02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4047 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

375. mál, íhlutun stjórnvalda í kjarasamninga

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í orðum hv. 3. þm. Vestf. er spurt um aðgerðir af opinberri hálfu í efnahagsmálum undanfarin 15 ár. Ég hef beðið Þjóðhagsstofnun að taka saman slíkt yfirlit og segir í bréfi Þjóðhagsstofnunar að yfirlitið nái yfir helstu aðgerðir eða þær sem máli skipta eins og þar segir, og jafnframt að skv. yfirlitinu hafa stjórnvöld gripið 12 sinnum inn í launasamninga með beinum hætti á s. l. 15 árum.

1. Í lögum nr. 94/1970, sem gildi tóku 19. nóvember, var kveðið á um frestun á greiðslum samsvarandi tveimur stigum kaupgreiðsluvísitölu til 1. september 1971, eða sem samsvarar 1.9% kauphækkun. Þá var með þessum lögum ákveðið að 15–17% verðhækkun áfengis og tóbaks og hækkun iðgjalda almannatrygginga skyldi ekki bætt í launum. Með bráðabirgðalögum nr. 77/1971 var greiðslu þeirra tveggja k-stiga, sem frestað var 1970, flýtt til 1. ágúst.

2. Hinn 11. júlí 1972 voru útgefin bráðabirgðalög um tímabundnar efnahagsráðstafanir, er kváðu á um að kaupgreiðsluvísitala skyldi vera óbreytt í 117 stigum, en hefði átt að hækka í allt að 119.5 stig. Hækkun umfram 1.5 stig skyldi hins vegar bætt. Er gildistími þessara laga rann út við áramótin var kauplagsnefnd falið með lögum (nr. 100/1972) að ákveða verðlagsbætur frá og með 1. janúar á grundvelli almenns verðlags 1. nóvember.

3. Með lögum um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey (nr. 4) frá 7. febrúar 1973 var 2% viðlagasjóðsgjald sett á söluskattsstofn og var sú hækkun ekki reiknuð í kaupgreiðsluvísitölu.

4. Brbl. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu (nr. 28), sem sett voru 21. maí 1974, kváðu á um bindingu vísitölubóta um þriggja mánaða skeið. Kaupgreiðsluvísitalan hefði átt að hækka um 15.45 stig eða 14.6%. 3.04 k-stig vegna hækkunar eigin bifreiða var ekki bætt og þá komu til frádráttar 7.86 k-stig vegna aukinna niðurgreiðslna 20. maí. Að teknu tilliti til þessara tveggja liða hefði kaupgreiðsluvísitalan því átt að hækka um 7.2%. Hinn 22. ágúst 1974 voru sett lög nr. 25 um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu og var með þeim framlengt ákvæði laga nr. 28 með sama heiti. Vísitölubindingin var framlengd til 30. september.

5. Með brbl. nr. 88 frá 24. september 1974 um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga og verðlagsmál voru almennar verðlagsuppbætur afnumdar á tímabilinu 1. október 1974 til 31. maí 1975. Í þeirra stað komu launajöfnunarbætur sem greiddar voru sem föst upphæð á laun að ákveðnu marki. Upphæðir launajöfnunarbóta skyldu endurskoðast ef framfærsluvísitalan færi fram úr 358 stigum á gildistíma laganna.

6. Hækkun söluskattsstofns um 1% til að draga úr áhrifum olíuverðshækkana á hitunarkostnað var lögleidd 27. febrúar 1976. Jafnframt var ákveðið að sú hækkun verðlags sem af hlytist skyldi ekki valda hækkun kaupgreiðsluvísitölu.

7. Með lögum um ráðstafanir í efnahagsmálum nr. 3 frá 17. febrúar 1978 voru verðbætur og verðbótaauki launa helminguð fram til 1. desember 1978, en ákvæði voru um lágmarksgreiðslu á hvert prósentustig kaupgreiðsluvísitölu. Þær breytingar urðu á lögum þessum með setningu brbl. nr. 63 frá 24. maí 1978 að greiddar skyldu fullar verðbætur á dagvinnulaun að ákveðnu hámarki, en föst krónutöluupphæð á hærri laun.

8. Brbl. um kjaramál (nr. 96), sem sett voru 8. september 1978, kváðu á um að frá 12. september skyldi hámark verðbóta vera hið sama í krónufölu og reiknast skv. ákvæðum gildandi kjarasamninga á dagvinnulaun samsvarandi 300 000 kr. á mánuði.

9. Hinn 10. apríl 1979 voru gefin út lög um efnahagsmál o. fl. (Ólafslög). Í þeim fólust nokkrar breytingar á ákvæðum um útreikninga verðbóta frá og með 1. júní sama ár. Draga skyldi frá breytingu framfærsluvísitölu breytingar sem stafa af vísitöluhækkun á launalið verðlagsgrundvallar búvöru, breytingar verðlags vegna skatta eða gjalds til að draga úr kyndingarkostnaði. Þá skyldi og draga frá breytingar áfengis- og tóbaksverðs. Að síðustu var tekinn upp viðskiptakjarafrádráttur en 30% af viðskiptabreytingu skyldi draga frá hækkun verðbótavísitölu. Bráðabirgðaákvæðin fela í sér að frádráttur vegna viðskiptakjara 1. júní 1979 skyldi hæst nema 2% af verðbótavísitölu og það sem umfram væri skyldi tekið til greina 1. september. Þá var og viðskiptakjarafrádrætti á laun lægri en 2100 kr. á mánuði frestað til 1. desember. Með brbl. nr. 92, sem sett voru 20. nóvember 1979, voru laun undir 263 000 kr. hækkuð um 2% eða til mótvægis viðskiptakjarafrádráttar sem frestað var frá 1. júní.

10. Um áramótin 1980–1981 voru gefin út brbl. um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Verðbótahækkun launa, sem til greiðslu skyldi koma 1. mars, var ákveðin 7% lægri en hún hefði orðið skv. ákvæðum laga nr. 13/1979, þ. e. Ólafslaga. Eftir 1. mars skyldu laun hækka í hlutfalli við hækkun framfærsluvísitölunnar að frádregnum áfengis- og tóbaksliðum. Aðrir frádráttarliðir efnahagslaganna skyldu þó gilda um laun hærri en 7250 kr. á mánuði.

11. Með brbl. um efnahagsmál nr. 79, sem sett voru 21. ágúst 1982, voru verðbætur á laun, sem til greiðslu skyldu koma 1. september, lækkaðar um 2.9% en sú skerðing var í samningi ASÍ og VSÍ frá 30. júní 1982. Enn fremur var í lögunum ákvæði þess efnis að lækka skyldi um helming þá verðbótahækkun launa sem ella hefði orðið 1. desember 1982 skv. ákvæðum laga nr. 13/ 1979. Þessi lækkun nam 7.72%.

12. Með brbl. um launamál frá 27. maí 1983 eru verðbætur á laun felldar niður á tímabilinu frá og með 1. júní 1983 til og með 31. maí 1985. Laun skyldu hækka um 8% 1. júní og 4% 1. október. En verðbætur hefðu átt að hækka um 22% 1. júní. Þá voru allir gildandi kjarasamningar framlengdir til 31. janúar 1984.

Eins og sjá má af þessari upptalningu hafa beinar íhlutanir ríkisvaldsins í launasamningum verið æði tíðar. Reyndar virðist það svo að einungis einu sinni á síðustu 15 árum hafi verið gerðir almennir kjarasamningar til lengri tíma en eins árs sem ríkisvaldið hefur ekki rofið. Það var árið 1976. Ríkisstj. sú sem nú situr hefur lagt mikla áherslu á að breyta þessari sérkennilegu hagstjórn. Áhersla er lögð á að mynda almenna umgjörð ákvarðana í efnahagslífinu með fjármála-, gengis- og peningastefnu. Aðilar vinnumarkaðarins geri síðan samninga sína á eigin ábyrgð. Þess vegna hefur ríkisvaldið ekki gripið inn í þá samninga sem gerðir voru s. l. haust. Ríkisstj. vonast til að í framtíðinni verði unnt að stjórna efnahagsmálum hér á landi með almennum hagstjórnaraðferðum en ekki beinum inngripum í gerða samninga sem hefur verið megineinkenni hagstjórnar s. l. 15 ár. Það er farsælla til lengdar fyrir efnahagslífið, en setur um leið mikla ábyrgð í hendur aðila vinnumarkaðarins.