25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að koma hér og segja fáein orð út af ummælum hæstv. iðnrh. um Alþb. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í það, en ég verð að segja eins og er að sjaldan hefur Alþb. fengið jafn ótvírætt siðferðisvottorð að mínu mati eins og það að núverandi hæstv. iðnrh. treysti ekki Alþb. í þessu álmáli. Það er til marks um það að þar er eitt og annað óhreint sem hann kærir sig ekki um að þessi stjórnmálaflokkur komist að og fái að sjá. Hæstv. iðnrh. orðaði það þannig fyrir einu og hálfu ári að þegar Hjörleifi Guttormssyni hefði verið hent út úr iðnrn. þá mundi orkuverð óðar hækka mjög verulega, það lægi á lausu. Þegar hæstv. iðnrh. hafði verið um skeið í iðnrn. þá lýsti hann því yfir að þeir álhringsmenn væru staðir eins og kunnugt er. Sex eða átta mánuðum seinna lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að þeir álversmenn væru óttalegur þungaiðnaður, eins og hann orðaði það orðrétt. Núna hefur hann fundið nýja samlíkingu úr hrossabúskapnum. Nú eru þeir orðnir framstyggir, eins og heyrðist hér áðan. (Gripið fram í: Hausstyggir.) Hann sagði reyndar höfuðstyggir, sem oft er kallað framstyggir. Þetta er ákaflega fróðleg lýsing á reynslu hæstv. iðnrh. af þessum auðhring.

Árangur í þessu máli sem hugsanlega næst er til orðinn vegna þess að Alþb. og Hjörleifur Guttormsson flettu ofan af vinnubrögðum þessa auðfélags þrátt fyrir Sverri Hermannsson og afstöðu hans. Hitt óttast ég engu að síður að þeir Alusuisse-menn muni, þegar upp verður staðið, hlæja með öllum trantinum, með leyfi hæstv. forseta.