27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3914 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls kvaddi sér hljóðs hv. 5. þm. Vestf. og gerði athugasemdir og beindi tilmælum til þeirrar hv. nefndar sem þetta mál fékk til meðferðar, hv. sjútvn. Í þessu frv., eins og það var lagt fram og hér er lagt til af meiri hluta sjútvn. að það verði samþykkt, er gert ráð fyrir því að fækka verulega í Verðlagsráði og kann út af fyrir sig að vera hægt að finna forsendur og rök fyrir því.

Það er þó ein breyting sem ég er andvígur — og tek þar undir orð hv. 5. þm. Vestf. — og hlýt að vekja athygli á. Það er sú breyting að samkvæmt þessu frv. er lagt til að fellt verði niður það ákvæði, sem nú er í gildandi lögum um Verðlagsráð, að sérstakir fulltrúar séu skipaðir við verðlagningu á rækju, hörpudiski og grásleppuhrognum. Það er sem sagt meiningin með þessu frv. að fulltrúum þessara aðila verði kippt út og þar með komið í veg fyrir að þeir geti haft áhrif á verðlagningu þessara afurða.

Ég vildi gjarnan beina því til formanns eða frsm. meiri hluta hv. sjútvn. hvort tilmæli þau, sem fram komu við 1. umr. málsins frá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, um að þessu yrði breytt aftur og inn tekið ákvæði sem tryggði að fulltrúar þessara aðila ættu aðild að verðlagningu þegar hún færi fram, hafi ekkert verið rædd í viðkomandi nefnd.

Mér er það óskiljanlegt hvaða ástæða er í þessu tilfelli til að þessu verði kippt út. Mér er nær að halda að ýmsir hv. þm. hafi kannske ekki gert sér grein fyrir því hvað hér er að gerast. Mér finnst ólíklegt t. d. að hæstv. samgrh. telji æskilegt að gera slíkt. Mér finnst líka ótrúlegt — og það er kannske rétt að óska eftir upplýsingum um það sérstaklega — að hæstv. félmrh. sé afskaplega hlynntur því að fulltrúum þessara aðila sé kippt út úr Verðlagsráði til þess að þeir hafi engin áhrif á verðlagningu þessara fiskitegunda.

Í ljósi þessa óska ég eftir því við hv. þm. Stefán Guðmundsson, formann og frsm. meiri hluta sjútvn., að fá um það vitneskju hvort ekkert hafi verið rætt um þessa ábendingu og beiðni hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Eins og mál standa nú mun ég greiða atkvæði gegn þessu og þar af leiðandi hlýt ég — verði þessu haldið til streitu að samþykkja frv. eins og það nú er — að greiða atkvæði gegn því.