24.10.1984
Sameinað þing: 0. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

35. mál, byggðastefna

Svar forsætisráðherra við fyrirspurn Stefáns Benediktssonar um meðferð þingsályktunartillögu um byggðastefnu, á þskj. 35, afhent þm. 24. okt. Fyrirspurnin hljóðar svo:

„Hvaða meðferð hefur tillaga til þingsályktunar um gerð frumvarps um framkvæmd byggðastefnu, sem vísað var til ríkisstjórnarinnar 12. apríl s.l., sætt?“

Svar:

Í nefndaráliti atvinnumálanefndar sameinaðs þings um ofangreinda tillögu segir: „Með bréfi dags. 18. ágúst 1983 skipaði forsætisráðherra nefnd til að endurskoða lög um Framkvæmdastofnun ríkisins. Sú nefnd hefur verið að störfum og mun að sögn formanns nefndarinnar skila tillögum til ríkisstjórnarinnar innan skamms. Skiptar skoðanir voru um efni þingsályktunartillögunnar innan atvinnumálanefndar, en rétt þykir að efni hennar komi til athugunar í sambandi við tillögugerð ríkisstjórnarinnar um mál þetta. Nefndin leggur því til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Nefnd sú sem forsætisráðherra skipaði til að endurskoða lög um Framkvæmdastofnun ríkisins skilaði álitsgerð hinn 30. apríl 1984. Þar segir um Byggðasjóð:

„1. Byggðasjóður starfi áfram og stjórn hans verði skipuð 7 mönnum kosnum hlutfallskosningu að afstöðnum almennum þingkosningum. Stjórnin ráði forstjóra. Nefndin telur að stöðu forstjóra eigi ekki að gegna alþingismenn, enda þótt ekki sé gerð tillaga um að ákvæði þess efnis séu sett í lög.

2. Orðalag 28. gr. verði þannig breytt að í stað orðanna „með hliðsjón af byggðaáætlunum“ komi: með hliðsjón af áætlunum.

3. Tilgangi Byggðasjóðs verði náð með því að hann láni með betri kjörum en almennt gerist á lánamarkaði, þ.e. með lægri vöxtum og til lengri tíma, enda séu þau lán bundin því að lánið sé samkv. samþykktum áætlunum eða verið sé að forða almennu neyðarástandi í atvinnu- og byggðamálum.

4. Byggðasjóði sé einungis heimilt að veita óafturkræf framlög til rannsókna og tilrauna í atvinnumálum.

5. Byggðasjóður láni ekki sjálfvirk lán.“ Stjórnarflokkarnir gerðu með sér samkomulag um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og um breytingar á stjórnkerfi. Var það birt hinn 6. september 1984. Í þeim kafla samkomulagsins, sem fjallar um nýsköpun í atvinnulífi og uppstokkun sjóðakerfis, segir m.a.:

„Sett verði á fót sjálfstæð og öflug byggðastofnun, sem stuðli að jafnvægi í byggð landsins. Stofnað verði sérstakt fyrirtæki (þróunarfélag) ríkis, banka, almennings og aðila í atvinnurekstri til að greiða fyrir nýskipan í atvinnulífinu. Eignir ríkisins í þeim atvinnufyrirtækjum, sem henta þykir, verði sameinaðar í eignarhaldsfyrirtæki. Í samræmi við þetta verða gerðar tillögur um breytingar á lögum og verkefnum Framkvæmdastofnunar ríkisins.“

Skipuð hefur verið nefnd til þess m.a. að hafa yfirumsjón með undirbúningi þessa verkefnis og gerð nauðsynlegra lagafrumvarpa. Gert er ráð fyrir, að slíkt frumvarp — eða frumvörp — verði lagt fyrir þetta þing. Í nefndinni eiga sæti: Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, sem er formaður hennar, Friðrik Sophusson alþingismaður, Stefán Guðmundsson alþingismaður og Valur Valsson bankastjóri.