28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3980 í B-deild Alþingistíðinda. (3309)

392. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns um málflutning 1. fim. þessarar till. Það má alveg koma hér fram að ég legg mig heldur fram um að hlusta á ræður varaþingmanna hérna. Reynslan er sú að þær eru yfirleitt mjög vandaðar og vel fluttar. Með því er ég ekki að segja að aðalþingmenn flytji óvandaðar ræður. Þær eru oft og tíðum vandaðar og ágætar. En því miður er oft hálfgerð tímaeyðsla að hlusta á þær.

Ég vil einnig taka undir meginefni þessarar till. og lýsa fylgi Kvennalistans við hana og þykir sjálfsagt engum mikið. Ég get nú ekki meint annað en hún fái góðan og skjótan framgang hérna. Hv. alþm. er varla stætt á öðru eftir margvíslegar hástemmdar yfirlýsingar um hornstein þjóðfélagsins og mikilvægi húsmóðurstarfsins. Að vísu liggja flest þessi atriði nokkuð ljóst fyrir, þ. e. í hverju réttindaleysi heimavinnandi er fólgið, eins og kemur raunar fram hér í tiltölulega hófsamlegri grg. með till. Ætti því sá hluti starfsins ekki að þurfa að kosta nm. mikla vinnu og tímaeyðslu. En sannarlega er gagnlegt að hafa öll þau atriði sem hér um ræðir og upplýsingar á einum stað. slík úttekt og heildarskýrsla um ástandið í þessum málum yrði áreiðanlega til þess að ýta við mönnum og vekja til umhugsunar.

Ég get sannarlega lofað stuðningi Kvennalistans við að láta þá skýrslu hvorki gleymast né týnast eins og skýrsluna sem nefnd var hér í dag og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson minnti á. Og ég vona að þessi skýrsla eða úttekt geti orðið tilefni einhverra athafna. Það er nú þetta með athafnirnar. Það gæti orðið nefndinni eitthvað tafsamara að vinna að tillögum til úrbóta og hefur hún þó úr ýmsu að moða.

Ég get ekki stillt mig um að minna í þeim efnum á tillögur Kvennalistans til úrbóta í þeim vandamálum sem vikið er að í liðum 7 og 8 í grg. Hvað 7. liðinn snertir liggur till. frá okkur til þál. nú fyrir nefnd þess efnis að heimilisstörf verði metin til starfsreynslu á vinnumarkaði. Og hvað 8. liðinn varðar þá höfum við flutt frv. um lengingu fæðingarorlofsins og um það einmitt að heimavinnandi sitji við sama borð og útivinnandi í þessum efnum. Og allt annað, sem hér er minnst á, er okkur kappsmál að breyta til betri vegar.

Ég vil sérstaklega taka undir það sem kemur fram í niðurlagsorðum grg. þar sem rætt er um menntunarmál og atvinnumöguleika kvenna og þá staðreynd hversu takmarkaða möguleika þær hafa þegar þær leita út á vinnumarkaðinn eftir lengri eða skemmri tíma við heimilisstörf eingöngu. Það hefur lengi hlutskipti velflestra kvenna að vera ætlað að vinna ólaunuð störf og njóta þess svo í engu þegar þær leita út á vinnumarkaðinn að hafa verið treyst til að reka heimili í lengri eða skemmri tíma með allri þeirri ábyrgð sem því fylgir. Sú hryggilega og í hæsta máta ósanngjarna staðreynd blasir við að þau störf sem kölluð eru dæmigerð kvennastörf eru lítilsvirt og lítilsmetin til launa. Og er nú kannske litlu við að bæta þann ágæta málflutning sem hér var áðan af hálfu 1. flm.

Flest störf sem eru beinar hliðstæður húsmóðurstarfanna eru hraksmánarlega launuð, nema kannske nokkur þar sem karlmenn hafa orðið í meiri hluta. Sjálfsagt má með nokkrum rétti halda því fram að konur geti að talsverðu leyti kennt sjálfum sér um, þær hafi ekki sótt sín mál fast, enda lúta umhverfisáhrif og uppeldi að því helst að innræta konum þá eiginleika sem síst duga til baráttu fyrir bættum kjörum, þ. e. hógværð; lítilþægni, tillitssemi og fórnfýsi, að ekki sé nú minnst á tilskipunina góðu um að konur skuli þegja í samkunduhúsum.

Herra forseti. Ég endurtek yfirlýsingu um stuðning Kvennalistans við þessa till. Það er í rauninni aðeins eitt sem ég held að sé óframkvæmanlegt, sem hér er lagt til, og það er að meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfanna. Þjóðhagslegt gildi heimilisstarfanna er að minni hyggju ómetanlegt.