01.04.1985
Neðri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4026 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

210. mál, selveiðar við Ísland

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hygg að því hafi fyrst verið hreyft á fjórðungsþingi Vestfirðinga að fækka þyrfti sel við Ísland. Ég hygg einnig að það hafi verið að frumkvæði þm. frá Vestfjörðum að það mál var flutt inn á Alþingi. Nú er það aftur á móti svo að miklu skiptir að sæmilega skynsamlega sé að því verki staðið. Allstór hópur Íslendinga hefur fengist við selveiðar og sameiginleg niðurstaða þeirra hefur verið sú að skotvopn séu ákaflega óheppileg ef menn ætla að ná einhverjum árangri í því að ná selnum. Þar kemur aðallega til að selurinn heldur sig gjarnan í hópum en sé farið að skjóta á hópinn tvístrast hann og hætt er við að þeir selir sem sleppa lífs verði mun varari um sig og það verði mun seinlegra eftir nokkur ár að ætla að stunda selveiðar með skotvopnum en það þó er nú meðan selurinn er lítt vanur því á stórum svæðum að eiga von á slíkum ófriði.

Það er athyglisvert að sá árangur, sem náðist 1982 fyrir tilstilli hringormanefndar, hefur verið sá að hér veiddust 4500 selir. Það er vitað að sel hafði fjölgað verulega frá 1977 til þess tíma. Fram að þeim tíma höfðu verið veiddir 6500 selir hvert ár að meðaltali frá 1964. Það blasir því við að ef menn eru að tala um að fækka þurfi selnum þá verða menn að fara yfir þá meðaltalsveiði sem átt hafði sér stað og fara yfir 6500 seli á ári. Ég hefði talið að ekki væri óeðlilegt, ef menn ætluðu að gera eitthvert átak, að reyna að komast í 7000 eða 8000 seli.

Ég taldi aftur á móti og tel enn að þeir aðilar, sem fengist hafa við selveiðarnar að mestu leyti til þessa, þyrftu að fást til að taka þátt í selveiðum með hefðbundnum hætti og það yrði svo að koma inn í það á öðrum svæðum þar sem það hefði legið niðri til að fylgja þessari veiði eftir. Þess vegna taldi ég og tel enn að það hefði verið heppilegra að selveiðarnar yrðu settar undir landbrn. en skal þó ekki gera það sérstaklega að deiluefni á þessu stigi málsins.

Hitt sýnist mér öllu meira gæfuleysi að hér hafa menn sett inn í 8. gr. ákvæði um að fella úr gildi lög frá 1925 um selaskot á Breiðafirði. Það vill svo til að jafnvel þó að þessi breyting væri gerð að nafninu til eru önnur lög í gildi um æðarvarp og þar segir að óheimilt sé frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert að skjóta nær æðarvarpi en í tveggja kílómetra fjarlægð. Hver landeigandi getur óskað eftir því að fá ákveðið landsvæði friðlýst sem varpsvæði. Breiðafjörðurinn er fullur af eyjum eins og allir vita. Þær eru þar mjög víða og mér er til efs að það sé nokkurt vit í því að hafa leyfi í gildi til að stunda skot á sel á Breiðafirði vitandi það að mjög margir munu þá viljandi eða óviljandi lenda í þeirri aðstöðu að skjóta sel í nágrenni við friðlýst æðarvarp.

Spurningin hlýtur þess vegna að vera sú hvort ekki sé skynsamlegra að reyna að tryggja það að hefðbundnar veiðar á sel við Breiðafjörð fari fram með þeim hætti sem verið hefur og þannig sé náð árangri í að halda selnum þar niðri. Ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með 8. gr. af þessari ástæðu því að mér finnst óeðlilegt að nema úr gildi lög sem eru skynsamleg, hafa sannað gildi sitt og setja svo í staðinn inn þessa heimild í 6. gr. Í skýringum við hinar ýmsu greinar frv. segir svo um 8. gr.:

„Í þessari grein eru felld niður nokkur lagaákvæði sem að öðrum kosti væru ekki í samræmi við heildarlöggjöfina. Sé talin þörf á þeim ákvæðum sem lög þessi geyma fer best á því að gefnar yrðu út reglugerðir sama efnis með stoð í þessum lögum.“

Ég er ekki sammála þessu. Mér finnst að það sé ekkert sem mæli með því að taka þann kost sem verri er, að ætla að menn geti náð árangri á Breiðafirði með að vinna á selnum með því að leyfa þar meðferð skotvopna vitandi það að lögin um æðarvörp munu koma í veg fyrir það að hægt sé að stunda veiðarnar með skotvopnum á mjög stórum svæðum. Það eina sem mundi vinnast með þessum vinnubrögðum væri það að selurinn yrði miklu styggari og miklu verra væri þess vegna að veiða hann á eftir með hefðbundnum hætti.

Ég vil sérstaklega undirstrika það að ég tel að það þurfi að standa þannig að þessari lagasetningu að hinir hefðbundnu aðilar, sem hafa þrátt fyrir allt á sínum tíma náð þeim árangri að veiða hér 6500 seli á ári, verði virtir þess, að hafa þá með í þeim áætlunum sem gera á því að þar liggur mest þekkingin á selveiðum. Það er miklu heppilegra að ná selnum með þeim vinnubrögðum sem þeir hafa notað en að ætla að tvístra honum með því að nota á hann skotvopn og ætla svo að fara að elta hann uppi þegar búið er að gera hann styggan.

Ég vil taka undir það sem sagt hefur verið að okkur er mikil nauðsyn að fækka sel við Ísland. En ég held að það sé ekki skynsamlegt að fara svo greitt í lagasetningu að menn fari að nema úr gildi lög sem voru sett — og taki menn nú vel eftir — til að auðvelda selveiðar við landið. Lögin frá 1925 eru sett til að auðvelda selveiðar á Breiðafirði, til að hægt sé að standa að þeim á jafnskynsamlegan hátt og menn töldu að hægt væri. Þess vegna finnst mér ekki skynsamlegt að fella þau úr gildi.

Mér er ljóst aftur á móti að það þarf að sjá til þess að þessar veiðar eigi sér stað með þeim hefðbundna hætti sem verið hefur. Það er spurning hvað veiðimennirnir þurfa að fá fyrir til þess að hægt sé að standa þannig að þessu. Nú er kominn markaður fyrir selinn, m. a. í loðdýrafóður, og það ætti að auðvelda þetta. Það er líka mikil spurning hvort við eigum ekki að geyma eitthvað af selskinnum vitandi það að þeir tímar munu koma að skinnin hækka aftur í verði. Það eru engin rök sem mæla með því að selskinn muni um ókomin ár, vegna kannske einnar kvikmyndastjörnu, verða óseljanleg vara á sama tíma og skinn almennt af veiðidýrum eru í háu verði.

Ég vænti þess að menn hugleiði það hvort þeir treysti sér ekki til þess að fella 8. gr. úr frv. eða í það minnsta það ákvæði hennar sem ég tel tvímælalaust að muni skapa miklar deilur við Breiðafjörð og á Breiðafirði og stuðla að því að verra verði að veiða þar sel en verið hefur, árangurinn verði minni.