02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

369. mál, sauðfé á sunnanverðum Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. A. m. k. skil ég þau svo að hæstv. ráðh. hafi ekki átt neinn hlut að þessu máli, þessari skotárás. Ég ætla ekki að gerast neinn dómari í þessu máli, enda hef ég ekki tök á slíku. Hins vegar hlýt ég eins og aðrir að reyna að mynda mér skoðun á því og öllu því sem þar gerðist og kringumstæðum þar vestra.

Hæstv. ráðh. minntist á fund sem haldinn var í rn. í janúar s. l. Í þessari skotárás voru, að því er mér er tjáð, skotnar 32 kindur, 28 þeirra í Tálknanum og fjórar á Sjöundárhlíðum. Nú hefur verið nokkur ágreiningur vestra um niðurskurð á þessu svæði, en ég ætla ekki að fara að rekja hann hér. Hins vegar hef ég undir höndum bréf undirritað af hæstv. landbrh. Það varðar eitt sveitabýlið þar sem ágreiningur er um niðurskurð, Lambeyri við Tálknafjörð. Þar lýsir hann yfir að niðurskurði á Lambeyri verði frestað til haustins 1985, þ. e. þar þarf enginn niðurskurður á fé að fara fram fyrr en í haust. Hluti af því fé sem skotið var var frá Lambeyri, það fé sem raunverulega var búið að gefa líf fram á haust.

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Kannske er það vegna ókunnugleika, en ég sé ekki að það hafi verið neitt þarna að gerast sem gat knúið menn til slíkra óhæfuverka, eins og þarna hafa átt sér stað. Ég veit ekki betur en menn hafi farið á staðinn annaðhvort daginn eða tveimur til þrem dögum eftir að þetta gerðist. Mörg hræin munu liggja þarna enn. Það mun ekki bæta úr skák ef sýking er talin vera hugsanleg á þessu svæði. Ekki hefur því verið að unnið í þeim anda að bægja frá sýkingunni. Í þessum hræjum hefur fuglinn verið og ber að sjálfsögðu sýkla þar sem hann fer sé um sjúkt fé að ræða.

Mér er líka tjáð að í skotárásinni hafi verið skotið bæði í læri og út um kvið á þessu fé. Mér finnst óhugnanlegt ef almennt er hægt að eiga von á því í framtíðinni að yfirvöld, hvort sem um er að ræða sýslumenn, oddvita eða hreppstjóra, geti tekið upp og ákveðið aðfarir eins og hér um ræðir. Það er óhugnanlegt. Það þurfa a. m. k. að vera gífurlega sterk rök sem mæla með aðferðum eins og þarna áttu sér stað.

Ég fullyrði að það er mikil gremja í fólki vestra út af þessum atburði og ég er ekki á því hissa. Þegar munu hafa verið sendar yfir 200 undirskriftir þar sem þess er krafist að þetta mál verði kannað frekar og gengið úr skugga um hvort þessi verknaður hafi verið nauðsynlegur eins og hann var framkvæmdur. Ég tek undir það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði hér áðan, og það skulu verða mín lokaorð, því að ég held að oft hafi verið framkvæmd lögreglurannsókn af minna tilefni en þessu til að fá hið rétta fram.