01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur gert ítarlega og skýra grein fyrir afstöðu minni hl. nefndarinnar til frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1985. Raunar eru það fulltrúar þriggja stjórnarandstöðuflokka sem standa að þessu nál. Í nefndinni var einnig áheyrnarfulltrúi frá BJ. Var honum boðið eins og venja er til að geta þess í nál. ef fjórði stjórnarandstöðuflokkurinn væri sammála hinum þremur sem formlega eiga sæti í nefndinni, en fulltrúi BJ kaus ekki að í nál. væri birt nein yfirlýsing um stuðning við það. Það er því ekkert ljóst um skoðanir BJ á þessu frv. til lánsfjárlaga eða hvort flokkurinn hefur yfirleitt nokkrar skoðanir á því máli því að það kom aldrei fram í nefndinni. (KolJ: Jú.) Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir getur sjálfsagt fengið orðið hér á eftir og lýst skoðunum síns flokks en í nefndinni komu engar skoðanir af hálfu BJ fram á þessu máli og ekki heldur í þessu nál.

Það er svo sem ástæða til að íhuga það við þessa umræðu um frv. til lánsfjárlaga, sem nú fer fram á fyrsta degi aprílmánaðar, 2. umr., hvort þau vinnubrögð sem viðhöfð eru og sú skipulagning vinnunnar sem á undan er gengin séu með þeim hætti sem æskilegast sé. Nú er langt síðan þetta frv. var fyrst sýnt hér á Alþingi og kom til 1. umr. Það var þá samdóma álit þeirra sem tóku þátt í umræðunni, a. m. k. af hálfu stjórnarandstöðu, að frv. værri gjörsamlega marklaust. Raunar var þá vitað að ýmsar tölur í því voru breyttar og höfðu breyst frá því að frv. var prentað og þangað til það var tekið til 1. umr.

Síðan hefur málið verið til umfjöllunar í nefnd undir ágætri forustu hv. 4. þm. Norðurl. v. sem ég tek undir að hefur tekið fullt tillit til óska og sjónarmiða stjórnarandstöðunnar við umfjöllun málsins. En því er ekki að leyna að mér sýnist nú að af hálfu ríkisstj. hafi hálfgerður hringlandaháttur einkennt alla málsmeðferðina. Nefndarmenn hafa fengið að velkjast í vafa um ýmis atriði og ekki fengið þar skýr svör. Það kom greinilega í ljós t. d. varðandi Sjóefnavinnsluna á Reykjanesi þegar ýmist var þar verið að leggja fram fé eða draga fé til baka. Ljóst var að uppi var ágreiningur meðal ráðherra um málið. Við fylgdumst raunar með því í blöðunum hvernig það mál gekk fram og lásum þar yfirlýsingar á báða bóga. Þetta er auðvitað spegilmynd af því ástandi sem ríkir í þessari ríkisstj., ekki aðeins milli ráðherra hinna tveggja flokka, heldur bara milli ráðherra sama flokks, Sjálfstfl. í þessu tilviki. Þetta kom afar skýrt og greinilega í ljós ekki einu sinni heldur oftar. Ég held að það sé brýn þörf á að endurskoða öll þau vinnubrögð, hæstv. fjmrh. sem viðhöfð eru í sambandi við lánsfjárlög. Ég held að það sé meira en orðið brýnt, það er orðið afar nauðsynlegt.

Hér hefur frsm. minni hl. að því vikið hvernig sá niðurskurður sem gert er ráð fyrir er blekkingar og sýndarmennska nema kannske einna helst að því er varðar Landsvirkjun og framlög til framkvæmda á hennar vegum, lántökur. En annað er sjónarspil og talnaleikur, marklaus en kannske ekkert óvenjulegur. Þegar t. d. er talað um að lækka erlendar lántökur einkaaðila úr 1836 millj. í 1500 millj. kr., þá liggur ekkert fyrir hvernig þessum niðurskurði eigi að fylgja eftir, hvernig hann eigi að framkvæma eða hvort yfirleitt séu nokkrar horfur til að hann muni eiga sér stað annars staðar en á þessu blaði sem við hv. þm. höfum fyrir augunum.

Hér kemur það líka greinilega fram að þegar núv. ríkisstj. kom til valda setti hún sér það mark og mið að langtímaskuldir íslensku þjóðarinnar færu ekki yfir 60% af þjóðarframleiðslu. Það er rétt að ítreka þær tölur sem fyrir liggja nú í þessum efnum. Í árslok 1983 var þetta hlutfall 60.6%, í árslok 1984 61.9% og í lok ársins 1985 áætlar Seðlabankinn að þetta hlutfall verði 63.9%, miðað við þau áform um erlendar lántökur sem nú eru uppi og miðað við 0.7% vöxt á þjóðarframleiðslu.

Einhvern tíma heyrðist hæstv. fjmrh. raunar í áheyrn alþjóðar og í fjölmiðlum og það kannske oftar en einu sinni tala um töluna 60% og hvað mundi gerast ef farið væri upp fyrir töluna 60%. En það hefur raunar ekkert gerst enda þótt sú tala sé komin langt upp fyrir 60%. Ríkisstj. hefur ekki frekar en í öðrum greinum efnahags- og fjármála tekist að standa við þetta markmið sem hún setti sér. Hún hefur þvert á móti hopað úr einu víginu í annað á eilífum flótta undan sjálfri sér.

Það gefur auga leið að brýnasta hagsmunamál okkar er að dregið sé úr erlendum lántökum og þær takmarkaðar við þau verkefni ein sem góðan arð gefa og eru brýn og óhjákvæmileg. Það er auðvitað ekkert við því að segja að tekin séu erlend lán. Það er ekkert við því að segja svo lengi sem þau lán fara til arðbærra framkvæmda. Þar hefur hins vegar orðið mikill misbrestur á. Um helmingur af langtímaskuldum okkar erlendum er bundinn í orkumannvirkjum og orkuframkvæmdum. Hvað er það mikil umframorka sem nú er til staðar í okkar orkukerfi sem rennur ónotuð til sjávar vegna þess að það er ekki markaður fyrir hana og af því að farið hefur verið of geyst í þessum efnum? Ætli það sé ekki svona allmyndarleg virkjun sem þar er til staðar nú þegar? Það má deila um það hvort á að kalla það stórvirkjun eða ekki, en ég geri ráð fyrir því að það þætti allmyndarleg virkjun.

Nú skal fúslega viðurkennt að það er ekki við þessa ríkisstj. eina að sakast í þessum efnum og kannske miklu heldur við þær ríkisstjórnir sem á undan gengu og þann ráðherra orkumála Alþb. sem hafði þessi mál í sínum höndum og á sinni könnu þá. Sú stefna sem Alþb. hefur beitt sér fyrir og fylgt í þessum efnum hefur auðvitað leitt til þess að íslenska þjóðin býr nú við lakari lífskjör en vera þyrfti, ef skynsamlegri stefnu hefði verið fylgt í orkumálum.

Það segir sig sjálft að þegar verið er að fjárfesta í orkumannvirkjum, virkjunum umfram það sem hinn almenni notendamarkaður þarf, þá skilar slíkt ekki arði nema til staðar séu strax í upphafi notendur, helst stórnotendur, til að nýta orkuna og breyta henni í verðmæti fyrir íslenska þjóð. Þess vegna telur minni hl. að það komi mjög svo til greina að draga enn frekar úr framkvæmdum á vegum Landsvirkjunar. Það er líka umhugsunar- og athugunarefni í sambandi við okkar erlendu skuldastöðu á hve löngum — eða á hve skömmum, ætti ég öllu heldur að segja, — tíma hin erlendu lán sem tekin hafa verið til virkjunarframkvæmdanna eru afskrifuð. Ég hygg að í mörgum tilvikum sé þar um lán að ræða, kannske er ekki rétt að kalla þau skammtímalán, sem eru til svona 8–10 ára. Þegar um er að ræða mannvirki eins og vatnsaflsvirkjanir, sem fullkomlega eðlilegt er við venjulegar kringumstæður að ætla að geti skilað orku og verðmætum í a. m. k. eina öld, er spurning hvort eðlilegt sé að fara svona að. Mér er það mætavel ljóst að menn fá ekki lán til svo langs tíma sem slík mannvirki endast, en ég held að það þurfi að hugsa þessa hluti svolítið upp á nýtt og skoða betur. Í þessu sambandi ætti líka að skoða þá verðstefnu sem fylgt er hér í orkumálum. Það er t. d. býsna hlálegt að þegar Rafmagnsveitur ríkisins þurfa að mæta notkunartoppum, þá skuli þær geta gert það með miklu ódýrari hætti og sparað sér milljónir með því að keyra dísilvélar frekar en kaupa orkuna af Landsvirkjun. Þetta er hlálegt. Á þessum vettvangi hefur verið gengið býsna hart fram og ekki hugsað um hagkvæmni sem skyldi.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að draga þessa umræðu mjög á langinn. Það er þegar búið að gera allítarlega grein fyrir sjónarmiðum minni hl. í þessum efnum, þeirra þriggja stjórnarandstöðuflokka sem standa að þessu nál. En margt er hér sem skortir skýringar á og sem hefur verið rætt ítarlega í nefndinni og ekki fengist nema mjög takmarkaðar, litlar, engar eða lauslegar skýringar á ýmsum þáttum. Má þar t. d. nefna svonefnd þróunarfélög eða Þróunarsjóð, þar sem ágreiningur virðist ríkja milli stjórnarflokkanna um það hvernig eigi að skipa þeim málum. Við höfum fengið hjá formanni nefndarinnar lauslegar upplýsingar um hvernig menn hafi hugsað sér að skipta þeim 500 millj. kr. sem Framkvæmdasjóði er ætlað að standa fyrir lántöku á til þessa þróunarfélags. Okkur er sagt að það liggi engar ákvarðanir fyrir um ráðstöfun þessa fjár, en lauslega skiptingu hefur borið á góma. Það væri fróðlegt ef hæstv. fjmrh. vildi upplýsa við þessa umræðu um lánsfjárlög í hvaða farveg þessi mál eru nú komin, hvort þarna verður um þróunarsjóð eða þróunarfélag að ræða og þar að auki hvernig ætlunin er að skipta þessum 500 millj.

Það var vikið hér áðan að Kvikmyndasjóði. Þar kom fram að hæstv. fjmrh. hefur lagt sjóðnum til aukafjárveitingu upp á 10 millj. kr. Þar sem það er persónulegt áhugamál mitt að staðið sé við þau fyrirheit sem gefin voru þegar lög um þann sjóð voru samþykkt, þá fagna ég auðvitað þessu. En misminnir mig það, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. hafi oftar en einu sinni lýst því yfir að með embættistöku hans í þetta virðulega embætti væru aukafjárveitingar af þessu tagi úr sögunni? Ég held að ég hafi heyrt eitthvað í þá veru.

En það hvernig staðið er að málum varðandi Kvikmyndasjóð leiðir hugann að þeirri tvöfeldni, þeirri lítt viðkunnanlegu tvöfeldni, vil ég segja, sem Alþingi og ríkisstj. gera sig ber að þegar samþykkt eru lög um ákveðið framlag til ákveðinna markmiða, í þessu tilfelli Kvikmyndasjóðs, í öðrum tilvikum t. d. Framkvæmdasjóðs fatlaðra og nefna mætti ýmsa fleiri sjóði af sama tagi. Þegar menn samþykkja hér af stórhug framlög til slíkra sjóða og allir fagna því, sem áhuga hafa á þeim málefnum, þá er nú ekki aldeilis að björninn sé þar með unninn, vegna þess að næsta ár samþykkir sami meiri hl. ríkisstj. og þingmeirihluti á Alþingi að taka það til baka sem gefið var í gær. Þetta höfum við hv. þm. horft upp á hér ár eftir ár. Þetta er engin nýlunda nú, ekkert nýmæli í þessum lánsfjárlögum, síður en svo. En hvað finnst hæstv. fjmrh. um slík vinnubrögð? Er ekki betra að láta það vera að auka framlögin til sjóða eins og Kvikmyndasjóðs og Framkvæmdasjóðs fatlaðra og þurfa ekki árið eftir að koma og segja: Nei, við meintum ekki það sem við sögðum í gær, við meinum allt annað í dag og ætlum að skerða þau framlög sem við ákváðum í fyrra? Mér finnst þetta niðurlægjandi vinnubrögð fyrir hv. þm. og Alþingi ekki til sóma. En þetta er svo sem ekki ný bóla.

Virðulegi forseti. Það atriði sem ég vildi síðast gera að umtalsefni hér er það í þessu frv. sem varðar Byggingarsjóð ríkisins. Hvernig því máli er nú komið er reginhneyksli. Og enn skal ég viðurkenna að þar er ekki um allt við hæstv. núv. ríkisstj. að sakast þó að hún hafi svo sem ekki bætt um. Þar eiga fyrri ríkisstjórnir vissulega sök, ekki síst sú sem sat næst á undan þessari og svipti Byggingarsjóð ríkisins tekjustofnum án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, allra síst þeim sem hér sitja, hvernig staðan í húsnæðislánakerfinu er, að fólk sé orðið eignalaust sem á ákveðnum tíma keypti sér einbýlishús, ég veit þess dæmi úti á landi, sem kostaði ekki mjög háa upphæð á þann mælikvarða sem slík hús eru mæld á hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar er líka að verki tvenns konar verðlag, tvöfeldni. Þannig háttaði til að útborgun var ekki mjög mikil. Skuldir voru töluverðar. Viðkomandi húseigendur hafa staðið í skilum með greiðslur fram til þessa. En það gæfi farið svo að stutt væri í það að skuldirnar hækkuðu svo mikið, og þyrftu reyndar ekki að hækka mjög mikið til þess, að enginn vegur væri til að endursöluverð hússins samsvaraði því sem skuldirnar hafa hækkað. Þetta er ekkert einsdæmi. Það geta áreiðanlega allir hv. þm. nefnt dæmi um fólk sem hefur næstum því tapað aleigu sinni vegna þeirrar stefnu sem fylgt er nú í þessum málum, þeirrar glötunarstefnu, þeirrar gjaldþrotastefnu heimilanna sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Undirstaða kerfisins er hrunin. Þetta kerfi er orðið ónýtt. Og það er alveg rétt sem ég hef heyrt og haft hefur verið eftir áhrifamönnum úr röðum Sjálfstfl. að það er kominn tími til að hæstv. húsnæðismálaráðherra og félmrh. hætti að rugla og fari að gera eitthvað.

Þetta var haft eftir hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni og meira að segja látið ganga á þrykk út í Morgunblaðinu fyrir allnokkru að kominn væri tími til að þessu linnti og eitthvað annað tæki við. Ég get út af fyrir sig alveg tekið undir það. Þetta kerfi, sem á að standa undir tekjuöflun, sem á að standa undir lánakerfi húsnæðismála, er hrunið. Það er orðið ónýtt þegar tekjustofnarnir eru orðnir útgjaldaliðir eins og skyldusparnaðurinn og fleira. Það bendir ýmislegt til þess að staðan gagnvart lífeyrissjóðunum geti hugsanlega orðið neikvæð á þessu ári. Það gæti farið svo. Þetta eru alvarlegir hlutir. Og það sem er kannske alvarlegast í þessu efni er að almenningur hefur misst trúna á þetta kerfi. Dráttur á útborgun lána, eilífar bráðabirgðalausnir og svikin fyrirheit aftur og aftur. Þessi sletta sem vikið var að fólki núna, þeim sem eru í mestri neyð, er engin björgun. Eins og segir í þessu nál. er það bara gálgafrestur. Það verður að taka á meininu. Menn verða að viðurkenna að leiðir til úrbóta í húsnæðislánakerfinu hljóta að byggjast á aukinni skattheimtu í einhverri mynd. Ég held að það sé ekki hægt að komast fram hjá þeirri staðreynd að einhverjir verða að leggja af mörkum til þess að endurreisa það kerfi sem hrunið er.

Við Alþfl.-menn höfum bent á leiðir. Við höfum bent á tímabundinn eignarskattsauka á stóreignir. Okkur er auðvitað ljóst að þó að slíkt væri samþykkt nú mundi það ekki byrja að skila neinum tekjum fyrr en kannske á miðju næsta ári. Þess vegna verður að grípa til fljótvirkari ráðstafana til að bjarga því sem bjargað verður í þessum efnum. Við erum með tillögur um það og þær munu sjá dagsins ljós hér á hinu háa Alþingi áður en langt um líður. Ég skal ekki tefja þessa umræðu með því að rekja þær í smáatriðum enda þótt þær liggi nú fyrir að mestu. En ég lýsi fullri ábyrgð á hendur þessari ríkisstj. og þeirri sem næst sat á undan og raunar mætti fara lengra aftur í tímann vegna þess hvernig nú er komið.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég geri mér alveg ljóst að það verður að samþykkja lánsfjárlög eins og nú er í pottinn búið. Við Alþfl.-menn erum mótfallnir aukningu erlendra skulda, teljum að þar hafi verið gengið allt of langt. Hins vegar verður þetta frv. að hafa sinn gang og ná fram að ganga. Það er okkur ljóst að er nauðsynlegt af ýmsum ástæðum. Við munum því sitja hjá við afgreiðslu málsins í þessari hv. deild.