02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4064 í B-deild Alþingistíðinda. (3380)

370. mál, verð á áburði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Nokkuð hefur skolast til hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni hvaða orð hann lét falla. En ég man það vel. Rollubændur fengu sérstaka kveðju á þessum fundi frá þm.

Núna telur hann aftur á móti vænlegra að víkja að vinnslustöðvum landbúnaðarins. Það er vissulega rétt að vinnslustöðvar landbúnaðarins hafa byggt yfir sig og sína starfsemi, en varðandi Mjólkursamsöluna mætti hv. þm. minnast þess að þegar Mjólkursamsalan seldi sínar mjólkurbúðir úti um allan bæ eignaðist hún vissulega nokkuð digran sjóð sem hún hefur varið til fjárfestingar.

Hann minnist á sláturfélögin og Bændahöllina. Það er viðurkennt, og það veit Ólafur Ragnar, að milliliðakostnaður í íslenskum landbúnaði, þ. e. álagning sem milliliðir hafa lagt á, hefur verið lægri en annars staðar. Ég get aftur á móti tekið undir það að veitt hefur verið of miklum fjárhæðum í það að byggja rándýr sláturhús. Ástæðan fyrir því er að mínu viti sú að menn gerðu svo miklar kröfur af hálfu heilbrigðiseftirlits og slíkra aðila að það nær engri átt.

Varðandi Bændahöllina er kannske rétt að geta þess að þegar hún var byggð á sínum tíma var tekið til þess erlent lán. Það var búið að veita þessa lóð undir húsnæði fyrir Búnaðarfélagið. Þáverandi borgarstjórn Reykjavíkur setti svo það skilyrði að hús skyldi vera af þeirri stærð á þessari lóð að það þurfti að byggja mjög stórt. Þá var farið í það m. a. að taka vissan hluta undir hótelrekstur.

Ég hef gaman af því þegar hv. 3. þm. Reykv. telur að hann geti bjargað sér á hundasundi frá því að hafa verið með aðkast í garð bænda á fundi hér í Reykjavík yfir í það að tala illa um afurðasölufélögin. En þó að hann sé e. t. v. syndari góður efa ég að hann bjargi sér á þessu sundi.