02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

321. mál, löggjöf um fiskeldi

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur borið fram fsp. til sjútv.- og landbrh, um undirbúning að löggjöf um fiskeldi.

Eins og fram kom í máli hans var fjallað um þetta mál á síðasta Alþingi. Í nál. frá meiri hl. atvmn. um þáltill þar að lútandi er lagt til að till. sé vísað til ríkisstj., en vitnað m. a. í umsögn frá Rannsóknaráði ríkisins.

Á vegum Rannsóknaráða ríkisins er nú unnið að úttekt á stöðu og framtíðarhorfum í eldi sjávar- og vatnadýra og annarra lífvera í sjó og vatni. Í athugun þessari er m. a. unnið að hliðstæðri upplýsingaöflun og óskað er eftir í umræddri þáltill. Tilgangur athugunarinnar er m. a. að gefa stjórnvöldum betri innsýn í möguleika þessa atvinnusviðs og leggja grundvöll að stefnumótun varðandi rannsóknir og aðgerðir til stuðnings þessu atvinnusviði.

Það kemur einnig fram í nál.sjútvrn. hafði ætlað að skipa nefnd til að fjalla um málið frá sinni hlið, en frestað því vegna vinnu Rannsóknaráðs ríkisins. Það sama má segja um landbrn. Ég átti viðræður við framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs ríkisins um þessi mál nokkrum sinnum á s. l. ári. Þá vonaðist hann til að nál. væri að koma alveg á næstunni. Því miður hef ég ekki séð það enn. Hins vegar virtist mér þörf á því að reyna að vinna að málinu á meðan, úr því að dráttur varð á þessu starfi, og óskaði því eftir að gerð yrðu drög að frv. um fiskeldi. Það var gert á vegum landbrn. í vetur. Lögð var áhersla á að reyna að samræma þessi mál öll og koma á náinni samvinnu milli þeirra sem að þessu gætu staðið og um það þurfa að fjalla.

Hins vegar er ljóst að þarna er um marga aðila að ræða og því ekki einfalt að ganga frá málinu í endanlegan búning. Þess vegna hefur nú verið ákveðið að forsrh. skipi nefnd, þar sem hér er um málefni að ræða sem nær a. m. k. til tveggja rn., með fulltrúum bæði frá landb.- og sjútvrn. til þess að undirbúa svona lagasetningu og skoða þær hugmyndir og vinnu sem þar er búið að inna af hendi en jafnframt verði nefndinni falið að vinna að þessum málum nú þegar innan þeirra marka sem löggjöf setur og vera ráðgefandi um þessi mál fyrir þau rn. sem ákvarðanir þurfa að taka á þessu sviði þannig að ekki verði lengur dráttur á samræmdu starfi í þessum málum. Ég vonast til að með þessu sé markað nokkuð ákveðið skref í því að hrinda lagasetningu í framkvæmd, en jafnframt að samræming verði betri milli þeirra stofnana sem um þetta fjalla og markvissari vinnubrögð.