sinn séu öll hlutabréf á hendi ríkisins, síðan verði þau seld — eða 20% að hámarki miðað við allt hlutaféð. Nú er það þannig að ef menn eiga að njóta skatthagræðis af hlutabréfakaupum verða að vera minnst 50 hluthafar samkvæmt núverandi skattalögum. Þar er reyndar jafnframt talað um lágmarkshlutafé. Ég geri ráð fyrir að þau skilyrði yrðu uppfyllt í þessu efni. En auðvitað er það galli á gjöf Njarðar að hér skuli ekki liggja fyrir mat á eignum og tíundað með frv. Það væri æskilegra að slíkt lægi fyrir við framlagningu slíks frv.

Varðandi hlutafjárframlög, þá má það svo sem vera að einstaklingar og fyrirtæki legðu til fé þessu fyrirtæki, en eins og ég gat um áðan hefur þetta fyrirtæki nú þegar ráðist í ýmis þróunarverkefni, ekki síst í því augnamiði að þjóna í ríkari mæli sínum viðskiptavinum, núverandi og væntanlegum ef vel tekst til að víkka starfsemi Sementsverksmiðjunnar eilítið út. Það hefur kannske á skort á undanförnum árum að fyrirtæki eins og Sementsverksmiðja ríkisins fengi nægan móralskan stuðning frá stjórnvöldum til þess að það færi út á ýmsar aðrar brautir í framleiðslu, í þróunarmálum, en eingöngu að framleiða sement til mannvirkjagerðar í einfaldasta skilningi.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég mundi ekki fjalla um þetta frv. í löngu máli. Ég ætla að standa við það. Mér sýnist á því sem hér hefur komið fram að Sementsverksmiðja ríkisins sé jafnvel dæmi um að ríkið, þrátt fyrir allt, geti rekið fyrirtæki af myndarskap. Væri nú ekki vel þess virði að hafa einn minnisvarða um að samfélagið og fulltrúar þess eru nokkuð myndug og í þessu tilviki vel fær um að standa að slíkum rekstri?

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um þetta frv. Ég á þess kost í iðnn. Hér hefur því verið varpað fram að afla þurfi agna og menn þurfi að kynna sér þetta mál mjög vel. Ég mun leitast við að láta ekki mitt eftir liggja í þeim efnum.