02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

401. mál, orkuverð til Járnblendifélagsins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Síðustu orð hæstv. ráðh. voru á þá leið að við eigum meiri hluta í þessu fyrirtæki og ágóðinn kemur til okkar. Er eitthvert ljós að renna upp fyrir hæstv. ráðh. að það kunni nú að vera skynsamlegt fyrir Íslendinga að veðja ekki á útlendinga í sambandi við arðvænleg iðnaðarfyrirtæki hérlendis og möguleika, sem eru reistir á eitthvað traustari grunni en járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, sem því miður hefur ekki skilað jákvæðri nettóafkomu til eigenda sinna enn þann dag í dag eftir þann rekstur sem þar hefur farið fram, því miður.

Þegar stjórnarskipti urðu 1983 um vorið þá lá fyrir stöðuskýrsla um samningaumleitanir vegna hugsanlegrar eignaraðildar Sumitomo að Íslenska járnblendifélaginu. Í þeirri skýrslu sem mér var afhent rétt um stjórnarskipti af þeim sem þá tóku þátt í samningaviðræðum segir svo, með leyfi forseta:

„Í viðræðum þessum hefur íslenski aðilinn lagt áherslu á eftirfarandi:

1. Ísland getur fallist á eignaraðild Sumitomo að Íslenska járnblendifélaginu ef vissum skilyrðum til þess föllnum að tryggja hagsmuni Íslands og Íslenska járnblendifélagsins er fullnægt.

2. Helstu atriði af þessu tagi eru: Ísland haldi meirihlutaeign sinni í Íslenska járnblendifélaginu. Elkem verði áfram næststærsti eignaraðilinn að Íslenska járnblendifélaginu. Sumitomo kaupi fast lágmarksmagn af framleiðslu Íslenska járnblendifélagsins, t. d. 15–20 þús. tonn árlega, á verði sem nemi framleiðslukostnaði að viðbættum eðlilegum hagnaði. Fullnýting afkastagetu Íslenska járnblendifélagsins verði tryggð. Samningar Íslenska járnblendifélagsins og Elkem varðandi tækniþóknun og söluþóknun verði endurskoðaðir. Óskað er eftir því að tækniþóknun lækki úr 3% í 0.5% og söluþóknun lækki eða falli niður. Rafmagnssamningur Íslenska járnblendifélagsins og Landsvirkjunar verði endurskoðaður með eftirfarandi fyrir augum: Forgangsorkuverð hækki í 17.5 mill. Orkuverðið verði verðtryggt. Orkuverðið verði ákveðið í SDR. Hlutfalli forgangs- og afgangsorku verði hugsanlega breytt. Íslenska járnblendifélagið taki virkan þátt í markaðsfærslu afurða sinna.“

Þetta voru meginatriðin miðað við kröfur Íslendinga í þessum samningaviðræðum. Nokkrir þættir náðust fram, m. a. um kaupskyldu Sumitomo, sem hefur vissulega þýðingu. En varðandi tækniþóknunina, sem er hreint nýlendufyrirbæri í viðskiptum, og varðandi rafmagnsverðið var hopað og einnig að því leyti að Íslendingar yrðu virkir í markaðsfærslu þó að aðeins sé opnað fyrir það í fyrirliggjandi samkomulagi.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram, herra forseti, og síðan vildi ég aðeins rifja það upp að öðruvísi mér áður brá við tóninn frá hæstv. iðnrh. og hans flokksbræðrum í stjórnarandstöðu hér þegar ég fór með iðnaðarmál í hæstv. ríkisstj. Þá var nú ekki talað um framkvæmdagleðina og athafnasemina af þeirra hálfu, heldur eitthvað allt annað ef ég man rétt.