27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3922 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, en frv. þetta er flutt af heilbr.- og trn. hv. Nd. að beiðni hæstv. heilbr.- og trmrh.

Hæstv. ráðh. ritaði heilbr.- og trn. bréf, dags. 28. janúar s. l., þar sem hann gerði grein fyrir máli þessu og þar kom fram að hann taldi tilgangslítið að flytja frv. sem þetta nema um það næðist sem víðtækast samkomulag fyrir fram. Því var það að ráðh. fór fram á að heilbr.- og trn. athugaði frv. og flytti það síðan ef um það yrði samkomulag. Heilbr.- og trn. féllst á að verða við þessari beiðni hæstv. ráðh. og var jafnframt haft samráð við formann heilbr.- og trn. hv. Ed. Hins vegar hefur n. ekki unnist tími til að athuga frv. sem skyldi og hafa því einstakir nm. fyrirvara um að flytja brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Þá þykir nm. rétt að athuga frv. milli umr. þótt það sé flutt af n.

Ég rek hér í stórum dráttum helstu ástæður fyrir flutningi frv. og svo helstu ákvæði þess:

Eins og fram kemur í grg. með frv. hefur á undanförnum árum mjög færst í vöxt að hinar ýmsu heilbrigðisstéttir hafi sótt um lögverndun starfs og starfsheitis. Hefur þá ýmist verið gripið til þess ráðs að setja sérlög um hinar einstöku stéttir eða kveða á um þær í reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 64/1971, um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, þ. e. hafi verið um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir að ræða eins og röntgentækna og lyfjatækna svo að dæmi séu tekin. Samkv. þessu nægir reglugerð sé um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir að ræða, en að öðrum kosti þarf sérlög.

Nú er augljóst að sífelld setning sérlaga um einstakar heilbrigðisstéttir gengur ekki til lengdar og er reyndar spurning hvort ekki hafi þegar verið gengið of langt í þeim efnum. Nær væri að útbúa heildstæða löggjöf um heilbrigðisstéttir sem gæfi heimildir til setningar reglugerðar um hina einstöku hópa þar sem tekið yrði á sérmálum þeirra, svo sem hverrar menntunar sé nauðsynlegt að krefjast, í hverju starfið skuli fólgið og þar með hver réttindi þeirra skuli vera og ekki síst hvaða skyldur þeir skuli bera. Forsendan fyrir því að hægt sé að viðurkenna starfsstétt sem heilbrigðisstétt hlýtur að vera sú að fyrir liggi markvisst og skipulagt nám í skóla innanlands eða utanlands sem heilbrigðisyfirvöld viðurkenna. Slíkt nám verður að miðast við ákveðna sérhæfingu vegna mikilvægis starfans svo að hann sé leystur af hendi á sem farsælastan hátt, enda ábyrgð heilbrigðisstétta meiri en gerist yfirleitt.

Haustið 1982 fól þáv. heilbr.- og trmrh., Svavar Gestsson, Ingimar Sigurðssyni deildarlögfræðingi í heilbr.- og trmrn. og Ólafi Ólafssyni landlækni að gera tillögur að frv. til 1. um heilbrigðisstéttir, þ. e. tillögur að rammalögum sem tækju yfir heilbrigðisstéttir almennt, ekki aðeins tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, að svo miklu leyti sem ekki hefðu þegar verið sett sérlög um viðkomandi stéttir. Fyrrnefndir menn skiluðu áliti í búningi frv. til l. um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta í septembermánuði s. l. Höfðu þeir áður leitað umsagna ýmissa heilbrigðisstétta sem ekki búa við löggildingu, svo sem Félags ísl. læknaritara og Sjúkranuddarafélags Íslands, svo og ýmissa félaga sem njóta löggildingar, t. d. Sjúkraliðafélags Íslands, Ljósmæðrafélags Íslands, Röntgentæknafélags Íslands, Félags ísl. sjúkraþjálfara og Lyfjatæknafélags Íslands. Lýstu allir þessir aðilar sig ýmist sammála frumvarpsdrögunum eða höfðu engar athugasemdir fram að færa, þ. e. töldu þau í engu skerða starfssvið sitt.

Í grg. með þessu frv. segir að til rn. hafi borist bæði formlega og óformlega beiðnir frá nokkrum félögum um löggildingu. Liggja beiðnir í rn, óafgreiddar þar sem rn. vill freista þess að vinna að setningu heildarlaga um heilbrigðisstéttir eins og áður hefur komið fram. Sem dæmi má nefna beiðni frá Félagi ísl. læknaritara, Sjúkranuddarafélagi Íslands, Félagi matvæla- og næringarfræðinga, Félagi heyrnarfræðinga og talmeinafræðinga og frá líffræðingum starfandi í heilbrigðiskerfinu, þ. e. sem sérmenntað hafa sig eftir líffræðinám í heilbrigðisgreinum.

Ingimar Sigurðsson deildarlögfræðingur hefur tekið saman grg. varðandi réttindi og skyldur heilbrigðisstétta með hliðsjón af skipan mála erlendis og hér á landi. Þessi grg. fylgir með frv. á þskj. 567 og vísa ég til hennar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að rekja einstakar greinar frv., en nefni aðeins að ákvæði eru um til hverra atriða lögin taki, þ. e. til starfsheita og starfsréttinda þeirra heilbrigðisstétta sem sérlög gilda ekki um. Þannig er ekki ætlunin að hrófla við þeim sérlögum sem þegar hafa verið sett, eins og ég hef áður nefnt. Kveðið er á um hvað þurfi til þess að fá réttindi til að starfa sem heilbrigðisstétt, þ. e. að ljúka þurfi prófi í einhverri grein heilbrigðisfræði og fá löggildingu heilbrrh. að loknu námi. Ráðh. ákveður hvaða stéttir skuli teljast heilbrigðisstéttir. Leitað skal umsagnar viðkomandi starfsstéttar og landlæknis áður en leyfi er veitt þeim sem starfað hefur í viðkomandi starfsgrein án tilskyldrar menntunar. Þannig á að vera tryggt að þeir, sem eru í starfi við gildistöku laganna án þess að hafa tilskilda menntun, geti starfað áfram. Þá er í frv. fjallað um þau störf sem heilbrigðisstéttir annast.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.