02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4085 í B-deild Alþingistíðinda. (3394)

354. mál, þátttaka ríkisfyrirtækja í uppbyggingu atvinnulífs

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um virka þátttöku fyrirtækja í eigu ríkisins í uppbyggingu atvinnulífs. Flm. auk mín eru þeir hv. þm. Valdimar Indriðason, Skúli Alexandersson og Eiður Guðnason. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að sú stefna skuli vera ríkjandi í stjórn og rekstri atvinnufyrirtækja, sem ríkið á að hluta eða öllu leyti, að þau skuli ein sér eða í samvinnu við aðra vera, virkir aðilar að hvers kyns nýjungum í uppbyggingu atvinnurekstrar.

Því felur Alþingi ráðherrum þeim, sem fara með málefni slíkra fyrirtækja, að hlutast til um að stjórnir þeirra hrindi þessari stefnu í framkvæmd hvarvetna sem færi gefst.“

Þörfin fyrir öfluga uppbyggingu atvinnulífs hér á landi er óumdeild. Verðmætamyndun í þeim atvinnurekstri, sem fyrir er í landinu, er af ýmsum ástæðum hvergi nærri nóg til að skila þeim lífskjörum sem þjóðin er reiðubúin til að sætta sig við, og því er þörfin knýjandi að allra færa sé leitað til að setja á fót nýjan atvinnurekstur, nýta auðlindir og aðstöðu, sem nú er ekki nýtt, og bæta nýtingu þess sem fyrir er. Við þessu verður allur atvinnurekstur í landinu að bregðast og beita öllum þeim ráðum sem honum eru tiltæk til að koma í verk arðbærum nývirkjum til að skjóta nýjum stoðum undir atvinnulíf víðs vegar um landið.

Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að því mikla afli, sem fólgið er í mannafla, þekkingu og aðstöðu fyrirtækjanna, sem ríkið á að öllu eða verulegu leyti, sé beitt af fullum unga í þessa átt.

Sé litið til aðstæðna í kjördæmi okkar flm. á þessi tillaga ekki síst við þar. Í héraðinu eru mörg fyrirtæki í einka- eða félagseign og einstaklingar í atvinnurekstri sem eflaust munu axla sinn hlut í þeirri atvinnuþróun sem þarna er þörf fyrir. f héraðinu eru sömuleiðis tvö meiri háttar atvinnufyrirtæki á vegum ríkisins, Sementsverksmiðja ríkisins og Íslenska járnblendifélagið hf.

Við flm. till. teljum nauðsynlegt að Atþingi lýsi afdráttarlaust yfir þeirri stefnu að ríkisfyrirtækjum af þessu tagi beri að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu atvinnulífs sem þörf er fyrir. Flestum er kunnugt að bæði þessi fyrirtæki, sem hér eru nefnd, hafa haft uppi allverulega viðleitni í þessa átt. Að því er Járnblendifélagið varðar þarf jafnframt að huga að því hvort aðstæður eru til að verksmiðja þess til framleiðslu á kísiljárni verði stækkuð að svo stöddu. Um það verður hins vegar ekkert fullyrt hér.

Alþingi hefur ákveðið að framleiðsla kísilmálms skuli hafin á Reyðarfirði fremur en í Hvalfirði, þegar aðstæður leyfa, þótt hinn síðarnefndi kostur sé án efa mun hagkvæmari fjárhagslega með tilliti til staðsetningar. (Gripið fram í: Hvað mikið?) 3–400 millj. Það er mjög mikilvægt að forráðamenn starfsemi af þessu tagi finni að baki sér stuðning og þrýsting af hálfu Alþingis að beita þeim mætti, þekkingu, reynslu og stjórnunargetu sem fyrir hendi er í þessum fyrirtækjum til að þrautleita allar leiðir til þess að koma á fót nýjum atvinnurekstri í héraðinu.

Herra forseti. Það hefði vissulega verið ástæða til að greina hér frá því þróunarstarfi sem þegar hefur verið af hendi leyst sameiginlega á vegum Sementsverksmiðju ríkisins og Íslenska járnblendifélagsins. A. m. k. hefur verið hafinn rækilegur undirbúningur að slíku þróunarstarfi. Ég veit ekki annað en að það sé ákveðið að koma á fót sameiginlegu þróunarfyrirtæki þessara tveggja fyrirtækja, ekki síst í því augnamiði að hafa samstarf um frekari þróun sementsframleiðslu, en eins og kunnugt er er íblöndun kísilryks hafin fyrir alllöngu síðan og hefur bætt allverulega gæði sements. Á vegum hins nýstofnaða þróunarfyrirtækis verður væntanlega framhald á þessu og aðilar munu vafalaust leitast við að þróa sementsframleiðsluna og framleiðsluhluta úr sementi enn frekar en gert hefur verið.

Um þetta mætti að sjálfsögðu fjalla í nokkuð löngu máli því að allmörg svið hefur þróunarfyrirtækið þegar ákveðið að kanna í þessu efni. Þetta er um sameiginleg verkefni sem fyrirhugað er að vinna að á vegum Sementsverksmiðjunnar og járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Hins vegar er því ekki að neita að það gæti orðið spennandi verkefni að vinna að á komandi tímum að nýta í ríkari mæli þá orku sem fer nánast út í loftið frá Grundartangaverksmiðjunni. Sem dæmi um það er mér tjáð að út um strompa verksmiðjunnar fari viðlíka orka, hitaorka, og sú raforks sem verksmiðjan kaupir, eða 40–50 megawött. Þetta er aðeins dæmi um þau verk­ efni sem bíða á þessum vettvangi.

Herra forseti. Ég hef ekki um þessa till. fleiri orð en legg til að henni verði vísað til atvmn. að loknum þessum hluta umr.