02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4044 í B-deild Alþingistíðinda. (3358)

369. mál, sauðfé á sunnanverðum Vestfjörðum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hefur borið fram fsp. til mín á þskj. 589 og er hún í fjórum liðum.

1. spurningin er: „Hver ákvað skotárás þá sem gerð var úr þyrlu Landhelgisgæslunnar á sauðfé í Sjöundárhlíðum og fjallinu Tálkna á sunnanverðum Vestfjörðum 15. mars s. l. ?“ Það var sýslumaður Barðastrandarsýslu sem óskaði eftir að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar, en hann hafði samráð við sveitarstjóra Patrekshrepps og oddvita Barðastrandarhrepps, tilkynnti þetta heilbrigðisfulltrúa, héraðsdýralækni og sauðfjárveikivörnum. Þá hefur komið fram í fréttum að sveitarstjóri Patrekshrepps var með í þyrlunni þegar hún fór um innan marka Patrekshrepps, en fulltrúi hreppsnefndar Barðastrandarhrepps var í vélinni þegar átt var við kindurnar í Sjöundárhlíðum.

2. spurningin: „Var hún gerð með vitund eða samþykki ráðh.?“ Mér var ekki kunnugt um þennan leiðangur fyrr en ég frétti um hann eftir á í fjölmiðlum eins og aðrir hv. þm. Hins vegar var haldinn fundur í rn. í janúarmánuði s. l. með sýslumanni Barðstrendinga og fulltrúa sauðfjárveikivarna þar sem rætt var um nauðsyn þess að smala þeim kindum sem þá voru enn úti í fjallinu Tálkna, og var þar óskað eftir að sýslumaður veitti aðstoð við það ef nauðsyn krefði, en á hvern hátt það yrði var ekki rætt frekar.

3. spurning: „Hverjar voru ástæður þess að gripið var til svo vafasamra aðgerða?“ Eins og hv. alþm. er kunnugt á að hýsa fé og smala því á haustdögum. Það hafði ekki tekist þarna. Sérstaklega var brýnt að hreinsa landið að þessu sinni vegna þess að ákveðinn hafði verið niðurskurður vegna riðuveiki eftir eindregnar áskoranir heimamanna, þ. e. allra sýslunefnda á svæðinu, frá Búnaðarsambandi Vestfjarða og einnig Fjórðungssambandi Vestfirðinga. En það hafði ekki tekist að hreinsa landið og ástæðurnar eru vitanlega þær.

4. spurningin: „Voru aðfarir þessar hinar einu réttu að mati ráðh.?“ Í 57. gr. laga um afréttarmálefni, fjallskil og fleira stendur:

„Nú verður vart fjár í ógöngum, og er þeim þá skylt, er sér, að tilkynna það oddvita viðkomandi sveitarfélags. Skal hann þá leitast við að fá færa menn til að bjarga fénu, ef fært þykir. Sé björgun óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi björgunarmanns eða aðstæður það örðugar, að tvöfalt verð fjárins hrökkvi ekki fyrir björgunarkostnaði, er skylt að skjóta féð, sé það unnt.“

Þetta eru þær kvaðir sem Alþingi hefur lagt á sveitarstjórnarmenn og verði þeir ekki við þeim hlíta þeir ekki lagafyrirmælum Alþingis.

Ég treysti mér ekki hér til að meta hvernig aðstæður eru þarna fyrir vestan. Ég ætla ekki að ásaka á þá, sem reynt höfðu að ná þessu fé, fyrir að hafa ekki gert sitt til þess. Hv. fyrirspyrjandi er vafalaust færari um að dæma um það. En sú skylda hvílir á sveitarstjórnum skv. lögum frá Alþingi að beita þeim aðferðum sem beitt var ef aðrar aðferðir ekki duga.