29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

106. mál, tannlækningar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt ræða til þess að láta fram koma skoðanir mínar á vissum atriðum þessa frv. sem auðvitað er í aðalatriðum í fyllsta samræmi við þá hefðbundnu venju hér að menn öðlist réttindi til starfa á ákveðnu sviði og þá sérréttindi með leyfum eða heimild frá rn.

Í 2. gr. frv., sem hér liggur fyrir, segir:

„Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar tannlæknadeildar Háskóla Íslands um hæfni umsækjanda til tannlæknisstarfa.“

Þannig er til orða tekið eftir að sagt er í 1. mgr. að leyfi skv. 1. gr. skuli veita umsækjanda sem lokið hefur prófi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Ef maðurinn hefur lokið prófi í þeirri sérfræði sem hann kostaði sig til náms í, þá á ég afar erfitt með að skilja það og sætta mig við það að þá skuli enn og aftur þurfa að leita umsagnar Háskóla Íslands um það hvort próf þaðan sé nægilegt til þess að maður sé hæfur til að gegna þeim störfum sem hann tók próf í.

Í 3. gr. er innskot þar sem segir:

„Sé um erlendan ríkisborgara að ræða skal hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu. Leita skal umsagnar Tannlæknafélags Íslands og landlæknis. Umsækjandi skal sanna að 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eigi ekki við um hagi hans. Binda má leyfið við ákveðinn tíma.“

Þannig er kveðið á eftir að búið er að fela það að nokkru leyti í hendur Háskóla Íslands að ákveða hvort maðurinn eigi möguleika á að öðlast starfsréttindi. Það segir í upphafi 3. gr.:

„Veita má þeim tannlækningaleyfi og þar með rétt til að kalla sig tannlækni, sem að mati tannlæknadeildar Háskóla Íslands hefur lokið sambærilegu prófi og um getur í 2. gr. Tannlæknadeild Háskóla Íslands getur sett skilyrði fyrir meðmælum sínum, að umsækjandi sanni deildinni hæfni sína með prófi.“

Ég tel algjöran óþarfa að setja jafn sjálfsagðan hlut inn í lög og það að maður sem að öðru leyti er talinn hæfur til starfa þurfi að sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu og er þá algjörlega lagt í mat einhverra ótilgreindra aðila hve fullnægjandi sú kunnátta kunni að vera. Mér finnst mega ætla að maður sem lokið hefur prófi í jafnflóknu og erfiðu fagi og tannlækningum hafi greind og gáfur til þess að meta það sjálfur hvort hann getur starfað sjálfstætt án aðstoðar annarra, þ.e. hvort hann hefur það gott vald á íslenskri tungu að hann geti átt samskipti við viðskiptavini sína.

Einnig finnst mér ankannalegt að eftir að Háskóli Íslands er búinn að fara höndum um starfshæfni mannsins skuli enn og aftur leitað umsagna Tannlæknafélags Íslands og landlæknis með sama hætti og ætlast er til í 2. mgr. með menn sem lokið hafa námi hér á landi.

Ég verð líka að viðurkenna að ég dreg það algjörlega í efa að þegar menn hafa lokið tilskildum prófum í Háskóla Íslands skuli alltaf þurfa að leita umsagnar fagfélaga í starfsgreininni um starfshæfni manna. Það er að mínu mati hvimleiður vani. Hann viðgengst í mörgum sérgreinum, m.a. í þeirri sérgrein sem ég hef lokið prófi í. Þar afsaka menn sig með því að það nám sem þar um ræðir sé ekki hægt að stunda hér á Íslandi og verði þess vegna að leggja mat á það nám, sem menn stunda víðs vegar um heim allan, með tilliti til þess að kröfur til náms hafi verið sambærilegar. En þegar menn ljúka á annað borð námi úr Háskóla Íslands tel ég ekki að það geti leikið nokkur vafi á því að menn hafi tilskilin réttindi til starfa.