27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3919 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna ummæla sem hér féllu áðan í ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar þar sem hann ræðir um brtt. okkar Guðmundar Einarssonar, um það að 10. gr. verði lögð niður, sem þýðir, eins og réttilega kom fram í máli hans, að ekki verður um að ræða yfirnefnd. Hann sagði: Þegar tveir deila þá þarf að skera úr. Það er alveg rétt. En þarf það endilega að vera aðili frá ríkinu?

Ég vitna þá í 10. gr. þar sem stendur að rísi upp ágreiningur þá skuli það vera forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar eða fulltrúi hans sem þar sker úr. Ég spyr hvort það gefi ekki alveg eins verið Verðlagsráð sem kjósi sér úrskurðaraðila sem þeir sjálfir treysta. Þar með er komið í veg fyrir að stöðugt verði ávísað á ríkið ef illa gengur. Með þessu móti teljum við að um verði að ræða ábyrga eða a. m. k. ábyrgari samninga en nú er.