02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3379)

370. mál, verð á áburði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er örstutt. (Forseti: Hefur þegar talað tvisvar og gerir örstutta aths.) Já.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir viðbótarsvör. Mér þykir það góðs viti að hann dregur í efa að áburðarverð þurfi að hækka á bilinu 50–100% og vona að það gangi eftir að ekki þurfi að koma til slíkrar hækkunar, enda eins og ég hef þegar tekið fram vandséð hvernig bændur ættu að rísa undir slíku eins og þeirra afkomu nú er háttað.

Ég tek undir það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson nefndi áðan í sambandi við lántökur Áburðarverksmiðjunnar á undanförnum árum þar sem hún hefur ekki haft aðgang að innlendu fjármagni, en verið gert að taka erlend dollaralán. Ég held að það sé í rauninni full þörf á því að fram fari rækileg úttekt á Áburðarverksmiðjunni, rekstri hennar og rekstrarforsendum, miðað við hvernig til hefur tekist á undanförnum árum. Ég er ekki með því að gera því skóna að í rekstri Áburðarverksmiðjunnar sé sólundað eða illa staðið að málum, ég hef ekki þekkingu til að dæma um slíkt, en ég tel eðlilegt að fram fari slík úttekt og teldi eðlilegt að ráðh. hlutaðist til um að svo yrði m. a. í ljósi núverandi stöðu.