01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3999 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu neitt að marki því að formaður fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Norðurl. v., hefur gert grein fyrir sjónarmiðum meiri hl. nefndarinnar hvað varðar afgreiðslu málsins. Hef ég ekki miklu við það að bæta, en vil samt koma að örfáum atriðum og undirstrika mín sjónarmið í þeim.

Eins og fram hefur komið mótast afgreiðsla lánsfjáráætlunar að þessu sinni af þeim áformum stjórnvalda að draga úr erlendum lántökum á þessu ári. Það hefur ekki verið um það deilt við þessa umræðu að erlendar skuldir þjóðarbúsins eru eitt mesta efnahagsvandamál þjóðarinnar um þessar mundir og að það er brýnt verkefni að draga úr erlendum lánum. Það fer að nálgast það að við þurfum að verja til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum í kr. af hverjum 4 kr. útflutningstekna okkar. Hér þarf að spyrna við fótum. Og það þarf að beina erlendum lántökum í þann farveg að þær verði til að byggja upp arðbært atvinnulíf ílandinu, auka útflutningstekjurnar og þjóðarframleiðsluna. Ég vildi aðeins víkja að því atriði áætlunarinnar sem miðar að þessu sérstaklega.

Áform eru um að taka 500 millj. kr. að láni til svokallaðs þróunarfélags, sem er að vísu ekki orðið til enn þá en að því hefur verið vikið hér í umræðum. Áætlunin gerir ráð fyrir að þessi heimild til lántöku sé flutt yfir á Framkvæmdasjóð vegna þess að Alþingi hefur ekki fengið til umfjöllunar enn þá frv. um þessa breytingu og því vantar lögformlegan aðila til að taka lánið.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. orðaði það svo hér áðan að þróunarfélagið hefði gufað upp eða þróunarsjóður og að mikið ósamkomulag væri í herbúðum stjórnarflokkanna um þessi mál. Það er um þetta að segja að hér er um mjög viðamiklar breytingar að ræða bæði á Framkvæmdastofnun ríkisins og sjóðakerfinu. Þessi vinna hefur verið í gangi og það hefur verið unnið að þessu máli í herbúðum stjórnarflokkanna og frv. um þessa breytingu munu sjá dagsins ljós alveg á næstunni. Það er vonandi að Alþingi láti þá hendur standa fram úr ermum og afgreiði þessa afgerandi breytingu.

Þessi lántaka er eitt veigamesta atriði lánsfjárlaga og ef vel tekst til gæti endurskipulagning sjóðakerfisins og þær breytingar sem hér um ræðir markað tímamót í uppbyggingu atvinnulífsins í landinu og aukið okkar þjóðartekjur, því að hlutfall erlendra lána af þjóðartekjum mótast náttúrlega af því hvað þær eru miklar.

Ég vil þá aðeins víkja að orkumálunum. Gert er ráð fyrir því í þessari áætlun að draga verulega úr lántökum til orkumála á næstunni enda er nú um að ræða, eins og fram hefur komið, verulega umframgetu í orkukerfinu. Það kann að vera rétt að farið hafi verið geyst í orkumálum á undanförnum árum og allar framkvæmdir í þessum málaflokki hafa verið fjármagnaðar með erlendum lánum. Það er gert ráð fyrir í áætluninni að draga verulega úr lántökum Landsvirkjunar, en þó ekki meira en svo að hægt verður að halda nokkurn veginn áætlun við Blönduvirkjun þannig að hún komi í gagnið 1988, eins og gert er ráð fyrir í verkáætlun sem nú liggur fyrir.

Það er rétt, sem fram hefur komið hér, að auðvitað verða að liggja fyrir fyrirframsamningar um orkusölu. Sú afgreiðsla sem hér um ræðir er gerð í þeirri von að það takist að ná viðunandi samningum í þeim málum. Hins vegar verður að undirstrika það að þetta er þó í fyrsta skiptið núna um nokkurra ára skeið sem spyrnt hefur verið við fótum í þessu efni enda er ekki um það deilt að hér hafi verið um rétt skref að ræða. Reynt hefur verið við afgreiðslu þessarar áætlunar að draga úr erlendum lántökum en líta jafnframt með nokkru raunsæi á fjárþörfina á yfirstandandi ári. Veigamestu breytingarnar sem gerðar hafa verið á áætluninni eru þær sem ég hef lítillega komið inn á, í orkumálum. Einnig hefur verið hækkuð verulega heimild Byggingarsjóðs ríkisins til erlendrar lántöku. Það er gert vegna þess að ætla má að innlend lántaka hans. standist ekki eins og gert var ráð fyrir. Með þessum hætti ætti Byggingarsjóður ríkisins að geta staðið við sínar greiðslur á árinu skv. þeirri áætlun sem gerð var við afgreiðslu fjárlaga.

Ég vil drepa aðeins hér á skerðingarákvæðin í lánsfjárlögunum sem hafa verið nokkuð rædd hér. Það var hv. 5. landsk. þm. sem kom inn á það fyrst. Ég get alveg tekið undir það að þessi skerðingarákvæði eru kannske ekki til þess að auka veg okkar þm. í sambandi við lagasetningu. Auðvitað eru þessi skerðingarákvæði mjög óeðlileg og það mætti kannske verða til þess að við hugsuðum betur ráð okkar þegar við erum að samþykkja ýmsa lagasetningu sem hefur útgjöld í för með sér. Við erum kannske full bláeygir á stundum að samþykkja framlög, þó að segja megi að séu til ágætra mála, því að allt eru þetta nú mjög góð mál og ekki hægt að gera þar upp á milli. Ég held að slík skerðingarákvæði séu almennt séð mjög óæskileg en hjá þeim varð ekki komist og vil ég ekki draga þar neitt út úr. Það má t. d. segja að ákvæði um að skerða tekjur Ferðamálasjóðs sé ekki alveg í takt við þau áform að efla atvinnulífið í landinu, því að ferðamálin eru vaxandi atvinnugrein, það er vaxtarbroddur í þeirri atvinnugrein og vantar mikla uppbyggingu í henni. Ég nefni þetta eingöngu til þess að benda á að hér hefur orðið að skera niður í ýmsum góðum málum auk þeirra sem nefnd voru áðan sem ég vil taka undir að eru mjög þörf mál hvert um sig. En það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum.

Það hefur ekkert verið deilt um það hér að draga beri úr erlendum lántökum. En það kemur ekki fram í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. úr hverju skuli dregið. Þar segir aðeins að það komi að mati minni hl. mjög til greina að draga enn frekar úr framkvæmdum á vegum Landsvirkjunar. Þetta er í rauninni það eina sem fram kemur um hvernig skuli dregið úr erlendum lántökum enda þótt allir séu sammála um að úr þeim þurfi að draga.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu eins og ég sagði í upphafi enda búið að rekja álit meiri hl. fjh.- og viðskn. Ég vildi aðeins benda á þessi fáu atriði og vekja athygli á því að menn eru sammála um að draga úr erlendum lántökum án þess þó að hér hafi í rauninni komið neinar ábendingar um úr hverju skuli dregið öðru en því sem gert er ráð fyrir í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn.