02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

401. mál, orkuverð til Járnblendifélagsins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var gállinn á hæstv. iðnrh. hér í stólnum áðan. Það var svona varla að hann kæmist til að svara þeirri fsp. sem til hans var beint. Í sambandi við samninga um orkuverð til Íslenska járnblendifélagsins væri ástæða til að segja hér margt. Um þessa verksmiðju var samið af ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. 1976, um hana sett lög gegn vilja Alþb. Þá var búið þannig um hnúta í sambandi við orkuverð að reiddar voru hér fram á Alþingi rangar upplýsingar um hvað fælist í hinni svokölluðu afgangsorkusölu til þessa fyrirtækis. (Iðnrh.: Hver gerði það?) Núverandi aðstoðarframkvæmdastjóri þess sem skilaði grg. til iðnrn. um málið sem var síðan framreidd hér á Alþingi. — Látið var liggja að því af hálfu Landsvirkjunar að í raun væri um afgangsorku að ræða, 50%, í sambandi við orkuafhendingu. Reyndin er öll önnur í þessum samningum, það þekkir þingheimur væntanlega. Hér er um bundna orku að yfirgnæfandi hluta að ræða í reynd.

Þegar óskað var eftir stækkun á þessu fyrirtæki skv. samningi 1978–1979 óskaði ég eftir því, með samþykki ríkisstj., að frestað yrði ákvörðunum um það um 1–2 misseri vegna þess að ekki voru góðar markaðshorfur. Þá kom það fram að inn í lögin hafði verið tekið ákvæði sem veitti samstarfsaðila, minnihlutaaðilanum Elkem, neitunarvald. Því neitunarvaldi beittu þeir og þess vegna varð að fallast á kröfu þeirra um það að hefja framkvæmdir við ofn 2 á Grundartanga.

Þegar Elkem óskaði eftir því að fá að minnka sinn hlut í fyrirtækinu, þegar mjög illa gekk um rekstur þess, féllst ég á að viðræður yrðu teknar upp við þriðja aðilann haustið 1982, Sumitomo í Japan, gegn ákveðnum skilyrðum. Eitt af þeim skilyrðum var það að losað yrði um ákvæðið varðandi orkuverð og það yrði tekið upp til endurskoðunar. Í öðru lagi og ekki síður að tekið yrði til endurskoðunar hinn fráleiti markaðssamningur sem gerir Elkem sem minnihlutaaðila kleift að hafa sitt að mestu leyti á þurru með því að hirða fyrir svokallaða tækniþjónustu 1.5% af veltu fyrirtækisins. Og þriðja atriðið, sem ég hef ekki hér í huga mér, var einnig tekið inn í þetta bréf.

Þessir samningar stóðu yfir þegar ríkisstjórnarskipti fóru fram. En það sem gerðist var að ekki var staðið með eðlilegum hætti að framhaldinu. Það var gefist upp við þessi skilyrði öll sömul þegar gengið var frá samningum. Þess vegna gat Alþb. ekki staðið að því frv. sem hér var samþykkt á ábyrgð ríkisstj. um innkomu þriðja aðilans.

Auðvitað fögnum við því að betur horfir með afkomu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga en áður var. Þetta fyrirtæki var þannig (Forseti hringir.) að núv. hæstv. iðnrh. hafði um það mörg orð hér á Alþingi, rétt áður en hann kom í ríkisstj., að hann vildi helst hlaupa frá öllu saman, þegar þáv. ríkisstj. var að fást við það erfiða verkefni að tryggja áframhaldandi rekstur þessa fyrirtækis, því að það var að bestu manna yfirsýn talið skárra en að stöðva hann. Þá talaði hann um það. Nú kemur hann og vill þakka sér bætta rekstrarafkomu járnblendiiðnaðarins eins og stendur, segir: Það er mitt verk. Þannig stendur á með fleira í hans málflutningi sem ég hef ekki tíma til að fara út í.