27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3919 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Magnús Reynir Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. til l. um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

Ég bendi á að í 1. gr. þessa frv. er setning sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er þeim sem tilnefna eiga fulltrúa skv. þessari grein að skipta um fulltrúa sína í Verðlagsráði eftir því sem rétt þykir til þess að sjónarmið þeirra fiskseljenda og fiskkaupenda sem hlut eiga að máli við hverja verðákvörðun komi sem best fram.“

Ég held að þetta hafi verið þannig í reynd að þeir aðilar sem tilnefndir eru úr hópi fiskkaupenda, t. d. fulltrúar sjávarafurðadeildar SÍS og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, en þessi fyrirtæki selja yfirleitt flestar tegundir sjávarafurða, hafi haft mjög náið samband við þá aðila sem mestra hagsmuna eiga að gæta hverju sinni í sambandi við verðlagninguna. Ég sé því ekki ástæðu til þess að menn breyti frv. sem hér liggur fyrir að þessu leyti.