28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3935 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um þáltill. sem er hér á þskj. 13 og er 13. mál þingsins og hljóðar svo, með leyfi forseta.

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa þriggja manna nefnd sem leggi fram ákveðnar tillögur um það hvernig best sé að veita athvarf og heilbrigðisog félagslega þjónustu þeim börnum og unglingum yngri en 18 ára sem eru illa haldin, andlega og líkamlega, vegna fíkniefnaneyslu.“

Nefndin fjallaði um till. og er vitanlega efnislega sammála því sem fyrir flm. vakir. Nefndin er einhuga um að mikil nauðsyn sé á athvarfi fyrir unga fíkniefnaneytendur og öllum þeim aðgerðum sem til lausnar megi verða á vanda þeirra sem hafa ánetjast vímuefnum.

Nefndin telur hins vegar ekki eðlilegt að skipa þriggja manna nefnd vegna þess að að því verkefni vinnur nú þegar stjórnskipuð nefnd sem heilbr.- og trmrh. skipaði 15. júlí 1981 eftir að ályktun Alþingis frá 7. maí það ár hafði verið samþykkt. Sú þál. heitir þál. um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur og var samþykkt á Alþingi 7. maí 1981. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka nú þegar til gagngerrar endurskoðunar öll geðheilbrigðismál hér á landi. Í þessu skyni skipi heilbr.- og trmrn. nefnd og skulu aðstandendur geðsjúkra eiga fulla aðild að nefndinni. Skal nefndin gera áætlanir um skipulagningu og úrbætur í þessum málum og skila áliti fyrir árslok 1981.“

Í þessa nefnd voru skipaðir Ingvar Kristjánsson geðlæknir, formaður, Högni Óskarsson geðlæknir, Ásgeir Karlsson geðlæknir, Hulda Guðmundsdóttir félagsráðgjafi, Margrét Hróbjartsdóttir hjúkrunarfræðingur, Oddur Bjarnason geðlæknir, formaður Geðverndar, Sigríður Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur, Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur, Guðrún A. Janusdóttir læknafulltrúi og Örbrún Halldórsdóttir læknaritari.

Þessi nefnd hefur svo sannarlega skilað áfangaskýrslum og sumt af tillögum nefndarinnar hefur þegar komist í framkvæmd svo að til fyrirmyndar er, svo sem tillögur þessarar nefndar um bráðaþjónustu fyrir geðsjúka í Reykjavík sem er nú eftir tillögum nefndarinnar og hefur orðið til mikilla bóta. Um það held ég að allir séu sammála.

Þessi stóra nefnd skipaði undirnefnd, sem átti einmitt að fjalla um athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur, og hafa verið í þeim hópi Ásgeir Karlsson, Hulda Guðmundsdóttir, Margrét Hróbjartsdóttir og Ingvar Kristjánsson. Nefndin mun ljúka verki sínu og skila heildartillögum fyrir 1. apríl næstkomandi og hefur þegar skilað, eins og ég sagði áðan, áfangaskýrslum.

Allshn. telur því ekki viðeigandi að skipa þriggja manna nefnd til að fjalla um það sama og þessi nefnd hefur verið að vinna að. Nefndin vill þó leggja á það áherslu að hún er innilega sammála öllu því sem í grg. till. stendur og er mjög hlynnt þeim hugmyndum sem þar koma fram. En hún treystir því að ríkisstj. bregðist við með því að verða við tillögum þeirrar stjórnskipuðu nefndar sem nú er að ljúka störfum. Öll vitum við að ekkert verður að gert nema fé verði til þess veitt. Því vill n. í hvívetna taka undir allt það sem stendur í grg., en telur sig ekki geta lagt til að nú hefji þriggja manna nefnd störf ofan í þau störf sem verið er að vinna að og vísar því málinu til ríkisstjórnarinnar.

Undir þetta nál., sem hér liggur fyrir á þskj. 544, skrifuðu allir nm. 27. febr. 1985.