02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4053 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

321. mál, löggjöf um fiskeldi

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. báðum fyrir þeirra upplýsingar sem hér komu fram. Ég tel að þeim fengnum að það hafi í rauninni verið mistök að Alþingi gekk ekki betur frá þessu máli fyrir ári með því að samþykkja fyrir sitt leyfi þá þáltill. sem ég hef hér rifjað upp, þannig að þessi mál færu ákveðnar og út frá ákveðnum sjónarmiðum á hreyfingu.

Nú hefur komið í ljós að hæstv. landbrh., svo sem þakkarvert er, hefur áhuga á þessum málum. Hann hefur verið að fást við að láta semja frv. um þetta afriði. Sjútvrn. hefur þar sín sjónarmið og hæstv. sjútvrh., sem kom fram í hans máli, hafði ætlað sér þegar eftir að hann tók við ráðherrastarfi að fara að sinna þessum málum. Það munu hafa verið nokkur átök á milli rn. um meðferð málsins, ef ég hef skilið það rétt, og mátti raunar ráða af máli ráðherranna, og nú er gripið til þess ráðs af forsrh. að skipa nefnd.

Ég tel að það sé betra seint en aldrei að þannig sé á máli tekið og vonandi fer að sjást í þá áætlun sem Rannsóknaráð ríkisins lofaði í rauninni eða gerði ráð fyrir að liti dagsins ljós vorið 1984 samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á nál. Við skulum því vænta þess að eitthvað fari úr að rætast í þessum efnum. Ég vil inna hæstv. ráðh., annan hvorn þeirra, eftir því hvort búið sé að ganga frá skipun nefndarinnar og hverjir hafi þá verið þar til kvaddir og hvort það sé búið að ganga frá ramma um hennar starfssvið. Eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson minnti á í sínu máli áðan skiptir mjög miklu máli að sá rammi sé markaður því að annars verður ekki mikið á þessum málum tekið af festu.

Ég vil taka undir þau orð sem hv. þm. Stefán Valgeirsson lét falla áðan um sjónarmið sem varða uppbyggingu þessa atvinnurekstrar. Að því er varðar fiskeldi, t. d. laxarækt er það stórt atriði, sem menn verða að hafa afstöðu til, hvort þeir ætla að láta fáa stóra aðila um tilraunir og framkvæmdir á þessu sviði eða hvort þeir ætla að nýta þetta sem lið í byggðastefnu hérlendis til þess að styrkja byggðirnar víða um land þar sem skilyrði eru til þessa. Og ættum við að hleypa útlendingum í þetta í þeim mæli sem vísbendingar eru nú þegar um að þeir sæki í slíkt? Það eru spurningar sem þarf að svara. Á þessu vakti ég athygli þegar ég mælti fyrir þáltill. um þetta efni 20. jan. 1984 og benti þá á hvernig Norðmenn hafa staðið mjög skipulega að þessum málum með það fyrir augum að tryggja yfirráð heimamanna í einstökum byggðum, yfirráð þeirra yfir fyrirtækjunum og gera skilmerkilega kröfur um það efni áður en leyfum er úthlutað og loka á útlenda hagsmuni og hagsmuni stórfyrirtækja sem ráðandi á þessu sviði. Ég er ekki að segja að við eigum að apa eftir Norðmönnum öll atriði í löggjöf hér, en skylt er að meta þá reynslu sem þar er fengin og sjá hvernig til hefur tekist að þessu leyti. Það vekur athygli mína blaðafregn nýlega, í Morgunblaðinu 27. mars, þar sem greint er frá því að fram sé að koma nýtt frv. til laga um fiskeldi í Noregi. Hægri stjórnin þar hverfur ekki frá þessum sjónarmiðum varðandi skilyrði í sambandi við úthlutun leyfa til fiskeldis, áfram skuli það vera í höndum heimamanna, þeir skuli hafa þar forustuna og hagsmunir stórfyrirtækja verði ekki ráðandi í fyrirtækjunum.

Hér er stórkostlegt mál á ferðinni og snertir auðvitað margt annað en laxarækt, eins og ég hef að vikið. Þetta varðar búskap okkar til lands og sjávar, náttúrlega nýtingu vatnafiska, en einnig sjávarfiska. Þar kunna möguleikarnir að vera stórbrotnir í framtíðinni þó að ekki verði mikið um það fullyrt án þess að nánari rannsóknir og tilraunir fari fram. Því er brýnt að slíkar tilraunir verði hafnar fyrr en seinna, við drögum að alla tiltæka þekkingu erlendis frá og mótum hér jafnframt stefnu til þess að fá hér viðspyrnu svo sem þörf er á í okkar atvinnulífi.