02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4066 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

24. mál, Búnaðarfélag Íslands

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Það fer líklega nokkuð vel á að umr. fari fram um þá till., sem ég hér mæli fyrir, í kjölfar þeirrar umr. sem nýlega er afstaðin á síðasta fundi.

Ég mæli hér fyrir till. á þskj. 24 um að ríkisstj. hlutist til um þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að ríkið hætti þátttöku í starfsemi Búnaðarfélags Íslands. Ég hef í höndum, herra forseti, bréf, sem mér hefur borist, og er þar um að ræða umsögn Búnaðarþings, senda til mín af Búnaðarfélagi Íslands, um þessa þáltill. þar sem þingið skorar á hið háa Alþingi að fella þessa þáltill.

Í grg. með þessari ályktun segir:

„Í ályktuninni er kveðið á um að ríkisstj. annist framkvæmd um að ríkið hætti þátttöku í starfsemi Búnaðarfélags Íslands“ — þar er höfðað til þeirrar ályktunar sem ég hef lagt fram — „eða m. ö. o. að fella niður fjárveitingu til félagsins og leggja þar með niður þá starfsemi og þjónustu sem þar er innt af hendi.“

Þarna gætir strax nokkurs misskilnings því að í þeirri till. sem ég lagði fram kom ekki neitt það fram sem benti til þess að ég gerði ráð fyrir að ríkið legði niður þessa starfsemi, heldur geng ég út frá því að jafnstór samtök og búnaðarsamböndin eru hafi fullt bolmagn til þess að halda áfram þeirri starfsemi sem þegar er fyrir hendi hjá Búnaðarfélagi Íslands.

Síðan segir í grg. með ályktun Búnaðarþings:

„Því er að vísu slegið fram að starfsemi þessari megi sinna með öðrum og hagkvæmari hætti, en látið hjá líða að gera því nánari skil né rökstyðja það á nokkurn máta.“

Enn fremur segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með flutningi þessarar þáltill. kemur fram mikið þekkingarleysi og skilningstregða á starfsemi og uppbyggingu Búnaðarfélags Íslands og sýnir það ásamt öðru hve brýn þörf er öflugrar upplýsingaþjónustu um íslenskan landbúnað og stofnanir hans.“

Til að byrja með vil ég benda á að í grg. þessari kemur einnig fram mikið þekkingarleysi og skilningstregða á hugmyndum Bandalags jafnaðarmanna um greinilegan aðskilnað aðila í stjórnsýslu og afnám íhlutunar og afskipta ríkisvalds af kjaramálum einstakra hagsmunaaðila í þjóðfélaginu. Auðvitað erum við hér að ræða um kjaramál afurðasala og framleiðsluaðila í landbúnaði. Öll sú starfsemi, sem ríkið kostar af hálfu Búnaðarfélags Íslands, hefur ekki neitt lítið að segja um kjör þessara aðila.

Þegar ég tala um annan og hagkvæmari hátt í þáltill. minni tala ég með sjónarmið ríkissjóðs í huga og sé hagkvæmni í því að spara þann útgjaldalið sem framlög til Búnaðarfélags Íslands eru, en hvernig Búnaðarfélag Íslands eða búnaðarsamböndin síðan ná hagkvæmni í sínum rekstri, þegar hann verður kostaður af búnaðarsamböndunum sjálfum, er ekki mitt mál, heldur þeirra sem þar ráða.

Af því að ég veit það að ég á von á því að hér komi menn í stól á eftir mér og hefji mál sitt að einhverju leyti með þeim hætti að reyna að koma þeim skilningi inn hjá mönnum að ég viti ekki hvað Búnaðarfélag Íslands er, þá ætta ég að leyfa mér að lesa úr grg. Búnaðarþings, sem með þeirri ályktun fylgir sem ég vitnaði í áðan, með leyfi hæstv. forseta, þar sem lýst er hlutverki Búnaðarþings:

„Búnaðarfélag Íslands er í reynd samband búnaðarsambandanna í hinum dreifðu byggðum, en þau eru aftur samband hreppabúnaðarfélaga sem eru grunneiningar í félagsskapnum. Á fulltrúafundi þeirra í búnaðarsamböndunum eru kosnir fulltrúar á Búnaðarþing sem kemur saman einu sinni á ári og þingar um hin ýmsu málefni landbúnaðarins, fagleg og félagsleg, og kýs stjórn fyrir Búnaðarfélag Íslands og er formaður þeirrar stjórnar jafnframt forseti á fundum Búnaðarþings. Stjórnin sér um að koma ákvörðunum Búnaðarþings á framfæri og er ábyrg gagnvart því. Uppbygging félagsskaparins er því í alla staði í anda lýðræðis.“

Ekki veit ég hvers vegna mönnum fannst nauðsynlegt að geta þess í grg. að uppbyggingin væri í anda lýðræðis, en þó er greinilegt að menn treystu sér ekki til að ganga miklu lengra en kalla að hún væri í anda lýðræðis. Þessum anda lýðræðis er fullnægt t. d. með því að fjöldi fulltrúa frá mismunandi svæðum og héruðum landsins er mjög misjafn og að miklu leyti í öfugu hlutfalli við fjölda þeirra sem að baki fulltrúunum standa, að ég tali nú ekki um í öfugu hlutfalli við hlutdeild þeirra í landbúnaðinum. (Gripið fram í.) Nei, þetta er það sem ég segi.

Enn fremur segir í grg.:

„Búnaðarfélag Íslands er þannig ekki ríkisstofnun, en fer með í umboði ríkisvaldsins framkvæmd ýmissa laga er varða landbúnað og ræður til þess ráðunauta og annað starfsfólk. Starfsemi þessi er að mestum hluta fjármögnuð af ríkissjóði og er það í fyllsta samræmi við það sem gerist um hliðstæðar stofnanir í nálægum löndum þar sem rekinn er þróaður landbúnaður.

Sem dæmi um starfsemi Búnaðarfélags Íslands skal fyrst og fremst nefnd framkvæmd jarðræktar- og búfjárræktarlaga og er sú starfsemi að líkindum þekktust þar sem lög þessi eru að stofni til um 60 ára gömul. Á grundvelli þeirra hefur Búnaðarfélag Íslands haft yfirumsjón með leiðbeiningarþjónustu í öllum greinum búrekstrar og annast þannig streymi upplýsinga og ráðgjafar út til bænda í gegnum héraðsráðunautaþjónustuna í búnaðarsamböndunum sem bændur fjármagna að nokkru leyti. Sem dæmi um aðra lagabálka sem Búnaðarfélagið fer með framkvæmd á má nefna lög um eyðingu refa og minka, lög um forfalla- og afleysingaþjónustu, lög um forðagæslu o. fl.“

Herra forseti. Í grg. segir eins og ég áður nefndi: „Búnaðarfélag Íslands er þannig ekki ríkisstofnun, en fer með í umboði ríkisvaldsins framkvæmd ýmissa laga er varða landbúnað og ræður til þess ráðunauta og annað starfsfólk.“

Ég hef tekið af handahófi úr kaflanum um atvinnuvegi í lagasafni því sem þm. hafa undir höndum nokkur sýnishorn sem ég tel að sýni mjög glögglega samband Búnaðarfélagsins og ríkisvaldsins og sýni það með þeim hætti sem ég tel með öllu óæskilegt. Við getum gripið niður í lög um stjórn ræktunarmála, þ. e. jarðræktarlög. Þar segir í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Landbrn. hefur á hendi æðstu stjórn allra ræktunarmála.“

Þetta hljómar ágætlega. Í 2. gr. segir aftur á móti: „Búnaðarfélag Íslands, sem stjórnað er af þriggja manna stjórn, sem kosin er af Búnaðarþingi,“ — takið eftir að ríkisvaldið á ekki neinn aðila í stjórn Búnaðarfélagsins — „hefur á hendi umsjón með framkvæmd þeirra ræktunarmála, sem ríkisframlag er veitt til skv. lögum þessum.“

Þátttaka ríkisins í stjórn Búnaðarfélagsins er, eins og menn vita, engin, en Búnaðarfélagið fer með framkvæmd laganna sem hér um ræðir.

Enn fremur segir um ríkisframlag til jarðræktar, húsabóta og hagræðingar í 10. gr. laganna:

„Til framkvæmda þeirra í jarðrækt og húsabótum, sem taldar eru í þessari grein, skal greiða framlag úr ríkissjóði sem hér segir, enda hafi Búnaðarfélag Íslands og Stofnlánadeild landbúnaðarins komið sér saman um stærðarmörk framkvæmdanna í sambandi við lán og styrkveitingar svo og að samræmis sé gætt við búrekstraráætlun fyrir viðkomandi jörð.“

Hérna eru Búnaðarfélag Íslands og í þessu tilviki Stofnlánadeild landbúnaðarins dómsaðilar um hvernig á framkvæmd laganna skuli haldið.

Í lögum nr. 79 frá 1972 segir enn fremur í ákvæði til bráðabirgða í IX. kafla laganna:

„Heimilt er landbrh. í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands að ákveða eftirgreind frávik frá ákvæðum þessarar greinar á næstu fimm árum.“

Það er ekki óalgengt í lögum sem að landbúnaði snúa að landbrh. sé náðarsamlegast heimilt að standa að framkvæmd ýmissa hluta, en þá eingöngu með samþykki stjórnar Búnaðarfélags Íslands.

Búnaðarfélagi Íslands er heldur ekkert óviðkomandi. Í 11. gr. d-lið stendur:

„Byggingar skulu gerðar eftir teikningum, er Byggingarstofnun landbúnaðarins og Búnaðarfélag Íslands viðurkenna.“

Í 23. gr. laga nr. 79/1972 er enn undirstrikað ósjálfstæði ráðh. í þessum málum:

„Landbrh. gefur út reglugerð, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands, um framkvæmd laga þessara. Búnaðarfélag Íslands gefur út fyrirmæli um gerð jarðabóta og úttekt þeirra.“

Í lögum nr. 31/1973, þ. e. búfjárræktarlögum, segir í 1. gr.:

„Landbrn. hefur á hendi æðstu stjórn búfjárræktarmála.“

En síðan kemur: „Búnaðarfélag Íslands hefur umsjón með búfjárrækt í landinu og fer með framkvæmd laga þessara fyrir hönd landbrn.

Búnaðarfélag Íslands annast ráðunautaþjónustu í búfjárrækt og mótar heildarstefnu í ræktun hverrar búfjártegundar.“

Í lögum nr. 31/1973 segir um ræktun erlendra búfjárkynja og blöndun þeirra við innlent búfé í 48. gr: „Landbrn. sér um, að aðstaða verði á einu eða fleiri ríkisbúum eða tilraunabúum til að mynda búfjárkyn eða kynbæta þau ... Leita skal umsagnar og tillagna Búnaðarfélags Íslands um staðarval og alla tilhögun.“

Og í 52. gr. segir:

„Þá skal landbrh. hlutast til um, að komið verði á fót sérstöku búi, þar sem ræktað sé úrval af þessum stofni. Búið standi undir umsjá og eftirliti Búnaðarfélags Íslands.“

Í lögum nr. 20 frá 1967 stendur um Búreikningastofu landbúnaðarins:

„Stofna skal og starfrækja búreikningastofu undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands. Skal það fela ákveðnum manni stjórn hennar og leggja honum til aðstoð og starfsfé, svo sem nauðsyn ber til.

Kostnaður við Búreikningastofu landbúnaðarins greiðist úr ríkissjóði skv. ákvæðum fjárlaga hverju sinni.“

Mér er spurn í þessu tilviki t. d.: Hvers vegna þarf að setja landslög um svona hluti, sem snúa jafneinhliða að búrekstri? Enn fremur má líka spyrja: Hvers vegna þurfti að setja landslög um Framleiðsluráð landbúnaðarins? Þar segir um skipan og verkefni Framleiðsluráðs, með leyfi hæstv. forseta, í 1. gr.:

„Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur á hendi aðalframkvæmd laga þessara, og skal það skipað þannig: 7 mönnum kosnum af Stéttarsambandi bænda á fullfrúafundi þess, og sé einn þeirra formaður Framleiðsluráðs, og 4 mönnum, er stjórn Stéttarsambandsins skipar skv. tilnefningu eftirgreindra aðila, einn frá hverjum: þeirri deild Sambands ísl. samvinnufélaga, er fer með sölu landbúnaðarafurða, Mjólkursamsölunni í Reykjavík, Sláturfélagi Suðurlands og mjólkurbúum utan mjólkursölusvæðis Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, allir til tveggja ára í senn. Framleiðsluráð kýs sér formann til sama tíma.“

Ríkið á enga aðild að þessu margfræga ráði.

Í öllum þessum lagabálkum er að finna dæmigerða grein þar sem stendur enn og aftur:

„Landbrh. setur í samráði við Búnaðarfélag Íslands reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd þessara laga.“

Aldrei er landbrh. heimilt að setja reglugerð um eitt eða annað öðruvísi en í samráði við Búnaðarfélag Íslands.

Í lögum um innflutning búfjár segir í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Bannað er að flytja til landsins hvers konar dýr tamin og villt, þar með taldir fuglar.“

Í 2. gr. segir:

„Landbrh. getur þó því aðeins notað heimild 1. gr. þessara laga, að stjórn Búnaðarfélags Íslands mæli með því og yfirdýralæknir samþykki innflutninginn . . .

Stjórn Búnaðarfélags Íslands ákveður, hvaða búfjártegundir og frá hvaða landi og héraði búféð er keypt, enda leiti yfirdýralæknir upplýsinga hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvalda búfjártegundir og frá hvaða landi og héraði búféð er keypt, enda leiti yfirdýralæknir upplýsinga hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvaldabúfjár. . .

Allan kostnað,“ segir aftur á móti í 3. gr., „við kaup búfjárins skal greiða úr ríkissjóði, enda sé hið innflutta búfé eign ríkisins. Fjárframlög ríkissjóðs í þessu skyni skulu ákveðin í fjárlögum.“

Áhættan er öll á hendi ríkisins. Það er sú náð sem í þessum lögum yfirleitt felst, að ríkinu er heimilt að taka á sig áhættuna á meðan utanaðkomandi aðilar stjórna framkvæmd laganna.

Þetta er, eins og ég áður sagði, herra forseti, sýnishorn af lögum sem að landbúnaði snúa.

Það segir í bréfi Búnaðarfélags Íslands með umsögn þess um þessa þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og sjá má af framansögðu hafa Búnaðarfélag Íslands og Búnaðarþing einhver afskipti af öllum félagsog hagsmunamálum landbúnaðarins öðrum en verðlagsmálum. Bændur verða sjálfir, ef vel á að fara, að taka virkan þátt í uppbyggingu leiðbeiningarþjónustunnar á ýmsum sviðum, svo sem með skýrslugerð um afurðasemi búfjár, og þeir kosta þessa þjónustu að hluta til, bæði beint og óbeint. Það er því fullkomlega eðlilegt að þeir hafi sjálfir á hendi yfirstjórn þessarar starfsemi þótt hún sé vissulega fjármögnuð af ríkinu að meiri hluta.“ — Þessu er ég ósammála.

Enn fremur segir:

„Hér hefur í afar stórum dráttum verið leitast við að skýra afstöðu og starfsháttu Búnaðarfélags Íslands. Efalaust má ýmislegt bæta þar og færa til betri vegar sem í öðrum stofnunum og skylt er að taka allri heilbrigðri gagnrýni með opnum huga. Hitt nær hins vegar engri átt að aðilar í æðstu stöðum þjóðfélagsins“ — ég geri mér ekki alveg grein fyrir því, herra forseti, hvort hér er átt við mig — „leggi til að lögð verði niður nær aldargömul félagsuppbygging og leiðbeiningarþjónusta eða henni gerbreytt án nokkurs rökstuðnings þar að lútandi.“ — Og þá komum við að rökstuðningnum.

Ég tel að í seinustu setningunni felist þegar hluti af rökstuðningnum. Þeir segja hér sjálfir: „Nær aldargömul félagsuppbygging og leiðbeiningarþjónusta.“ Það er hluti af þeim vanda sem að bændum steðjar í dag, eins og hv. 3. þm. Reykv. benti á áðan, að á meðan vissir aðilar, sérstaklega framleiðsluaðilar, safna auð — kannske ekki endilega með augun rauð — flosna bændur upp víðs vegar um allt land vegna þess að afkoma þeirra er orðin svo ótrygg að þeir geta ekki staðið lengur í þessum atvinnurekstri. Skyldi ekki hluti af þessum vanda vera fólginn í því hvernig staðið er að þessum málum í dag sem er einfaldlega úr takt við tímann? Það var eðlilegt á meðan allir Íslendingar voru bændur að samskipti ríkis og samtaka bænda væru náin, en nú er aðeins hluti Íslendinga bændur og mikilvægi þessarar stéttar umfram aðrar stéttir ekki nægilega mikið til að réttlæta þessa sérstöku meðhöndlun fjárveitingavaldsins á málefnum þeirra. Hitt lít ég kannske öllu alvarlegri augum, að í þessari löggjöf allri, sem tengist starfsemi Búnaðarfélags Íslands, á sér stað gífurlega mikið valdaafsal löggjafans og fjárveitingavaldsins í hendur samtökum sem starfa í raun algerlega óháð ríkisvaldinu. Samsetning þeirra er með þeim hætti að ríkisvaldið hefur engin áhrif á það. Stjórn þeirra hefur ríkisvaldið engin áhrif á. Ríkisvaldið hefur ekki nema einu hlutverki að gegna gagnvart þessum samtökum. Það á að borga brúsann. Ég sé ekki að þessu máli megi ekki mjög auðveldlega breyta til þess vegar að búnaðarsamböndin standi að rekstri Búnaðarfélags Íslands með þeim hætti sem þau telja sér best þjóna og þá sérstaklega bændum sjálfum.

Hv. 3. þm. Reykv. benti á það áðan að starfsemi þeirra aðila sem starfað hafa í nafni bænda hafi hugsanlega ekki skilað þeim árangri sem skyldi fyrir bændur. Ég tel þá ábendingu mjög réttmæta, það samkrull sem orðið er á hagsmunum forustumanna bændasamtakanna. Ég legg áherslu á orðið „forustumenn“ því að ég er ekki viss um að þar séum við að tala um bændur í sjálfu sér. Sá hagsmunaruglingur, sem þar hefur átt sér stað á undanförnum árum og áratugum, hefur leitt til þess að ég held að þessir aðilar geri sér ekki alltaf grein fyrir því hverra hagsmuni þeir eru að verja, hverra hagsmunum þeir eigi að þjóna. Ég nefni sem dæmi ályktun, sem mér barst einnig í hendur frá síðasta Búnaðarþingi, þar sem Búnaðarþing tekur afstöðu til áhrifa niðurgreiðslna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er lækkun niðurgreiðslna neikvæðari og óraunsærri á sama tíma sem kaupmáttur þorra fólks í þjóðfélaginu er orðinn svo skertur að neysla landbúnaðarvara er vart orðinn sá hollustugrunnur í manneldi sem nauðsyn ber til og matvælainnflutningur eykst á kostnað dýrmæts gjaldeyrisforða. Búnaðarþing telur því beinast að niðurgreiðslur verði auknar á ný og vill benda á að sú efnahagsaðgerð ætti m. a. að auðvelda frið á vinnumarkaði og koma einkum láglaunafólki til góða.“

Hérna er Búnaðarþing að fjalla um allt annað en hagsmuni bænda. Búnaðarþing er þar að fjalla um þau mál sem ætti að fjalla um í sölum Alþingis, þ. e. hagsmuni hins almenna borgara. Búnaðarsamböndin og Búnaðarfélagið eru stofnanir sem eiga að þjóna hagsmunum bænda fyrst og fremst og hagsmunum bænda eingöngu. Það er ekki þeirra hlutverk að hafa áhyggjur af hagsmunum annarra stétta í þessu þjóðfélagi en bænda sjálfra. En það skyldi ekki vera að þau hafi með árunum ruglast svo í hlutverki sínu vegna þess að löggjöf landsins hefur tengt hagsmuni þeirra náið ríkisvaldinu. Búnaðarfélag Íslands lítur orðið á sig sem hluta af ríkinu. Þegar það tekur afstöðu til hagsmunamálefna bænda skoðar það málið út frá sjónarhóli þeirra sem landinu stjórna, en ekki þeirra sem eiga að þjóna hagsmunum bænda. Vegna þess að ég er þeirrar sannfæringar að þannig sé komið með þann hugsunargang sem þar ræður ríkjum tel ég mjög nauðsynlegt að tengsl ríkisvalds og Búnaðarfélags verði rofin þannig að Búnaðarfélagið geti skilað þeim árangri fyrir bændur sem það á að gera.