02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4062 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

370. mál, verð á áburði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það sem skiptir höfuðmáli í þeirri umr. sem hér fer fram er ekki hvort áburðarverð verður ákveðið nokkrum dögum fyrr eða síðar, heldur hitt hvort framleiðslukostnaður við þá innlendu áburðarframleiðslu sem hér á sér stað er á heimsmarkaðsverði eða hvort sá framleiðslukostnaður er kominn yfir heimsmarkaðsverð. Það er við því sem bæði bændur og þingheimur þyrftu að fá svar. Sé svo komið, sem mig grunar og sjálfsagt fleiri, að framleiðslukostnaður á áburði sé kominn yfir heimsmarkaðsverð, er hér um að ræða iðnaðarvanda sem er velt yfir á landbúnaðinn. Ég vænti þess að ráðh. beiti sér fyrir athugun á því hvort svo er.

Í beinu framhaldi af því vaknar sú spurning hvort skynsamlegt sé að Áburðarverksmiðjan hafi einkaleyfi á innflutningi á áburði. Það hlýtur að vera sjálfsagður hlutur að áburður verði fluttur inn af þeim aðilum sem áhuga hefðu á slíku og treystu sér til að selja á lægra verði en Áburðarverksmiðja ríkisins býður upp á. Það sem ég tel fyrst og fremst alvarlegt við þessa stöðu er að hér er um verðlagningu frá einokunaraðila að ræða.

Ég vil geta þess að mér þykir vænt um að heyra hjá hv. 5. þm. Austurl. miklu vinsamlegri tón til bænda en ég varð var við á fundi sem ég mætti á í Reykjavík ásamt hv. Ólafi Ragnari Grímssyni þar sem hann taldi rétt að hnýta í bændur. En þar var hlustendahópurinn ekki úr þeirra röðum, heldur úr röðum iðnaðarmanna, og e. t. v. er þar að finna skýringuna.