02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4043 í B-deild Alþingistíðinda. (3357)

369. mál, sauðfé á sunnanverðum Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Um svipað leyti og hv. þm. deildu um réttmæti á uppsetningu fyrirhugaðra radarstöðva og þá í ljósi þess að um væri að ræða ákjósanleg skotmörk átti sér stað vestur á fjörðum loftárás, má segja, á sauðfé í fjöllum á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar höfðu menn fundið skotmarkið.

Ég hygg að það hafi fleirum en mér orðið nokkuð hverft við þegar það barst á öldum ljósvakans 16. mars s. l. og í öðrum fjölmiðlum að átt hefði sér stað skotárás á sauðfé í fjöllum á sunnanverðum Vestfjörðum. A. m. k. í mínum huga var þetta heldur ógeðfelldur, nánast viðbjóðslegur, atburður eins og frá honum var sagt og því var lýst. Mér finnst nauðsynlegt að fá um það upplýsingar frá viðkomandi hæstv. ráðh. með hvaða hætti slíkir atburðir geta gerst, í hvers umboði slíkt er gert og hver ber ábyrgð á slíku. Ég hef því ásamt hv. 5. þm. Vestf. lagt fram fsp. á þskj. 589 til hæstv. landbrh. og dómsmrh. um skotárás lögreglu og landhelgisgæslu á sauðfé í fjöllum á sunnanverðum Vestfjörðum. Fsp. er í fjórum liðum og er þannig, með leyfi forseta:

„1. Hver ákvað skotárás þá sem gerð var úr þyrlu Landhelgisgæslunnar á sauðfé í Sjöundárhliðum og fjallinu Tálkna á sunnanverðum Vestfjörðum 15. mars s. l.?

2. Var hún gerð með vitund eða samþykki ráðh.?

3. Hverjar voru ástæður þess að gripið var til svo vafasamra aðgerða?

4. Voru aðfarir þessar hinar einu réttu að mati hæstv. ráðh.?“