02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4083 í B-deild Alþingistíðinda. (3390)

202. mál, skóg- og trjárækt á Suðurnesjum

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. við till. til þál. um könnun á möguleikum á skóg- og trjárækt á Suðurnesjum. Það hefur fallið niður í þessu nál. — trúlega er það mín sök að geta þess ekki — að fjarverandi afgreiðslu þessa máls var einnig hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson.

Nefndin kallaði á sinn fund skógræktarstjóra ríkisins og ræddi efni þessarar þáltill. Við, sem að þessu nál. stöndum, vorum sammála um það að ef á Suðurnesjum fyndist hentugt svæði til skógræktar væri það að mörgu leyti mjög æskilegt að Skógrækt ríkisins og félagasamtök á þessu svæði stæðu sameiginlega að ræktun. Það fer ekki á milli mála að sá mikli fjöldi æskumanna sem er á þessu landsvæði hér suðvestanlands hefði þar mjög hollan starfsvettvang að kynnast skógrækt og stuðla að uppgræðslu landsins. Efni þáltill. er á þann veg að þar er óskað eftir því að kannað verði hvort þetta sé hægt og ef svo reynist þá verði hafist handa.

Ég verð persónulega að segja það eins og er að ég er mjög hlynntur því að við Íslendingar aukum okkar skógrækt. Mér er því ánægja að mæla fyrir nál. sem er mjög stutt. Nefndin leggur til að till. verði samþykkt. Undir nál. skrifa allir sem voru á fundinum en fjarverandi afgreiðslu málsins voru hv. þm. Stefán Benediktsson og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson.