28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3978 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

392. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Helgi Seljan:

Herra forseti. Mér þótti miklu miður að heyra ekki alla ræðu hv. þm. því að svo sannarlega var það sem ég heyrði af henni í senn skemmtilega hressilegt og þar kveður við nokkuð annan tón en oft heyrist hér í þessum sal um leið og hún varpaði fram mörgum áhugaverðum spurningum og hafði að geyma margar alvarlegar ábendingar settar fram á þann hátt að ekki er unnt annað en taka eftir því. Ég skal ekki hafa um það mörg orð enda kannske ekki viðurkvæmilegt. En þegar hv. þm. er að kveðja okkur núna og hv. aðalþingmaður kemur í staðinn verður maður að segja sína skoðun á því að mikil og góð eru skiptin á þessum ágæta varamanni og aðalmanninum þó að ég dragi ekkert úr því að þar er maður vaskur á ferð og ágætur í málflutningi öllum, en ekki síður því hversu samviskusamlega þessi hv. þm. hefur fylgst með því sem aðrir hafa að segja hér í þingsalnum. Það er meira en hægt er að segja um suma. En um það er nú rétt að hafa ekki fleiri orð hér. En ég þakka fyrir þetta innlegg og eins önnur innlegg þessa hv. þm. hér í umræður og málatilbúnað sem hefur verið með ágætum.

Vissulega er vandi að taka á því máli sem hv. þm. flutti hér, taka á þeim fjölmörgu réttindaþáttum sem snerta þá sem heima vinna að mestu eða öllu leyti. Það er rétt að ekki er deilt um þjóðhagslegt gildi þeirra starfa sem unnin eru á heimilinu, ekki heldur uppeldislegt gildi þeirra og hið siðræna gildi ekki hvað síst sem felst í því uppeldislega hlutverki sem þar er innt af hendi. Ég geri sem sagt ekki lítið úr því og hef margoft bent á það á undanförnum árum síðan ég kom hér inn á þing og þarf því ekki að vera að endurtaka það hversu fá og fátækleg þau réttindi eru sem fylgja þessum störfum. Er síst oftalið í þeirri upptalningu sem er reyndar upp á níu liði í grg. þessarar till.

Þar er um mismunandi vægi að ræða í áherslum og einnig í því hversu auðvelt er úr að bæta. Ég segi það vegna þess að hv. þm. nefndi 6. liðinn alveg sérstaklega, rétt til sjúkradagpeninga. Það er kannske einfaldast af þessu öllu og það vegur ekki þungt fyrir kerfið. Ég hef flutt um þetta frv. í Ed. Alþingis og það mun reyna á það hvort það nær fram að ganga. Ég hef hreyft á undanförnum árum fleiri málum um slík réttindi öðrum en sjúkradagpeningamálunum. En ég veit að kerfið er mjög þungt í þessu efni.

Ég er búinn að sjá þá grg. sem komin er frá kerfinu um þetta litla frv. um sjúkradagpeninga. Það er vitanlega sagt að ef eigi að fara að hreyfa við sjúkradagpeningum heimavinnandi húsmæðra þurfi að skoða sjúkradagpeningakerfið allt frá grunni. Síðan fylgir heilt lögfræðilegt álit upp á nokkrar síður til heilbr.- og trn. Ed. sem á að sanna að nú sé best að láta þetta bíða eftir hinni margfrægu heildarendurskoðun tryggingalaganna sem við erum búin að bíða eftir líklega síðustu tíu árin.

Þannig væri í raun og veru hvert tryggingamál afgreitt og hefði lítið þokast í þeim málum ef menn hefðu ekki tekið fram fyrir hendurnar á þeim sem þar um fjalla og eiga vitanlega, hvort sem það eru ráðherrar eða þingmenn, að taka hér fram fyrir hendurnar á þeim sem eru að vinna að þessari margfrægu endurskoðun sem ég dreg ekkert úr að þörf sé á að gera ef hún bara tekur ekki þann eilífðartíma sem við höfum horft upp á. En hún tekur auðvitað til fjölmargra þátta.

Vissulega er einnig hreyfing víða og vaxandi varðandi mat á starfsreynslu í öðrum störfum, t. d. hjá bæjarfélögum og ber vissulega að fagna því. Hið opinbera ætti þar einnig að láta til sín taka svo sem það hefur nú gert á vissan máta. Þar er einnig viðhorfsbreyting sem ber að fagna. Hv. þm. minntist á till. varðandi það mál og önnur skyld hér á þinginu sem eftir er að láfa reyna á hvort nái fram að ganga.

Fæðingarorlofið hefur borið á góma áður á þessu þingi. Skal ég þess vegna ekki orðlengja neitt um það. Ég hef sagt það áður að það mál er mál áfangasigra. Við höfum eflaust farið of rólega og hægt í það mál. Mismunun er þar enn þá of mikil. En engu að síður hefur þar orðið á breyting til batnaðar á síðustu árum, mikilvægt skref verið tekið í réttlætisátt, þó enn lengra þurfi að ganga og menn þurft að gera enn þá betur.

Ég vil ekki lengja þessar umræður nú, aðeins lýsa yfir stuðningi við meginhugsun þeirrar till. sem hér er til umfjöllunar og geri það ekki aðeins sjálfur heldur einnig fyrir hönd míns þingflokks.