28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3958 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tel að þessi till. til þál. sé fullrar athygli verð og kominn tími til að Íslendingar hugi meira að markaðsmálum en hingað til. Fram að þessu höfum við haft þá aðferðina að framleiða hér ýmsar vörur, kannske eftir okkar smekk, og ætlast síðan til þess að útlendingar séu gráðugir að kaupa, t. d. að prjóna tíu þúsund grænar peysur sem líta vel út í augum íslenskra sveitamanna en ekki nokkur lifandi maður vill fara í í útlöndum. Helst þarf að framleiða það sem viðskiptavinirnir vilja nota eða éta. Þarna erum við á hálfgerðu steinaldarstigi á margan hátt.

Ég er dálítið undrandi að heyra í hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni varðandi þetta mál. Hann virðist vera eitthvað hræddur við þetta. Það held ég að sé alveg ástæðulaust. Það eru merk samtök sem hann vinnur fyrir og flytja út megnið af íslenskum sjávarafurðum, SH og Sambandið. En sannleikurinn er sá að varan er ákaflega lítt unnin hér á landi. Okkar hlutverk hefur verið að draga aflann í land og koma honum síðan í geymsluform. Frystingin er ekki nein fullvinnsla fremur en söltun og hersla. Þetta er aðeins aðferð til að þetta hráefni eyðileggist ekki á leiðinni til markaðarins, svo einfalt er það. En sem betur fer hafa þessi samtök komið sér upp myndarlegum verksmiðjum vestur í Bandaríkjunum, þar sem okkar stærsti freðfiskmarkaður er, og hafa síðan unnið úr því þar. Það hefur að mínum dómi gengið á margan hátt mjög vel.

Ég er ekki viss um að fullvinnsla á hraðfrysta fiskinum geti gengið að öllu leyti hér heima vegna þess að þar sem um svona fjölbreytta matvöru er að ræða, þar sem smekkur breytist afar fljótt, þurfa slíkar verksmiðjur að vera sem allra næst og inni í hinum lifandi markaði.

Það er rétt að ekki þarf marga menn til að selja lýsi og mjöl eins og við höfum gert að undanförnu með því að flytja lýsi út í tönkum og mjölið laust í lestum. Það er meira að segja stundum vont mjöl. Hefðum við haft þá fyrirhyggju að búa okkar fiskimjölsverksmiðjur betur út gætum við framleitt mjöl eins og sumir aðrir, sem keppa við okkur á þessum mörkuðum, eru farnir að gera, jafnvel mjöl fyrir fólk eða mjöl sem hentar vel til fóðrunar á loðdýrum o. s. frv.

En það er svo margt annað sem við getum gert í þessum efnum og einmitt með því að mennta fólk til að vinna í þessari markaðssetningu, eins og það heitir nú til dags.

Þegar við komum í matvörubúð hér í Reykjavík sjáum við þar hillu eftir hillu með alls kyns matvörum sem eiga jafnvel uppruna sinn hér á Íslandi. Síld er flutt til Íslands eftir að búið er að laga hana til og koma henni á markað. Það eru nokkur þúsund tonn af grásleppuhrognum sem við sækjum í sjó og síðan er þetta sett í tunnur og flutt beint til Danmerkur að langmestu leyti. Hvað gera Danir svo við þetta? Þeir skola þetta svolítið og bragðbæta, kannske lita og setja þetta í mjög fallegar glerkrukkur og selja þetta við feiknaháu verði sem kavíar. Þetta gerum við að vísu á Íslandi li~ca en í ákaflega litlum mæli. Verðmætið margfaldast á þessari leið. Þetta þarf að gera við fleiri afurðir. Við flytjum þorskhrogn til Svíþjóðar. Þar er hvolft úr tunnu~um á grind þar sem himnurnar eru teknar frá, hrognin eru þvegin og mokað sjálfvirkt í vél sem ungar síðan út úr sér túpum með lostæti. Verðmætið tífaldast. Af hverju gerum við þetta ekki líka?

Það mætti nefna mörg fleiri dæmi. Með því að komast sem allra næst smásölumarkaðinum höfum við eðlilega langmest upp af þeim peningum sem okkur vantar. Þessu hefur bara ekki verið sinnt. Íslendingar hafa ekki einu sinni hirt hrognin sín nema að tiltölulega litlu leyti. Hrognum hefur verið fleygt hérna á togurunum alveg fram undir síðustu ár. Þegar mikið berst að landi á netavertíð hefst ekki undan að hirða hrognin. Útgerðin fær lítið fyrir það hráefni, sárafáar krónur fyrir kílóið. Með því að mennta fólk til að selja þessar ýmsu afurðir sem allra næst hinu háa verði getum við aukið okkar verðmæti til mikilla muna.

Við höfum hins vegar aldrei látið nokkurn pening í markaðsöflun af skynsemi. Við getum mokað 400 millj. í saltverksmiðju í samkeppni við salt sem er unnið beint úr sjónum af sólinni sjálfri. Þeir peningar væru betur komnir, a. m. k. að miklum hluta, í það að auka verðmæti okkar afurða með sölumennsku. Kannske vantar ekkert annað en sölumennsku á mörgum sviðum.

Herra forseti. Um þetta má segja margt í viðbót. En ég tel fulla ástæðu til þess, herra forseti, að þessi till. fái vandlega skoðun í n. því að ég tel að hér sé hið merkasta mál á ferðinni.