02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4086 í B-deild Alþingistíðinda. (3396)

362. mál, alþjóðleg tækni í rekstri

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heldur fjölgar í salnum. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um aðstoð við íslensk fyrirtæki til að tileinka sér alþjóðlega tækni í rekstri, framleiðslu og viðskiptum. Till. er á þskj. 575. Flm. auk þess sem hér stendur í ræðustóli eru hv. þm, Ragnar Arnalds, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur Einarsson og Guðrún Agnarsdóttir. Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að stofna til aðgerða sem hafi það markmið að aðstoða íslensk fyrirtæki við að tileinka sér alþjóðlega tækni í rekstri, framleiðslu og viðskiptum.

Aðgerðir þessar verði tvíþættar:

1. Sett verði upp kerfi viðskiptafulltrúa sem aðstoði íslensk fyrirtæki í þeim löndum sem lengst eru komin í tækni og stjórnun fyrirtækja.

2. Lagðar verði fram áætlanir um að aðstoða íslensk fyrirtæki við að tileinka sér nýjustu aðferðir við framleiðslu, stjórnun og sölu.

Verkefni viðskiptafulltrúanna verði fyrst og fremst að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að komast í samvinnu eða samband við vel rekin og nýtískuleg fyrirtæki erlendis, sem eru tilbúin til að setja framleiðsluleyfi, tækni og/eða stjórnunar- og markaðsþekkingu, eða annan hátt að aðstoða við þróun fyrirtækja á Íslandi. Viðskiptafulltrúarnir verði tengdir sendiráðum Íslands og þeim stofnunum sem veita fyrirtækjum aðstoð.“

Rekstur fyrirtækja í heiminum einkennist nú af því að breytingar og framfarir verða sífellt hraðari, öll viðskipti eru að verða alþjóðlegri, ef svo má að orði komast, og sífellt aukin áhersla er lögð á rannsóknir og vöruþróun. Þrátt fyrir að Ísland liggi mitt á milli stórra markaðssvæða er íslensk atvinnustarfsemi í raun mjög einangruð. Það er jafnframt viðurkennd staðreynd að íslensk fyrirtæki eru flest of smá til að geta staðið ein sér undir umfangsmiklu rannsóknar- og þróunarstarfi og alls ekki hæf í mörgum tilvikum stjórnunarlega til að starfa á alþjóðlegum vettvangi. Það er því mikil hætta á að fyrirtækin dragist aftur úr og muni í framtíðinni tapa framleiðslu sinni til sterkari og betur skipulagðra fyrirtækja erlendis.

Ýmislegt hefur þó á undanförnum árum verið gert til þess að aðstoða fyrirtæki á Íslandi, en flest hefur það verið unnið af vanefnum, enda hefur fyrirtækjunum gengið illa að komast út úr þeirri einangrun sem þau hafa búið við. Það er því álit okkar flm. að þörf sé á að leita nýrra leiða ef árangur á að nást.

Framfarir í fyrirtækjum byggjast fyrst og fremst á tæknilegri og stjórnunarlegri þekkingu starfsmanna og því hversu vel starfsmönnunum gengur að tileinka sér nýja þekkingu og nýta hana í störfum sínum. Enginn skortur er á upplýsingum og það er ódýrt og mjög auðvelt að fá upplýsingar í miklu magni. Kostnaðurinn við að tileinka sér tækni er fyrst og fremst fólginn í því að velja og hafna og sameina upplýsingarnar í kerfi þannig að samspil náist í framleiðslu og sölu. Ráðgjafar og tæknistofnanir gegna mikilvægu hlutverki í þessu efni, en bestur árangur næst þó þegar bein samvinna fyrirtækja tekst og upplýsingarnar eru seldar eða þeim miðlað sem framleiðsluleyfum, sölu- eða þróunarsamningum. Þekkingarmiðlunin verður auk þess að vera mjög markviss ef hún á að koma að gagni. Milligöngumaðurinn þarf að þekkja mjög vel getu og þarfir fyrirtækjanna sem leita að þekkingu og hafa auk þess góða yfirsýn yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru. Markvissasta og fljótvirkasta aðferðin er því að koma á sambandi milli íslenskra og erlendra fyrirtækja sem hafa náð bestum árangri og eru tilleiðanleg til þess að miðla tæknilegri og stjórnunarlegri þekkingu sinni.

Herra forseti. Nú hefur heldur fækkað í salnum. Af þeim sökum og ýmsum öðrum er ekki ástæða til málalenginga nú fremur en fyrr. Ég legg til að þessari till. verði vísað til allshn. (Forseti: Er ekki rétt að hún fari til atvmn.?) Jú, ég tek leiðbeiningum eins og aðrir góðir bændur og legg til að till. verði vísað til atvmn. að loknum þessum hluta umr.