29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

106. mál, tannlækningar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég skal byrja á því að svara síðustu spurningu 5. þm. Vesturl.

Alþingi er búið að afgreiða allmörg lög um réttindi og skyldur tiltekinna heilbrigðisstétta og alltaf eru fyrirliggjandi beiðnir um að flytja fleiri slík frv. (Gripið fram í.) Nú var þingmaðurinn heppinn. — Við höfum því ákveðið í rn. að ganga frá ákveðnu rammafrv. í þessum efnum, til þess að flytja ekki fleiri slík einstök frv., þar sem það yrði á valdi rn. og ráðh. að meta og vega þær stéttir sem þess óska. Hins vegar er vald rn. eða ráðh. ekki algjört. Ef viðkomandi stétt er synjað í rn. um að flutt sé stjfrv. liggur það opið og í augum uppi að viðkomandi stétt eða starfshópur getur leitað til einstakra þm. í þeim efnum. Ég hygg að þetta sé það sem oft hefur verið talað um hér, en ekki er ætlunin að leggja til að fella niður þau lög sem þegar hafa verið samþykkt á undanförnum árum.

Sami hv. þm. spurði hvað liði frv. til nýrra læknalaga. Það frv. hefur nú verið æðilengi á döfinni, mjög lengi, og það eru ákaflega íhaldssamar skoðanir um það hjá æðimörgum að breyta þar litlu. Ég var einmitt síðast í morgun að ræða um þetta væntanlega frv. við ráðuneytisstjórann í heilbr.- og trmrn. og þá vinnu sem hefur verið unnin af ákveðnum embættismönnum. Annar þeirra er landlæknir. Ég hef lesið frv. yfir. Mér finnst á frv., eins og það liggur fyrir, vera allt of veigalitlar breytingar gerðar, nánast endurorðun á núverandi læknalögum. Mér finnst t.d. vald læknadeildar vera of óskorað í gildandi lögum. Í sífellt flóknara þjóðfélagi, eins og okkar, tel ég að þar þurfi að verða stærri breytingar. En þessi mál verða rædd við ýmsa sérfræðinga á þessu sviði. Ég stefni að því að frv. til nýrra læknalaga verði lagt fram á þessu þingi, en ég get ekki á þessu stigi fullyrt hvenær það verður.

Varðandi þær umr. sem hér hafa átt sér stað og það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði og sömuleiðis 5. þm. Vesturl. varðandi 2. og 3. gr. vil ég geta þess að hér er ákvæði um að áður en leyfi skal veitt skuli leitað umsagnar. Þetta er í mörgum lögum. Þau ár sem ég hef verið heilbr.- og trmrh.; 1974–1978 og eins núna, hafa oft verið ansi harðar umræður við talsmenn hinna ýmsu starfshópa sem hafa viljað að þetta gengi mun lengra. Kröfur voru oft um neitunarvald þessara félaga. Það hef ég talið fullkomlega óeðlilegt í alla staði og hef aldrei flutt frv. með slíkum ákvæðum. Hins vegar er sennilega líkt á komið með framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu að það er afskaplega fúst að leita umsagnar, sbr. nefndir Alþingis. En það er ekki að sama skapi skylt að fara eftir þeim umsögnum þó að alltaf sé sjálfsagt að taka tillit til skynsamlegra og velviljaðra aths. um það sem betur megi fara.

Ég vil benda á að í upphafi 2. gr. segir:

„Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim umsækjanda sem lokið hefur prófi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar tannlæknadeildar Háskóla Íslands um hæfni umsækjanda til tannlæknisstarfa. Heimilt er ráðh. að synja um leyfi ef umsögn er neikvæð“ o.s.frv.

Ég er alveg sammála hv. 8. þm. Reykv. um að ef við lesum þetta svona lítur það ekki nógu vel út af því að sagt er „leita umsagnar“. Hins vegar eru margar lykkjur á lífsleiðinni eins og menn vita. Við skulum segja að einhver hafi náð tilskildu prófi, en hafi farið í eitthvað annað og lent einhvers staðar á hinum hlykkjótta vegi lífsins, hafi versnað stórum frá því að hann lauk prófi. Þá er þetta ekki óhugsandi.

3. gr.: Sérstaklega þegar um erlenda ríkisborgara er að ræða hafa komið upp ákaflega erfið tilvik í þessu sambandi, m.a. á tíma þess heilbrmrh. sem gegndi starfi á undan mér. Það má deila um þau atvinnuréttindi sem hann veitti eða ekki. En hins vegar kom annað upp. Það varð deila við Tannlæknafélagið. Báðir aðilar höfðu nokkuð til síns máls. Það var ekki auðvelt að dæma það. Það kom líka upp í sambandi við pólskan flóttamann mál erfitt úrlausnar sem við höfum reynt að leggja okkur fram um að leysa í rn.

Hins vegar má segja um þann hluta mgr. „skal hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu“ að lítið hafi þurft á kunnáttu í tungunni að halda í sambandi við tannlækningar því að tannlæknirinn talar oftast einn eins og allir vita. Viðmælandanum er kippt úr sambandi. Ég segi því fyrir mitt leyti að ég legg ekkert ofurkapp á að halda því ákvæði óbreyttu. Það verður bara að fjalla um það.

Hv. 5. þm. Vesturl. gerði aths. varðandi sektarákvæði. Ég læt ekkert á mig fá þó að upphæðin falli niður í þessu sambandi. En þetta er enn sem komið er allmyndarleg upphæð og þetta er myndarleg stétt. Því væri ekkert fjarri því að hafa inni í frv. svona myndarlega upphæð. En ef nefndinni í þessari hv. deild finnst það miður eða þm. hér set ég mig ekkert upp á móti breytingu.

Ég óska mjög eindregið eftir því að hv. nefnd reyni að afgreiða þetta frv. því að eins og ég sagði áðan er nú liðinn áratugur frá því að það sá fyrst dagsins ljós. Með þeim breytingum sem hafa verið gerðar í því sambandi er auðvitað vel fært að afgreiða frv. þó einhverjar smávægilegar breytingar væru gerðar.

Ég geri ráð fyrir því að andi væntanlegs frv. til læknalaga verði sá sami. Ég vil ekki leggja mál alfarið í dóm læknadeildar frekar en deildar í tannlækningum. Ég er fyrir mitt leyti þeirrar skoðunar og hef alltaf verið. Ég vona að það sé yfirgnæfandi meiri hl. Alþingis á þeirri skoðun. Það ætti því ekki að verða til þess að tefja fyrir. En það frv. er miklu skemmra á veg komið og getur tekið lengri tíma en ég sé fyrir í dag.