27.03.1985
Efri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

341. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, og þakka fyrir að geta komið þessu máli hér að, en það er afar brýnt að hægt verði að ljúka því fyrir páskaleyfi svo að hægt sé að hefja greiðslur til þeirra sem greiðslna njóta úr Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins. Um þetta mál var góð samstaða í Nd. og er þm. vel kunnugt um það.

1. gr. frv. fjallar um ráðstöfun á svokölluðum uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi, 2. gr. fjallar um framlengingu á sérstökum 4% bótum á afla og 3. gr. fjallar um 3% viðbót við afla, sem tekin var upp á s. l. sumri, sem gert er ráð fyrir að gildi frá 1. ágúst 1984 og að þessar bætur allar gildi til 1. ágúst 1985. Þá er vonast eftir því að sérstök nefnd, sem hefur verið skipuð til að endurskoða sjóðakerfi sjávarútvegsins í heild, hafi skilað áliti þannig að hægt sé að taka tillit til tillagna hennar við framlengingu og endurskoðun á þessu máli.

Það kemur skýrt fram í frv. hvað hér er um að ræða. Á fskj. 1. á bls. 4 er sérstakt yfirlit yfir tekjur Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins og áætluð útgjöld hans.

Ég vænti þess að hv. sjútvn. sjái sér fært að afgreiða þetta mál hið fyrsta svo að það geti komið til framkvæmda fyrir páska. Ég vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.