02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4042 í B-deild Alþingistíðinda. (3353)

401. mál, orkuverð til Járnblendifélagsins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera hér örstutta athugasemd sérstaklega vegna þess að það var ekki fyrr en í seinni lotu sinni sem hæstv. iðnrh. svaraði öðrum meginhluta fsp. Hæstv. iðnrh. segist ekki vera reiðubúinn til þess að taka á næstunni að nýju upp samninga um orkuverð Járnblendifélagsins og vill halda þeim samningum óbreyttum. Hann hefur einnig svarað því hér hvað íslenska ríkið hefur lagt fram til viðbótar til Járnblendifélagsins, en það eru rúmar 430 millj. kr. Sé þetta lagt við mismuninn, sem er á orkuverðinu til Járnblendifélagsins annars vegar og til ÍSALs hins vegar, þá er það alveg ljóst að á þessum áratug munu Íslendingar leggja til Járnblendifélagsins í beinum styrkjum, annaðhvort beinum ríkisframlögum eða með hróplega lágu orkuverði, á bilinu 1200–1500 millj. kr. Það er sem sagt hátt á annan milljarð sem almenningur í landinu leggur með fyrirtækinu á þessum áratug. Ég vænti að hæstv. iðnrh. hafi ábyrgð til þess að átta sig á því að við slíkt má ekki una til lengdar. Málið verður þess vegna að taka upp að nýju, því að við getum ekki búið við það að þurfa að leggja slíkar himinhrópandi upphæðir, einhvers staðar á bilinu 1200–1500 millj. kr., til eins fyrirtækis á þessum áratug.