27.03.1985
Neðri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3932 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni óvenjulegt hugsjónaverkefni ungs fólks í landinu sem er liður í mjög víðtæku alþjóðlegu hjálparstarfi. Það verður mjög rækilega fylgst með því, bæði í nágrannalöndum okkar og eins meðal þeirra sem búa við kúgun og fátækt í Suður-Afríku, hvernig þessu verkefni reiðir af hér á landi. Við erum með framkvæmd á þessu máli að gefa til kynna hvers virði barátta gegn fátækt, hungri og kúgun, og fyrir mannréttindum barnanna í Suður-Afríku er okkur.

Mér fannst í ræðu hæstv. menntmrh. skína í gegn sérkennilegur valdshroki, nánast ánægja yfir því að geta nú fundið flöt til þess að leggja stein í götu þessa verkefnis. Hæstv. menntmrh. var alls ekki að gefa til kynna að hún væri öll af vilja gerð til þess að reyna að finna lausn á þessu máli, alls ekki. Það var ekki tónninn og ekki viðhorfið. Nei, þvert á móti var allt tínt til til þess að sýna fram á að þetta kæmi nú ekki til greina. Og þar voru miklar mótsagnir.

Ég vek t. d. athygli á því að í ræðu sinni hér sagði hæstv. menntmrh. að hún hefði ekki verið reiðubúin að fallast á erindi um að veita dag úr skólastarfinu til að sinna þessu verkefni í febrúarmánuði vegna þess að mikil óvissa hefði verið um það hvort skólarnir yrðu starfandi á þeim tíma. Ég veit að hv. alþm. muna það og þjóðin man það einnig að á þessum tíma kom hæstv. menntmrh. fram í fjölmiðlum hvað eftir annað og lýsti því yfir að tilkynningar kennara um hugsanlega útgöngu mundu í engu breyta hennar áformum eða starfsháttum eða hafa áhrif á hennar ákvarðanatöku að einu eða neinu leyti vegna þess að hún einfaldlega tryði því ekki að kennararnir mundu ganga út. Hæstv. menntmrh. endurtók þetta hvað eftir annað í fjölmiðlum. Þetta mundi ekki gerast. Hún tryði því ekki og mundi miða allar sínar ákvarðanir við það að kennararnir yrðu áfram í skólunum eftir 1. mars.

En núna kemur hæstv. menntmrh. hér upp í ræðustól á Alþingi og segir að í þessu eina máli — þessu mikilvæga máli, þessu hugsjónamáli — þá allt í einu hafi hún gripið til þess að hagnýta sér kennarana til að fallast ekki á ósk um að veita aðstöðu í skólunum til að koma þessu verkefni í framkvæmd, hliðstæða aðstöðu og hefur verið veitt annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er mjög merkileg mótsögn við allar aðrar yfirlýsingar hæstv. menntmrh. á þessum tíma og sýnir best að hæstv. menntmrh. hafði engan áhuga á því að greiða fyrir þessu verkefni.

Nú flytur hæstv. menntmrh. hér hjartnæmar ræður um það að ekki megi leggja þetta á börnin, ekki megi leggja þetta á kennarana og ég veit ekki hvað og hvað. Eins og hæstv. menntmrh. beri sjálf enga ábyrgð á þeirri atburðarás sem gerðist í þessum mánuði varðandi framhaldsskólana í landinu. Er þá skemmst að minnast þess að hæstv. menntmrh. lýsti því yfir í síðustu viku að hún mundi á mánudeginum í þessari viku segja öllum þessum kennurum formlega upp störfum. Það yrðu ekki lengur ráðin hundruð kennara við skólana. Skólarnir gætu þess vegna ekki farið af stað. Þá var ekki þessi mikla umhyggja sem kom fram hér áðan.

Það er þess vegna alveg sama hvar á þetta mál er litið hvað snertir málflutning hæstv. menntmrh., að greinilegt er að óvildin, jafnvel illviljinn, í garð þessa verkefnis virðist ráða gerðum hæstv. menntmrh.

Nú er það auðvitað svo að það er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að finna ýmsar aðferðir til að koma þessu í framkvæmd. Það er hægt. Það er bara spurning um vilja af hálfu rn. og þeirra sem með rn. starfa. Ég vil beina þeirri ósk formlega til þeirra embættismanna í rn. og þeirrar nefndar sem sér um framkvæmd hins svokallaða æskulýðsárs, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa efnt til, að þeir beiti sér fyrir því að finna nú á allra næstu dögum lausn á þessu máli sem það unga fólk, sem hefur beitt sér fyrir þessu í framhaldsskólunum, getur sætt sig við. Því það er ekkert eitt verkefni sem nýtur jafnbreiðs stuðnings ungs fólks í skólum og tengist þessu æskulýðsári eins og þetta verkefni. Sú nefnd og sá samstarfshópur sem rn. hefur skipað til að sinna þessu æskulýðsári getur ekki á neinn hátt risið undir nafni það sem eftir er ársins ef það kemur ekki rækilega fram að þessi hópur og starfsmenn rn. beiti sér fyrir því að finna lausn á þessu máli.

Ég vona að hæstv. menntmrh. muni þá ekki leggja stein í götu þeirrar lausnar sem samstarfsnefnd æskulýðsársins og forráðamenn þessarar söfnunar geta komið sér saman um.