02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4039 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

401. mál, orkuverð til Járnblendifélagsins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. hafa veitt því athygli hversu rösklega hv. 5. þm. Austurl. brást við árásunum af hálfu fyrirspyrjanda, bæði nú og hér í blaðagreinunum, því að sjálfur hafði hv. fyrirspyrjandi ekki þrek eða kjark til þess að mæta á fundi Landsvirkjunar þar sem gagnrýnin mikla á offramleiðslu í orkusektornum var lögð fram og sendi varamann sinn á vettvang til þess að leggja hana fram, en kaus að sitja niðri á Þjóðvilja og búa til árásarfyrirsagnirnar á hv. fyrirrennara minn, 5. þm. Austurl.

Hv. fyrirspyrjandi vitnaði í afstöðu manna í stjórn Landsvirkjunar og nefndi með nafni. Landsvirkjunarstjórn samþykkti orkusölusamninginn við Sumitomo, það liggur fyrir. En af hverju vitnaði hv. þm. ekki líka í félaga sinn, Finnboga Jónsson? Ég er með fundargerð Landsvirkjunar hér. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Finnbogi Jónsson fagnaði þessu samkomulagi enda væri framtíð Íslenska járnblendifélagsins tryggð.“

Það er engin athugasemd við þessa fundargerð gerð. Síðan ræddi Finnbogi um afgangsorku þá sem seld væri Járnblendifélaginu o. s. frv. Þetta stendur bókað þarna. (HG: Hvað meira?) Ég hef ekki tíma til þess að lesa upp heilu ritgerðirnar þótt hv. þm. kjósi gjarnan. Hann getur kynnt sér þetta. Þetta stendur hér ótvírætt. En ég ætla að ljúka að svara fsp. í heild sinni.

Spurt var um aukið hlutafé árin 1979–1983. Ég vænti þess að eitthvað komi fram í þessum fræðum sem hv. fyrirspyrjandi sagðist sérstaklega gera athugasemdir við og þá muni hæstv. forseti, vegna þess hvernig ég króaðist af með tíma minn, taka tillit til þess og gefa honum ráðrúm til að gera sínar athugasemdir þó að það geti ekki beinlínis kallast að bera af sér sakir.

Árin 1979–1983 var ekkert aukið hlutafé greitt til Járnblendifélagsins. Árin 1979 og 1980 fóru fram síðustu greiðslur upphaflegs hlutafjár, samtals 28.6 millj. kr. sé miðað við erlendar fjárhæðir og gengi í september 1984. Á árunum 1981–1983 veitti ríkissjóður Járnblendifélaginu lán sem hér segir á sama gengi, í september 1984: Árið 1981 83 millj. kr., og var það upphaflega ráðgert sem hluthafalán, 1982 139 millj. kr., 1983 44.8 millj. kr.

Í öðru lagi er spurt um ríkisábyrgðir. Árið 1982 veitti ríkið þessu til viðbótar ábyrgð á láni. Hluti ríkissjóðs af þeirri ábyrgð var 122.1 millj. kr. á gengi í september 1984, en á árinu 1983 bættust við það 16.4 millj. í vexti. Á árinu 1984 var öllum hluthafalánum breytt í hlutafé og hlutafé þar til viðbótar aukið um 247.8 millj. kr. með yfirtöku á hagstæðum lánum til þess að tryggja fjárhagsgrundvöll fyrirtækisins. Á gengi í september 1984 er heildarfjárhæðin, sem ríkissjóður hefur lagt til fyrirtækisins umfram það sem upphaflega var til ætlast, 431.6 millj. kr. Það er svona rétt rúmlega fjárhæðin sem búið er að eyða í tilraunirnar í saltverksmiðju suður á Reykjanesi svo að ég vænti þess fastlega að þeir sem fyrir því íslenska hugviti og framtaki stóðu fíkist ekki sérstaklega í þessa tölu. Þess er vert að minnast að Elkem, meðeigandi í fyrirtækinu, hefur á sama tíma lagt því til jafngildi rúmlega 350 millj. kr. reiknað með sama hætti á sama verðlagi. Með þessu tel ég, hæstv. forseti, að ég hafi lokið við að svara fsp. út í gegn. (Gripið fram í.) Síðustu tölu sem Elkem hefur lagt fyrirtækinu til? (ÓRG: Já.) 350 millj. kr. á sama verðlagi.

Ég hef svo, hæstv. forseti, fáu við þetta að bæta. Hv. 5. þm. Austurl. kom hér og reyndi að berja í brestina. Það er alveg gersamlega tilgangslaust. Yfir þessu réði hann og ríkti um langt árabil án þess að nokkuð breyttist til batnaðar, öll fyrirtæki rekin með bullandi tapi, Landsvirkjun við það að fara á höfuðið og hefði gert það vafalaust, því að hvernig átti að bæta henni upp þá stöðu sem stefndi í á miðju ári 1983? Hvernig var það hugsað? Hvernig var 152 millj. kr. tapi jafnað á árinu 1982? Hvernig ætli það hafi verið hugsað? Að sjálfsögðu með nýjum dollaralánum. Þannig var allur búskapurinn, þannig var öll fyrirhyggjan. Og það er lýsandi dæmi að þá og þá, þegar fyrirtæki hefur náð vopnum sínum, eins og þetta prýðilega fyrirtæki sem nú er í dag, þá skuli menn hefja upp nagg og nöldur eins og hér ber raun vitni um, og reynt að hrugga við því, tutta af því mannorðið ef menn gætu nú haft tök á því. Hvaðan hefur hv. 5. þm. Austurl. það að ég hafi viljað einhvern tíma hlaupa frá þessu fyrirtæki? Ég kom að þessu fyrirtæki í maílok 1983. Þá voru þar félagar hv. þm. fyrir, hæstv. núv. forsrh. sem lýsti því yfir hátt og í hljóði og í fjölmiðlum að það væri ekkert að gera við þetta fyrirtæki nema loka því. Ég ætla að biðja ykkur að rifja það upp, og þið getið séð það í blöðum líka hv. þm., hver mín svör voru aftur á móti. (HG: Núv. forsrh.?) Núv. hæstv. forsrh. Hann lýsti því yfir að það væri ekkert annað að gera en loka þessu eftir að hafa horft á hv. 5. þm. Austurl. rembast eins og rjúpan við staurinn við að koma þessu á réttan kjöl en aldrei tókst. Það var von að maðurinn væri uppgefinn. Frá þessu er þetta að segja.

Ég veit hins vegar að venjulegt fólk, sem hefur vit á rekstri, sér ekki ofsjónum yfir þessu. Það fagnar því alveg sérstaklega. Og enda þótt við þyrftum að fá miklu hærra verð, þá er það samt svo að við eigum meiri hluta í þessu fyrirtæki þannig að ágóði þess kemur til okkar, a. m. k. 55 af hundraði.