02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (3348)

401. mál, orkuverð til Járnblendifélagsins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Um þetta mál má að vísu margt segja. Og þá má fyrst spyrja sem svo: Hverju reiddust goðin í Alþb. þegar ákvörðun var tekin á sínum tíma um það orkuverð sem gildir enn í dag til Járnblendiverksmiðjunnar? Enn í dag fyrir utan það að nú á þó Landsvirkjun mikla hagnaðarvon vegna þeirra ákvæða sem tekin voru inn í viðaukasamning sem gerður var við orkusamning við fyrirtækið nú á liðnu hausti. Ég veit að fyrirrennari minn hlýtur alveg sérstaklega að fagna þessari umræðu og blanda sér í hana því að hann á erindi við hinn sóknharða fyrirspyrjanda, hv. varaþm. Ólaf Ragnar, hann á erindi við hann. Og ég tók með mér til upprifjunar fyrirsögn sem var búin til af hv. þm. Reykv., varaþm. Ólafi Ragnari Grímssyni nú í vetur er leið.

Þar segir hv. fyrirspyrjandi: „Milljarðar út í bláinn. 4–41/2 milljarða umframfjárfesting í orkuveitum Landsvirkjunar. Samsvarar 10% af öllum erlendum skuldum þjóðarinnar. Vaxtakostnaður um 500 millj. á ári, hækkar orkuverðið um 40%“, allt búið til og niðurskrifað af hv. fyrirspyrjanda. Og nú þykist ég vita að fyrirrennari minn, sem á allar þessar upphrópanir svo til einn og sjálfur, hlýtur að snúast vasklega til varnar. Það er ekki langt síðan að þeir hv. fyrirspyrjandi, varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson, og fyrirrennari minn, hv. 5. þm. Austurl., höfðu alla forustu í þessu máli, annar sem afgreiðslustjóri á hinu háa Alþingi til handa framkvæmdavaldsmanninum hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, á Alþingi þar sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson réði einna mestu um afgreiðslu mála sem formaður þingflokks Alþb. Þá var haldið þann veg á málum sem hér er frá skýrt með stríðsfyrirsagnaletri Þjóðviljans.

Þessi fsp. nú um afkomu Járnblendifélagsins á meira erindi en aðeins að fá beinar upplýsingar um staðreyndir málsins, vegna þess að þær blasa við. Hún er enn á ný, af hvaða orsökum sem það svo er, bein árás og ögrun við hv. 5. þm. Austurl., fyrirrennara minn, orkuráðherra Hjörleif Guttormsson. Og nú bíðum við og sjáum hvað setur, hvernig hann grípur til vopna gegn þessum margítrekuðu og endurteknu árásum ritstjóra eða skriffinns Þjóðviljans, hv. fyrirspyrjanda Ólafs Ragnars Grímssonar. En þótt svo stæði á fyrir Járnblendifélaginu á sínum tíma að stórfelldur halli væri á rekstri þess, þá þótti þessum yfirmönnum og stjórnendum engin ástæða til þess að taka málið til yfirvegunar og umræðu allan þann tíma.

Ég vil upplýsa að þær greiðslur sem hafa verið inntar af hendi fyrir raforku á tveimur síðustu árum á föstu sama verðlagi eru 16 millj. kr. hærri en allt tímabilið á undan. Hverju reiddust goðin þegar þeir bjuggu við þetta orkuverð sem nú er svo stórlega gagnrýnivert? Það verður að svara því. Það þarf að svara því alveg sérstaklega vegna þess að hjá Járnblendifélaginu stendur þann veg á nú að það hefur verið reist við. Reist við þannig að í fyrsta skipti skilar það verulegum arði. Auðvitað hefur orkuverðið afgerandi áhrif í þeirri afkomu. Hverjum dettur annað í hug? Það þarf engan sérstakan reiknimeistara til að segja fyrir um það að ef orkuverðið hefði verið hærra hefði afkoma félagsins verið lélegri, þá hefði ágóðinn verið minni. En ætli það sé ekki nokkuð mikil einföldun á dæminu að leggja það þannig fyrir að það sé almenningur sem borgar brúsann? Við skulum þá nefna fleiri atriði þar sem almenningur hefur verið látinn borga brúsann fyrir ráðdeild –eða með öðrum orðum og réttari óráðsíu Alþb. sem hafði stjórn þessara mála með höndum í nærfellt fimm ár. Það má til að mynda rifja það upp að þá stjórnuðu þeir einhendis þessum málum, afgreiðslustjórinn í Alþingi, formaður þingflokks Alþb., og framkvæmdastjórinn í málunum, þegar þeir ráku Landsvirkjun með 152 millj. kr. halla á árinu 1982 á verðlagi þess árs. Það þarf að snúa því yfir á verðlag þessa árs sem við lifum nú. Það voru þessir menn sem í skjóli einkavalds, sem þeir höfðu tekið sér í verðmyndunarmálum raforkunnar, sem stjórnuðu þar til á fyrri hluta árs 1983. Það stefndi í 400 millj. kr. halla hjá Landsvirkjun. Það er alveg nauðsynlegt að rifja þetta upp fyrir hv. fyrirspyrjanda, varaþm. Ólafi Ragnari Grímssyni, af því sem hann er kominn í stjórn þessa fyrirtækis, sem svo grálega var leikið af þeim mönnum sem þóttust vera að stjórna þessum málum á sinni tíð.

En Járnblendifélaginu hefur orðið á það sem ekki má nefna í herbúðum Alþb. Ég segi ekki að það sé glæpur eftir þeirra kokkabókum, en það jaðrar við glæp. Það er þessi staðreynd að fyrirtækið skuli hafa skilað ágóða, það hefur grætt. Slíkt má ekki heyrast nefnt í kokkabókum þessara herra. Og þess vegna hefst undiraldan og ókyrrleikinn í þeirra röðum. Það má til með að afflytja þetta með einhverjum hætti.

Þannig stendur á að það tókust nýir samningar um þennan félagsskap sem undirritaðir voru í Osló 13. september s. l. Samningar þar sem Elkem í Noregi seldi Sumitomo fyrirtækjasamsteypunni í Japan 15% af hlutafé sínu. Og með því var tryggður markaðurinn. Auðvitað liggur það alveg ljóst fyrir og er ekki ný uppgötvun hjá hv. fyrirspyrjanda að hið lága orkuverð hefur haft úrslitaáhrif á aðild Sumitomo. En við tryggðum markaðinn í sama máta.

Allan tímann fram til ársins í ár var þessi verksmiðja rekin kannske á hálfum afköstum og minna en það með stórfelldu tapi. En með þessum nýju samningum og með því að félagið var reist við, viðreisn þess í öllum atriðum efnahagslega fór fram, þá skilar það þessum árangri sem nú ber raun vitni um. Og meira en það að verksmiðjan gangi á meira en hálfum afköstum. Hún gengur á töluvert meiri afköstum en nokkurn tíma var gert ráð fyrir að þessi verksmiðja annaði, eða 63 þús. tonnum, en hún var gefin upp fyrir 55 til 60 þús. tonn sem þeir bjartsýnustu höfðu á orði. Og þetta hefur náðst fyrir frábæra verkkunnáttu, fyrir frábæra stjórn í þessu fyrirtæki, fyrir það að þarna hafa stjórnendur sem launþegar tekið höndum saman um reksturinn með þessari glæsilegu niðurstöðu.

Og það henti að ákveðið var að bæta starfsfólkinu sérstaklega upp vegna þessarar góðu afkomu. Það er auðvitað af hinu vonda líka. Það er auðvitað af hinu vonda líka að vinnuveitendur nálgist launþegana með þeim hætti að góður andi ríki á vinnustað. Það er auðvitað ekki af hinu góða. Það er ekki eftir kokkabókum Alþb. sem vill hafa óeirðir og stríð á vinnustöðunum. Ég sé að hv. fyrirrennari minn gerist nú ókyrr í sæti sínu. Ég vænti þess sérstaklega að hann eigi líka erindi við fyrirspyrjandann vegna fyrirsagnanna og vegna innihaldsins sem hér getur á að líta.

Fsp. hv. þm. svara ég þannig að ég er ekki reiðubúinn til þess að hefja eins og sakir standa nýja samningalotu vegna Járnblendifélagsins. Ég undirritaði nýja samninga vegna þessa félagsskapar 13. september s. l. Er hv. þm. kannske að spyrja um það hvort ég ætli að rifta nýgerðum samningum, hvort ég ætli að svíkja nýgerða samninga? Liggur það í þessari fsp.? Og af hvaða rótum eru þá slíkar hugrenningar runnar? Ég ætla ekki að gera það. Auðvitað þyrftum við að fá verulega hærra orkuverð. En ég minni á að við eigum þó 55% í þessu félagi. Og ég vil hér beinlínis, af því sem um þetta er spurt, upplýsa þau skilyrði sem fullnægja þarf til þess að Landsvirkjun eigi von í verulegum ágóðahlut eða í verulega hærra orkuverði heldur en virkjunin býr nú við. Ég vitna, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt í plögg mín:

„Til þess að Landsvirkjun fái greiddan hlut í ágóða Járnblendifélagsins þarf að fullnægja tveimur skilyrðum áður. Annars vegar þarf eiginfjárstaða Járnblendifélagsins að batna þannig að hlutfall skulda gagnvart eigin fé sé 60 á móti 40, eða að eiginfjárstaða Járnblendifélagsins hafi náð 40% af heildareignum.

Hins vegar eru ákvæði um að hreinn hagnaður Járnblendifélagsins fyrir skatta verði að ná hið minnsta 14% af samanlögðu hlutafé Járnblendifélagsins áður en til ágóðaskiptingar kemur. Þessi upphæð hefur verið reiknuð út og er nú 52.9 millj. nkr. á ári sem ekki koma til ágóðaskiptingar. Allur hagnaður umfram ofangreinda upphæð mun skiptast í þeim hlutföllum að Landsvirkjun fái 1/3 af viðbótarágóðanum í sinn hlut. Miðað við flýtisskoðun á núverandi áætlun Járnblendifélagsins um afkomu sýnir það sig að Landsvirkjun getur vænst þess að fá ágóðahlut í fyrsta sinn fyrir rekstur ársins 1988. Þessi ágóðahlutur yrði þá, ef áætlanir standast, rúmlega 8 millj. nkr. en mundi fara hækkandi með hverju ári sem líður. Ef tekin er summa áranna 1988–1993 yrði ágóðahlutur Landsvirkjunar um það bil 117 millj. nkr., eða rétt um 20 millj. nkr. á ári að jafnaði.“ Þetta eru ákvæðin nýju sem geta gefið Landsvirkjun verulega fjármuni í aðra hönd. (Forseti hringir. )

Hæstv. forseti. Ég hlýt að ljúka máli mínu þar sem tími minn er á enda runninn. En vegna þessarar auglýsingastarfsemi hv. fyrirspyrjanda í fjölmiðlum sem fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar skal á það minnt að það vill nú oft verða í Þjóðviljanum að hann vitnar til skálds sem einu sinni sagði: „Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi.“ Hann lætur þess ekkert getið þegar hann ræðir um orkuverðið til Járnblendifélagsins og ber það saman við ÍSAL að þar er ekki um sömu vöru að ræða. Þetta veit hv. þm. nákvæmlega, af því sem hann er í stjórn þessa fyrirtækis, að hér skiptir til helminga um forgangsorku og afgangsorku. Ég veit að allir sem hér eru inni þekkja það að þar skiptir alveg í tvö horn og var a. m. k. á sínum tíma mjög hagkvæmt fyrir Landsvirkjun að geta búið við það að vera ekki skyldugt að afhenda nema helminginn af þeirri orku sem þetta fyrirtæki kallaði til sín.

Það stendur að vísu svo á í kerfinu nú að nægjanleg orka er til þess að ekki þurfi að koma til stöðvunar hjá Járnblendifélaginu. En það er dýrt spaug ef til þess þyrfti að grípa. Mig minnir fastlega að einu sinni hefði orðið að grípa til niðurskurðar á orku til fyrirtækisins um 214 gígawattstundir á ári. Það er líka rangt sem haldið hefur verið fram í sambandi við það sem kallað er að básúna út hagnað Járnblendifélagsins. Þess er getið í skýrslu þess sérstaklega að ein af meginástæðunum er auðvitað hið hagstæða orkuverð. Sem betur fer eru það nú flestir sem fagna því sérstaklega hversu vel hefur tekist til með þetta fyrirtæki og önnur fyrirtæki orkugeirans, eins og Landsvirkjun, að nú er snúið frá gjaldþrota- og greiðsluþrotastefnu þeirra sem áður réðu ríkjum Alþb. í þessum efnum.