29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

106. mál, tannlækningar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hæstv. heilbr.- og trmrh. Það er kominn tími til að þessi lög verði afgreidd þegar í ljós kemur að það er að verða áratugur síðan þau voru fyrst lögð fram á þingi. Reyndar gildir líklega sama um þau lög sem voru til umr. á undan þessum. Ekki er sjáanleg nein ástæða fyrir því að svo lengi hefur dregist að samþykkja þau.

Hvað viðkemur fyrri aths. mínum um gildi þessara laga, þá eru þær kannske meira um grundvallaratriði. Það fer sífellt í vöxt að samþykkt eru lög hér á Alþingi um rétt manna til eins eða annars. Slík lög eru yfirleitt lög um takmörkun mannréttinda, þ.e. þau lúta að því að afmarka þann hóp manna sem hefur leyfi til þess að stunda einhver ákveðin tiltekin störf og eru þá öðrum þræðinum líka um aukin sérréttindi sama hóps.

Í lögum þessum felst, án þess kannske að ráð sé fyrir því gert, ákveðin ábyrgð á starfi þessara manna. Það sanna m.a. atriði eins og refsingarákvæði. Þegar löggjafinn tekur það hlutverk að sér að veita mönnum réttindi til starfa tekur hann um leið, a.m.k. í orði kveðnu, ábyrgð á því að þeir sinni því verki sem um ræðir þannig að viðskiptavinur þess hins sama geti vel við unað. Auðvitað vitum við að þegar til kastanna kemur ber löggjafinn eftir sem áður enga ábyrgð á því að viðkomandi maður ræki starf sitt eins og skyldi, a.m.k. mjög takmarkað. Hann hleypur a.m.k. ekki í skarðið með fébótum ef viðkomandi sérfræðingur hefur unnið störf sín mjög laklega.

Ég orða þetta vegna þess að ég vil brjóta upp á þeirri hugsun hvort allir þessir lagabálkar um sérréttindi manna til starfsleyfa séu kannske ekki þegar öllu er á botninn hvolft orðið dálítið erfitt og vandasamt mál. Við gætum alveg eins, sérstaklega miðað við framkvæmd málsins, hugsað okkur að þetta gæti gerst öðruvísi, þ.e. við gætum algerlega falið þetta í hendur þeirra félaga sem viðkomandi sérgrein stendur að. Ég segi þetta vegna þess að í öllum þessum lögum, eins og hæstv. ráðh. benti á áðan, eru ákvæði um að sérgreinafélög hafi umsagnaraðild um hæfni manna til þess að gegna viðkomandi störfum. Auðvitað er það, eins og hæstv. ráðh. benti á, á hans valdi að vera með eða á móti umsögn viðkomandi sérgreinafélags, en eftir sem áður ber hann endanlega ekki beina ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni. Segjum sem svo að sérgreinafélagið hafi talið manninn vanhæfan til starfa. Ráðh. ákveður að hann eigi að öðlast réttindin. Maðurinn reynist kannske vanhæfur til starfa og er kærður fyrir afglöp í starfi. Ráðherrann sem veitti honum leyfið ber ekki neina ábyrgð á gerðum hans eða verkum. Ég tel þarna verið að axla hlutverk með ákveðinni ábyrgð án þess að hún falli á mann þegar í harðbakka slær. Vegna þess hvað sérgreinafélögunum er veitt mikil aðild að þessum leyfisveitingum tel ég eðlilegt að hugsa þá hugsun einhvern tíma til enda að það sé yfir höfuð ekki hlutverk löggjafans að veita þessi réttindi. Annar hvor aðilinn hlýtur að vera fyllilega ábyrgur gerða sinna í ákvörðun um hvort maðurinn eigi að fá starfsréttindi. Menn verða bara að gera það upp við sig hvort það er löggjafinn eða sérgreinafélagið. Að þeirri niðurstöðu fenginni hafi ekki báðir aðild að málinu heldur aðeins annar.