27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3926 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka virðulegum og sanngjörnum forseta fyrir að leyfa mér að hefja umr. utan dagskrár um málefni sem ég tel brýnt að ræða hér lítillega á hinu háa Alþingi. Á ég þar nokkurt erindi við hæstv. menntmrh. sem nú gengur í salinn.

Þannig er mál með vexti að ég er ósáttur við framgöngu hæstv. menntmrh. í ákveðnu máli og vil bera fyrir hann nokkrar spurningar þar að lútandi. Það mál, sem ég á hér við, er norrænt samstarfsverkefni framhaldsskólanema sem við Íslendingar höfum tekið þátt í að undirbúa nú um eins og hálfs árs skeið og hefur verkefnið verið nefnt „Norræn samvinna 1985“.

Það er sú ákvörðun hæstv. menntmrh., að neita þeim skólanemum, sem leggja vilja þessu verkefni lið, um eins dags frí til að gera svo, sem ég er ósáttur við sem og öll embættisfærsla ráðh. í sambandi við þetta mál. Það er óhjákvæmilegt að kynna örlítið verkefnið til að hv. þm. viti hvað hér er á ferðinni, þar sem sumir þeirra eru komnir nokkuð af bernskuskeiði og ekki er víst að þeim hafi verið kynnt þetta á öðrum vettvangi. Ég vil gera það m. a. með því að lesa ávarp sex valinkunnra borgara sem kynnir þetta verkefni og hefur verið notað sem dreifirit, veggspjald eða plakat á vondu máli. Þar segir m. a. að endingu þar sem verkefnið hefur verið kynnt:

„Við undirrituð álítum að án tillits til stjórnmálaskoðana, þá sé apartheid-stefnan ómennsk og óréttlát. Það gleður okkur að geta stutt námsfólk og Hjálparstofnun kirkjunnar við fyrrgreint verkefni á ári æskunnar 1985. Við heitum á landsmenn að taka höndum saman við unga fólkið sem leitast við að hjálpa þeim sem eru lítillækkaðir og órétti beittir í Suður-Afríku.“ Undir þetta rita Auður Auðuns, Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Árni Bergmann, Erling Aspelund, Guðlaugur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir.

Eins og menn hafa hér heyrt þegar snýst þetta verkefni um kynningu á þeim málum sem þar voru nefnd, þ. e. þeirri réttindaskerðingu sem litaðir menn búa við í Suður-Afríku og fjársöfnun til stuðnings starfi Samkirkjuráðs Suður-Afríku og einnig annarra aðila til að reyna að bæta þar úr.

Fleiri ágæfir borgarar hérlendis sem erlendis hafa stutt þetta verkefni og sýnt því velvilja. Ég vil lesa, með leyfi forseta, upp úr öðru ávarpi undirrituðu af tíu merkum samtíðarmönnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frelsis frá fátækt og undirokun til mannsæmandi lífs ættu allir í heiminum að njóta. Þess í stað þjást mörg börn og ungmenni af vonleysi gagnvart framtíðinni. Af þessum sökum hafa Sameinuðu þjóðirnar valið árið 1985 sem ár æskunnar. Námsmenn á Norðurlöndum standi þá að miklu framtaki með NOD '85, norrænni samstöðu. NOD '85 er eigið framtak námsmanna til að veita félögum sínum í þriðja heiminum menntunarmöguleika. NOD '85 þýðir skólaganga og bjartari framtíð fleirum til handa.

Þekking er skilyrði fyrir friði, eðlilegri þróun og þátttöku fólks í þjóðfélaginu. Þau mál eru efst á baugi á alþjóðaári æskunnar. Við á Norðurlöndum lifum í friði og erum meðal hinna ríkustu í heimi. Allt, sem við getum gert, hefur því mikla þýðingu. NOD '85 er unnið fyrir æskufólk sem hefur flúið undan kynþáttaaðskilnaðinum, apartheid, í sunnanverðri Afríku. Í Tansaníu byggir suður-afríska lýðræðislega andstaðan skóla á vegum ANC, Afríska þjóðaráðsins. Í Suður-Afríku sjálfri getur SAC, Samkirkjuráð Suður-Afríku, boðið upp á valkosti í menntun fyrir blökkumenn. Í Zimbabwe verður að halda áfram að styrkja efnahagslega þróun eftir fall hinnar hvítu minnihlutastjórnar.

Við skorum á alla að taka þátt í starfinu af öllu hjarta þannig að NOD '85 verði árangursríkt.“

Undir þetta rita Steingrímur Hermannsson, Íslandi, Poul Schlüter, Danmörku, Kalevi Sorsa, Finnlandi, Kåre Willoch, Noregi, og Olof Palme, Svíþjóð. Auk þess einn valinkunnur listamaður frá hverju áðurnefndra landa: Hrafn Gunnlaugsson, Íslandi, Jesper Klein, Danmörku, Arja Saijonmaa, Finnlandi, Rolf Wesenlund, Noregi, og Hans Alfredsson, Svíþjóð.

Fyrir utan þetta, sem ég hef nú þegar lesið, hafa ýmsir fleiri sýnt þessu verki — og reyndar flestir sem að því hafa komið — almennan velvilja. Þar má nefna forseta Íslands, biskupinn yfir Íslandi, Nóbelsskáldið okkar og fleiri. Framkvæmdanefnd hefur starfað að undirbúningi þessa verkefnis hér á landi og innt af höndum mikið starf og lagt til þess verulega fjármuni, kynnt þetta verkefni og þennan málstað í skólum, boðið hingað fulltrúa frá kúguðu hópunum í Suður-Afríku. Að þessu hefur verið starfað með hjálparstofnunum kirknanna á Norðurlöndum. Menntmrh. á hinum Norðurlöndunum hafa lýst yfir fullum stuðningi við verkefnið og Desmond Tutu, friðarverðlaunahafi Nóbels, hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við þetta verkefni. Hann var reyndar framkvæmdastjóri samkirkjuráðsins sem hér á hlut að máli.

Útlagður kostnaður við kynningu og undirbúning þessa verkefnis er sennilega kominn yfir 700 þús. kr., sem er sambærileg fjárhæð og tókst, með leyfi herra forseta, að særa út úr hv. Alþingi í sambandi við framkvæmd á alþjóðaári æskunnar. Nú á að verulegu leyti að kasta öllum þessum undirbúningi og öllum þessum fjármunum á glæ með einu neii á háttsettum stað. Starfsmaður hefur verið á fullum launum. Gefin hafa verið út plaköt og barmmerki. Gesti hefur verið boðið hingað frá Suður-Afríku, Jacqueline Williams, og hefur hún m. a. þegið heimboð forseta Íslands. Hún hefur ferðast út um allt land og kynnt þetta mál. Það má benda á að þessi aðgerð átti að verða ein sér stærsta aðgerð á alþjóðaári æskunnar hér á landi.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnast samskipti hæstv. menntmrh. við framkvæmdaaðila þessa máls hafa verið öll með endemum. Hún hefur ekki svarað bréfi sem þeir rituðu í haust þessu að lútandi. Hún hefur ekki veitt þeim viðtöl og svo lítur helst út sem hún hafi ekki viljað af þeim vita.

Það sem farið var fram á að ráðh. gerði var að hún gæfi heimild sína til skólayfirvalda um að gefa þeim skólanemendum, sem vildu leggja þessu verkefni lið, frí í einn dag til að fara út á vinnumarkaðinn og afla þar fjármuna í þessu skyni. Fjármunirnir eru í sjálfu sér ekki aðalatriði í þessu máli heldur sú kynning verkefnisins og sá hápunktur sem átti að felast í þessum nefnda degi.

Ég held að slíkum degi hefði verið ákaflega vel varið í þágu þessa málstaðar. Það er nú einu sinni svo að það er fleira lærdómur en þverár Dónár og föllin í latínunni og ég held að einum degi sé ekki illa varið af æsku Íslands til þess að kynnast því hvernig högum æskunnar í öðrum löndum og öðrum heimshlutum er háttað. Mér finnast kjörorð alþjóðaárs æskunnar, þróun, þátttaka og friður eiga hér einstaklega vel við.

Ég vil, herra forseti, skora á hæstv. menntmrh. að bregðast nú vel við og gefa út um það tilkynningu til skólayfirvalda og nemenda svo að aðilar viti báðir að þeim sé heimilt að taka að fullu þátt í þessu verkefni, enda er auðvitað fyrir því séð að einungis þeir, sem í raun gera það, njóti góðs af slíkri heimild.

Hæstv. menntmrh. hefur sýnt það á undanförnum dögum að hann kann vel á ritsímann og einnig eru fjölmiðlar í landinu. Þess vegna er það vandalaust enn, að minni hyggju, að bæta úr því sem á hefur skort í þessum efnum og koma því á framfæri í dag að svona megi þetta vera. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðh. hér hvers vegna það gerist að ekki hefur verið svarað bréfi framkvæmdanefndar þessa máls.

Herra forseti. Ég harma það að hæstv. forsrh. er fjarri. Þar sem hann hefur gerst sérstakur verndari þessa verkefnis hefði ég gjarnan viljað hafa hann mér hér á bak til halds og trausts. Gaman hefði verið að spyrja hann að því, ef hæstv. ráðh. hefði verið hér, hvort einhverjar samgöngutruflanir séu milli forsrn. og menntmrn. og hvernig það má gerast að mál, sem hann hefur með jafneindregnum hætti lagt liðsinni sitt, skuli forklúðrast svo herfilega í höndunum á einum af ráðh. í hans eigin ríkisstj. Ég hlýt að spyrja ráðh. hvort þetta sé dæmigert viðhorf hans rn. gagnvart alþjóðaári æskunnar og hvort vænta megi fleiri slíkra ákvarðana á því ári sem yfir stendur.

Þeirra viðbragða hefur orðið vart af hálfu hæstv. menntmrh. að framhaldsskólanemar og þeir, sem að þessu verki standa, geti sjálfum sér um kennt, þeim sé rétt nær að hafa ekki farið í þetta, eins og reyndar einu sinni stóð til á meðan á kennaradeilunni stóð og starfsemi skólanna var takmörkuð af þeim sökum. Í því sambandi vil ég benda hæstv. menntmrh. á að hæg voru þá heimatökin í rn. að hvetja skólanemendur til þess að nota þá daga og svara bréfum þeirra og erindum og gefa þeim þá heimild til þess að gera það á meðan þannig stóð á.

Í öðru lagi vissi auðvitað enginn hversu lengi sú deila stæði. Það hefði einnig verið hægt að leggja þessu lið með því að reyna að leysa hana fyrr og tengja þannig skólatímann sem eftir var. Ég held að það sé því hæstv. ráðh. sem geti sjálfum sér um kennt. Það var nokkur starfsemi í skólunum á meðan þessi deila stóð og hæstv. menntmrh. lét reyndar drjúgum yfir því hér í umr. um það hversu kennararnir streymdu til baka inn í skólana og þar væri þó nokkurt starf þrátt fyrir deiluna. Það var því eðlilegt að framkvæmdaaðilum þessa verks hrysi hugur við því að leggja út í þetta án þess að fá nokkur svör frá hæstv. ráðh. Eðlilega trúðu þeir því í lengstu lög að þeir fengju jákvætt svar og tóku því þann kost að fresta þessu um eina viku í trausti þess að það svar bærist.

Rök hæstv. menntmrh. fyrir því að synja þessu eru að mínu viti algjörlega óhaldbær. Ég held að það skipti engum sköpum fyrir þá nemendur sem áttu að taka þátt í þessu þó að þeir verji til þess einum degi og ég er viss um að sá hugur, sem mundi fylgja máli hjá mörgum þeirra, mundi létta þeim róðurinn sem því næmi á þeim dögum sem eftir lifðu af skólastarfinu.

Að lokum þetta, herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ákaflega ósáttur við þessa ákvörðun hæstv. menntmrh. Það jaðrar við að ég sé reiður, herra forseti. Ég hlýt fyrir hönd þeirra, sem staðið hafa að þessum undirbúningi, lagt hafa í hann mikla vinnu, mikla orku og mikla peninga, að mótmæla þessari ákvörðun. Niðurstaða hæstv. ráðh. er ámælisverð að mínu mati og ég mótmæli harðlega þeim vinnubrögðum sem birst hafa í sinnuleysi ráðh. í þessu efni. Ég hlýt aftur að harma það hvílíka útreið hæstv. forsrh. hefur fengið í þessu máli. Ég hlýt að skora á hæstv. menntmrh. og ég ætla að skora á fjarstaddan hæstv. forsrh. að bjarga nú því sem bjargað verður og gefa út tilkynningu til skólayfirvalda og nemenda um að öllum þeim, sem vilja leggja þessu verkefni lið, sé það heimilt og óhætt. Reyndar ætti rn. að hvetja til þátttöku í þessu merkilega verkefni.