27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3918 í B-deild Alþingistíðinda. (3250)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd út af ummælum hv. þm. Karvels Pálmasonar. Mér er ljúft að staðfesta það að hjá okkur í sjútvn. ganga málin eðlilega og vel fyrir sig og menn leggja sig vel fram um að vinna að málum, skoða þau og velta þeim fyrir sér. (GJG: Það er allur gangur á því.) Það er ekki allur gangur á því, hv. þm. Guðmundur. (GJG: Jú.) Nei. Það vill svo til hjá okkur í dag, ég efast um að það séu margar þingnefndir sem geti sagt það. Hjá sjútvn. þessarar deildar liggur ekki fyrir eitt einasta mál óafgreitt. Menn hafa vissulega unnið þar gott verk og er ástæða til að þakka það.

En ég vil segja það að ég kann ekki almennilega við þann tón sem kom fram hjá Karvel Pálmasyni. Ég ætti ekki að þurfa að taka upp hanskann fyrir hv. þm. Garðar Sigurðsson, hann er einfær um það. En þar sem það kom fram að Garðar væri tilbúinn til að verja hin verstu verk sem sjútvrh. væri að fremja í sinni ráðherratíð velti ég því fyrir mér hvað hér er átt við, hvað hv. þm. Garðar Sigurðsson er að verja. Það gæti kannske verið af því að hann þekkir hag sjávarútvegsins betur en margir aðrir sem sitja hér inni á Alþingi og það sé kannske af því sem skoðanir hans og sjútvrh. falla saman.